Fyrst upplausn svo koma frelsandi einkavinir

Þessi tíðindi, hugmyndir um  að gera Landspítalann að opinberu hlutafélagi, koma ekki á óvart. Af þróun mála varðandi þessa stofnun upp á síðkastið má vera ljóst að einkavæðing er á dagskrá. Fyrst er að tína út eitthvað bitastætt fyrir verktaka, næsta skrefið er svo ohf., með stefnuna á einkavæðingu. Ég hef áður nefnt þetta í bloggfærslum varðandi uppsagnir 98 hjúkrunarfræðinga, sem að öllu óbreyttu hætta störfum um næstu mánaðamót. Þetta ber allt að sama brunni. Valda upplausn meðal starfsfólks og skapa óánægju hjá fólkinu sem heldur uppi starfseminni. Síðan koma lausnirnar. Einkavinirnir koma sem frelsandi englar og leysa stofnunina undan ánauð ríkisins.

Sem betur fer höfum við átt því láni að fagna að geta byggt upp gott heilbrigðiskerfi fyrir þjóðina alla. Þangað hefur fólk getað leitað án þess að forgangsraðað sé eftir peningaeign viðkomandi. Nú á að ameríkansera allt það sem búið er að byggja upp með samstilltu átaki þjóðarinnar. Færa heilbrigði fólks á vogarskálar peninganna. - Opinbert hlutafélag er bara skref í þessa átt, verktakavæðingin er skref líka. - Við skulum vona að ekki náist að stíga svo mörg skref í þessu ferli að við hættum að hugsa um náungann og að hjálpa hvert öðru.

Þetta er tilfinning mín gagnvart því sem verið hefur að gerast. Kannski er ég að mála þetta of dökkum litum. Ég ætla rétt að vona það og að raunveruleikinn verði annar. 


mbl.is Landspítalinn opinbert hlutafélag?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Fyrirsögnin hjá þér segir akkúrat það sem ég hef verið að hugsa.

Nú verður fróðlegt að heyra viðbrögð "félagshyggjuflokksins" í ríkisstjórn. 

Sigrún Jónsdóttir, 20.4.2008 kl. 21:48

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Já Sigrún, sá flokkur hefur þagað þunnu hljóði yfir hamförunum á Landspítalanum.

Haraldur Bjarnason, 20.4.2008 kl. 21:51

3 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Fyrst finnst mér það einkar ófagmannlega unnið af Mogga-mönnum, að fara rangt með nafn fyrrverandi forstjórans, hann heitir Magnús Pétursson en ekki Pálsson.

Númer tvö, þá líst mér einstaklega vel á þá hugmynd að einfalda stjórnunarkerfi spítalans, það eru MARGIR millistjórnendur á LSH sem nákvæmlega engin þörf er fyrir.

Ekki get ég ímyndað mér hverjir vildu "eiga" Landspítalann, svona fyrirtæki verður aldrei rekið með hagnaði, en hins vegar líst mér mjög vel á þá hugmynd, að bjóða út einstaka þætti í rekstri spítalans. Ég meina, ef ríkið getur ekki sinnt þessum þjónustuþáttum en aðrir geta það, hvers vegna ekki? Við getum alveg sagt okkur sjálf, að þarna er ekki verið að ræða um flókna læknisfræðilega hluti, en margir þjónustuþættir innan spítalans væru án efa betur komnir í höndum annarra, t.d. sjúkraþjálfunin, iðjuþjálfun, almenn endurhæfing, öldrunargeirinn og margt fleira. Ekki að það sé slæmt fólk sem sinni þessum þáttum núna, en t.d. sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun er svo gott sem alveg við það að leggjast af á spítalanum, ótrúlega mikil mannekla og lélegar aðstæður sem þessar starfsstéttir vinna við. Það verður varla mikið verra í höndum stjórnenda LSH svo af hverju ekki stefna í hina áttina?

Lilja G. Bolladóttir, 20.4.2008 kl. 23:29

4 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þá má vel vera að eitthvað þessara atriða sem þú nefnir lilja sé betur komið annarsstaðar. Áhættan af því að veikja stofnunina með því að kippa út þessum liðum er of mikil og hætta á að annað komi á eftir. Ég treysti því einfaldlega ekki að allur almenningur hafi þá aðgang að þessari þjónustu. Þá byggist forgangsröðun á peningum og engu öðru, enda vilja eigendur þá reka þetta með hagnaði en samt fleyta rjómann af ríkiskerfinu. Það er alveg hægt að einfalda og stytta boðleiðir í stjórnkerfinu þótt Landspítalinn verði ekki gerður að ohf, sem er bara skref í átt til einkavæðingar og peningahyggju í heilbrigðiskerfinu. Þetta með millistjórnendurna er eflaust rétt hjá þér Lilja og "smákóngaveldið" er líklega talsvert ráðandi þarna. - Maður hefur grun um að allt þetta svelti til heilbrigðisþjónustunnar sé af ásettu ráði til að auðvelda einkavæðinguna og einmitt að fá heilbrigðisstarfsfólk til að trúa á nauðsyn hennar.

Haraldur Bjarnason, 20.4.2008 kl. 23:45

5 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Aha, ég veit það ekki þetta með fjársveltið. Faðir minn var í mörg ár skrifstofustjóri yfir þeirri deild sem gerði fjárlagafrumvarpið í fjármálaráðuneytinu, og átti ég ótrúlega margar disskúsjónir við hann um þessi mál. Ég held að ríkisstjórnin vilji meina, að LSH sé einkar illa rekin stofnun sem fari illa með þá peninga sem henni er veitt.

Hins vegar, erum við heilbrigðisstarfsfólk með það sjónarmið, að þú rekur ekki hátæknistofnun í heilbrigðis- og kennslufræðum á fjárlögum. Þetta er ekki eins og verslunarrekstur, þar sem þú getur bara "köttað" niður þegar þú ferð að nálgast rauða strikið. Hvernig á svo að vera hjá stofnun eins og spítala okkar landsmanna, þar sem við öll ætlumst til að fá nýjustu meðferðartilboðin, bestu meðferðarúrræðin, dýrustu lyfin þegar við þurfum á að halda og tip top þjónustu ofan á allt. Stöðugar framfarir eru dýrar, við erum að bjarga fólki í dag, sem hefði dáið fyrir 4 árum, og hver framför kallar á bylgju af sjúklingum sem vilja endurmat á sínum aðstæðum. Hver ætlar að standa þarna með "kennaraprikið" og slá því niður og segja: "Nei, sorry, við erum búin að ná toppnum, við höfum því miður ekki efni á því að veita þér þessa dýru meðferð líka. Þú verður að bíða þar til eftir áramót....." ???

Það er samt sem áður kannski kominn tími til þess að við sem þjóð, förum að skilgreina hvað á að gera og hversu langt eigum við að ganga? Á að bjarga öllum? Viljum við öll láta bjarga okkur? Viljum við láta endurlífga okkur, hefja erfiða gjörgæslumeðferð og eftirmeðferð undir öllum kringumstæðum? Hversu lengi viljum við halda í lífið og hversu langt á spítalinn að ganga til að halda í okkur lífi? Hversu miklu á þjóðfélagið að kosta í alls kyns, stundum fyrirsjáanlega, vonlausar endurlífganir og lyfjagjafir? Þetta eru mjög mikilvægar spurningar í þeirri hröðu tæknivæðingu og miklu þróun í læknavísindum sem við lifum í.

Ríkið er nú þegar að borga fyrir þjónustu sem t.d. Heilsuverndarstöðin veitir í formi hvíldarinnlagnardeildar sem sú ágæta stöð opnaði í mars sl. Ríkið sá fram á þörfina, hefur ekki "capacitet" til að veita þjónustuna en annar aðili hefur það, svo ríkið er tilbúið til að greiða þeim aðila fyrir að sjá um reksturinn af slíkri deild. Það sama er að gerast á Landakoti, þar sem Grund er búin að taka yfir reksturinn á einni öldrunardeildinni. Sjúklingarnir þurfa ekki að borga neitt, þetta er þjónusta sem ríkið ætti að vera að veita, myndi borga fyrir ef það gæti veitt hana, svo ég held að allir séu bara fegnir, að einhver vilji taka þetta að sér - ríkið er samt að greiða fyrir þetta að fullu. Og ég er viss um, að þetta er ekki mikið dýrara heldur en að ríkið væri að gera þetta, sjá um starfsmannahald, launagreiðslur, lífeyrisgreiðslur og þar fram eftir götunum. Það er í raun búið að létta hluta af byrðinni af ríkinu, og það er verið að veita þjónustuna, sem væri ellegar ekki verið að gera.

Þetta er mín skoðun Í DAG, tek þó vel á móti öðrum sjónarmiðum  

Lilja G. Bolladóttir, 21.4.2008 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband