Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Þeir dauðu kallaðir til verka

"Látnir tína upp plastpoka", segir í fyrirsögn fréttar á mbl. Þetta er alveg bráðsnjallt hjá löggunni á Selfossi í öllum sparnaðinum og niðurskurðinum. Leita bara til framliðinna og fá þá til að taka til hendinni. Sennilega lítið að gera hjá þeim hvort sem er og hægt að fá vinnu þeirra fyrir lítið.- Ætli Sálarrannsóknarfélagið sé komið með vinnumiðlun?

Annars er auðvitað rétt að bæta því við að þetta er ágætt hjá löggunni að láta þessa pjakka tína upp ruslið eftir sig eins og kemur fram í fréttinni sjálfri, að fyrirsögninni slepptri.


mbl.is Látnir tína upp plastpoka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að réttlæta óþarfa ferð víkingasveitar?

Óttalega finnst mér þetta mikil lágkúra og yfirborðskennt hjá lögregluyfirvöldum að draga nú fyrir dóm mótmælanda gegn Kárahnjúkavirkjun fyir tæpum tveimur árum vegna smá skemmda á einhverjum löggubíl. Sérstaklega í ljósi þess að kæru mannsins á hendur lögreglunni fyrir að reyna að keyra sig niður var vísað frá.

Sjálfur var ég viðstaddur og horfði á úr fjarlægð þegar lögreglan kom til að fjarlægja fólkið úr tjaldbúðunum. Ekki sá ég þennan atburð en þetta fólk sýndi ekki af sér neina ofbeldistilburði. Það bara hlýddi tilmælum lögreglu og fór um borð í rútu sem kom á staðinn. Þarna mætti fjöldi lögreglumanna og meira að segja voru sendir á staðinn víkingasveitarmenn bæði að norðan og sunnan. Kannski eru lögregluyfirvöld að reyna að réttlæta það bruðl með þessu dómsmáli nú og svo þurfa þeir náttúrlega að koma böndum á þennan mann, sem meira að segja hefur slett skyri.

Ég hef dáðst að stillingu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við mótmæli trukkabílstjóra en lágkúran fyrir austan er algjör. Skammist ykkar lögguforingjar! 


mbl.is Aðgerðarsinni fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrst upplausn svo koma frelsandi einkavinir

Þessi tíðindi, hugmyndir um  að gera Landspítalann að opinberu hlutafélagi, koma ekki á óvart. Af þróun mála varðandi þessa stofnun upp á síðkastið má vera ljóst að einkavæðing er á dagskrá. Fyrst er að tína út eitthvað bitastætt fyrir verktaka, næsta skrefið er svo ohf., með stefnuna á einkavæðingu. Ég hef áður nefnt þetta í bloggfærslum varðandi uppsagnir 98 hjúkrunarfræðinga, sem að öllu óbreyttu hætta störfum um næstu mánaðamót. Þetta ber allt að sama brunni. Valda upplausn meðal starfsfólks og skapa óánægju hjá fólkinu sem heldur uppi starfseminni. Síðan koma lausnirnar. Einkavinirnir koma sem frelsandi englar og leysa stofnunina undan ánauð ríkisins.

Sem betur fer höfum við átt því láni að fagna að geta byggt upp gott heilbrigðiskerfi fyrir þjóðina alla. Þangað hefur fólk getað leitað án þess að forgangsraðað sé eftir peningaeign viðkomandi. Nú á að ameríkansera allt það sem búið er að byggja upp með samstilltu átaki þjóðarinnar. Færa heilbrigði fólks á vogarskálar peninganna. - Opinbert hlutafélag er bara skref í þessa átt, verktakavæðingin er skref líka. - Við skulum vona að ekki náist að stíga svo mörg skref í þessu ferli að við hættum að hugsa um náungann og að hjálpa hvert öðru.

Þetta er tilfinning mín gagnvart því sem verið hefur að gerast. Kannski er ég að mála þetta of dökkum litum. Ég ætla rétt að vona það og að raunveruleikinn verði annar. 


mbl.is Landspítalinn opinbert hlutafélag?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski er kominn tími til að tengja

Afstaða almennings til Evrópusambandsins virðist vera á þann veginn þessa dagana að þangað hafi Íslendingar eitthvað að sækja, ef marka má niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins. Fólk virðist nokkuð samstíga í þessu. Enginn munur er á afstöðu kynjanna og nánast enginn eftir búsetu, þannig að landsbyggðarfólk ekki síður en þeir sem búa á höfuðborgarsvðinu hallast orðið að því að þessi mál séu skoðuð.

Ekki er nokkur vafi á að sviptingarnar í efnahagslífinu að undanförnu og sá raunveruleiki að Ísland er ekki lengur afskipt eyland, ráða mestu um að fólk er í dag tilbúnara en áður til að líta til annarra Evrópulanda. Málið er bara einfaldlega það að öll okkar efnahagslega afkoma er ekki lengur bara háð því hvernig árar í íslenskum sjávarútvegi eins og lengst af. Þar spila nú utanaðkomandi hlutir stærri rullu en áður og því er eflaust ekki til neins fyrir okkur að loka okkur af hér á skerinu lengur. Við verðum að skoða hvaða möguleika við eigum í stærra samfélagi þjóða. Kannski er kominn tími til að tengja, eins og Skriðjöklarnir norðlensku sungu um í eina tíð.


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændum, kjötiðnaðarmönnum og neytendum er treystandi

Ég verð að segja það enn og aftur að mér finnst pirringurinn, óttinn og stressið yfir þessum mögulega kjötinnflutningi óþarflega mikill. Finnst reyndar ótrúlega lítið traust borið til íslenskra neytenda. Býst fólk virkilega við því að Íslendingar hlaupi allir upp til handa og fóta og kaupi útlent kjöt umfram það íslenska jafnvel þótt það verði eitthvað ódýrara? Ekki sér maður mikla hreyfingu á því útlenda kjöti, sem nú þegar er boðið upp á í verslunum, sem er þó nokkuð samt. Ég er viss um að íslenskar kjötvinnslur halda velli eftir sem áður og geta meira að segja farið að stunda útflutning. Ætlumst við ekki til þess að geta flutt út bæði fisk og kjöt, hvers vegna eigum við að setja hömlur á innflutning frá sömu þjóðum og við erum að flytja okkar matvæli til?

Það er mikill hræðsluáróður í þessu öllu saman og ekki síst þessi sjúkdóma- og smitótti. Landið er opið í dag. Íslendingar ferðast milli landa og útlendingar koma hingað. Það er af sem áður var að beðið sé komu vorskipsins. Smit getur borist á allan hátt til landsins, meira að segja á hjólbörðum bíla og skófatnaði fólks, svo eitthvað sé nefnt. Eftirlit með innfluttum matvælum hlýtur að verða jafn mikið og með íslenskum matvælum. Því verðum við að trúa.

Hættið nú þessari endalausu forsjárhyggju og treystið á skynsemi samlanda ykkar. Ísland er heldur ekkert einangrað fyrirbæri lengur. Innflutningur á einhverjum útlenskum kjöttuttlum verður ekki til að lama atvinnulíf í heilu byggðarlögunum. Íslenskir bændur, kjötiðnaðarmenn og neytendur sjá til þess. Þessu fólki er nefnilega treystandi.


mbl.is Vilja ekki innflutning á fersku kjöti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verndum ríkidæmið, Geir!

Það er ótrúlegt að þetta skuli vera að gerast hjá einni ríkustu þjóð heims (svo segir Geir) að ekki sé hægt að semja við hátt í hundrað hjúkrunarfræðinga á stærsta sjúkrahúsi landsins. Það er rétt hjá Geir að við erum rík þjóð. Eitt okkar helsta ríkidæmi er að eiga gott heilbrigðiskerfi, sem byggist á góðu starfsfólki, án þess er engin heilbrigðisþjónusta. Undirsátar Geirs eru að setja þetta ríkidæmi í hættu. Nú er svo komið að samningaviðræður ganga ekkert og verið er að taka fólk á eintal líklega til að brjóta niður samstöðuna. Málið virðist fyrst og fremst snúast um mannlega þætti. Hjúkrunarfræðingar telja breytingar á vaktafyrirkomulagi slæmar. Eflaust spila einhverjir þúsund kallar þar inn í og þá vilja forsvarsmenn sjúkrahússins bæta með einhverjum bílastyrk. - Af hverju mega peningagreiðslur hjá ríkinu aldrei kallast laun?

Hvar er svo heilbrigðisráðherra? - Ætlar hann að láta þetta gerast án íhlutunar? - Er hann kannski að bíða eftir að bjóða þessi störf út í verktöku? - Það virðast nefnilega oft vera til peningar í verktakastarfsemi í heilbrigðiskerfinu, sem er ekkert annað en einkavæðing á ríkisframfæri. - Hvar eru Geir og Solla? - Ég trúi því ekki að Samfylkingin ætli að verja þennan aumingjaskap samstarfsflokksins og láta þetta yfir sig ganga. - Látið nú hendur standa fram úr ermum.

Hins vegar er fyrirsögnin á fréttinni nokkuð góð og hægt að gera grín að henni. Eins gott að framkvæmdin sé ekki samkvæmt orðanna hljóðan, því ekki er víst að allt þetta fólk gæti þá fengið þá hjúkrun sem það þyrfti.


mbl.is „Verið að berja okkur til hlýðni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of ljótt til að vera satt

Það hlaut að vera eitthvað bogið við þessa frásögn í mbl í gær um að flugfreyjur íslensks fyrirtækis mættu ekki vera í stéttarfélagi. Þetta var of fjarstæðukennt til að geta gerst á 21. öld. Betra hefði verið hjá mbl að leita skýringa forsvarsmanna þessa flugfélags áður en fréttin var látin fara. Þetta gerist hins vegar í kapphlaupinu um að vera fyrstur með "fréttina" og er ekki gott.

Jón Karl Ólafsson gefur haldbærar skýringar enda trúði maður vart að maður sem hafði við svo góðan orðstír verið í forsvari fyrir Flugfélag Íslands, Icelandair og Samtök ferðaþjónustunnar léti slíkan forneskjuhugsunarhátt viðgangast í sínu fyrirtæki að meina fólki aðgang að stéttarfélagi. það er því engin ástæða að hvetja fólk til að hætta viðskiptum við þetta flugfélag.

Nú er það formanns Flugfreyjufélagsins að skýra út fyrir lesendum mbl hvernig á þessum ummælum stóð. Í gær sagði ég í færslu minni: "Ljótt er ef satt er". Nú er því við hæfi að segja: "Of ljótt til að vera satt."


mbl.is Segir engan fót fyrir orðum Flugfreyjufélags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggur allt þetta ríkidæmi?

Geir Haarde forsætisráðherra segir að við, sem séum ein ríkasta og þróaðasta þjóð heims, tökum ekki einhliða upp mynt annarrar þjóðar. Hvað á maðurinn við? Ef þetta er raunin, sem maður efast stórlega um, þá ættum við að hafa efni á að halda úti nauðsynlegri samfélagsþjónustu. Það erum við hins vegar ekki að gera.

Það er allt upp í loft í heilbrigðismálunum. Fjöldauppsagnir hjúkrunarfræðinga blasa við á stærsta spítalanum, aðbúnaður á geðdeild er gagnrýndur og færri komast að til að njóta heilbrigðisþjónustu en þurfa. Starfsfólk heilbrigðisstofnanna vinnur þrekvirki á hverjum degi við rýr kjör og lélegan aðbúnað. - Hvernig væri að setja eitthvað af ríkidæminu í þessi mál? Það skilar sér fljótt til baka. - Þetta er heldur ekki vísbending um að við séum í hópi þróuðustu þjóða.  Það er víða pottur brotinn í samfélagsþjónustunni og þeir sem minna mega sín bera stöðugt minna úr bítum á meðan hinir, sem meira mega sín, hafa fitnað eins og púkinn á fjósbitanum.

Það getur ekki verið að forsætisráðherra hafi meint þetta með ríkidæmið og þróunina. Ef hann hefur meint þetta þá er kappinn í einhverjum fílabeinsturni sem hann þarf að koma niður úr.  Á leiðinni niður úr turninum ætti hann líka að benda á hvar allt ríkidæmið liggur.


mbl.is Ein ríkasta þjóð í heimi tekur ekki einhliða upp mynt annarrar þjóðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framúrkeyrsla á Fjarðarheiði

Eru menn eitthvað að fara fram úr sér þarna á Fjarðarheiðinni? - Þegar lagt var upp með þessa nýju virkjun Fjarðarár leit allt mjög vel út. Lítið umhverfisrask átti að verða af framkvæmdunum og í rauninni var þetta borðliggjandi dæmi um virkjun vatnsorku í sátt við umhverfið. Enda var framkvæmdin metin svo af Skipulagsstofnun að hún þyrfti ekki í mat á umhverfisáhrifum.

Hins vegar hefur það ekki farið fram hjá neinum, sem lagt hefur leið sína um þetta svæði, að raskið er umtalsvert og mun meira en flestir virðast hafa átt von á. Einhverju virðist því hafa verið bætt við og hvort það hefur verið gert á skjön við tilskilin leyfi verður að koma í ljós. Ekki er hægt að líða það að annað sé framkvæmt en lagt er upp með þegar framkvæmdir eru kynntar. Sama þótt málstaðurinn sé góður, eins og reyndar aukin orka úr Fjarðará er til viðbótar við hina gamalgrónu Fjarðarselsvirkjun.


mbl.is Spurt um breytingar á virkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt er ef satt er

Getur þessi frétt verið sönn? Að íslenskt fyrirtæki á 21. öld sé að meina fólki að vera í stéttarfélagi. Ef satt er þá er auðvitað bara eitt svar við þessu. Við svona fyrirtæki eiga menn ekki viðskipti. Samkvæmt fréttinni er þetta flugfélag að fljúga með farþega fyrir eina stærstu ferðaskrifstofuna svo þeir eru ófáir Íslendingarnir sem ferðast með því. 

Hér á landi hafa menn verið í strögli síðustu árin við að fá rétt útlendinga viðurkenndan og að þeir fengju þau sjálfsögðu mannréttindi að vera í verkalýðsfélögum og njóta þeirra kjara sem samið er um. Þar hafa óprútnir atvinnurekendur verið að notfæra sér neyð fólks sem leitað hefur hingað til að njóta betri kjara en í heimalandinu.

Nú virðist eitthvert óprúttið flugfélag vera að nýta sér það að eftirsókn hefur verið í flugfreyjustarfið. Skilyrði eru sett og svona lagað hefur yfir sér þrælahaldsblæ.- Nú hljóta Íslendingar að kanna hjá ferðaskrifstofum með hverjum er flogið þegar farið er í sumarfríið sem er framundan.  Hafa menn geð í sér að skipta við svona fyrirtæki, sem meinar fólki sínu aðgang að stéttarfélagi? - Ljótt er ef satt er.


mbl.is Óttast að vera sagt upp hjá JetX
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband