Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Míla, IPnet, 3G eða bara SMS, GSM, NMT, ADSL, ISDN.....

Þetta er alveg einstaklega skemmtilegur texti í þessari frétt og aðeins smá sýnishorn af öllum þeim nöfnum og skammstöfunum sem tilheyra samskiptum manna í dag. Nú er spurning hvað hafi virkað af öllu draslinu þegar bilun varð í ljósleiðarahring Mílu og landshringur IPnets rofnaði. Þetta skerti víst flutningsgetu Internetumferðar til útlanda og 3G kerfið á Akureyri datt út. Var hægt að nota ADSL eða ISDN? Kannski var ekki hægt að senda SMS úr GSM síma? Eða var það bara NMT síminn sem virkaði. - Úff. - Mætti ég bara biðja um gamaldags LM-Ericsson með skífu.
mbl.is Ljósleiðari bilaði á Norðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir Ólafi F og Möllernum

Það er heldur betur gott mál að samgönguráðherra og borgarstjóri hafi komist að samkomulagi um að leysa þann vandræðagang sem hefur verið í flugstöðvarmálum Reykjavíkurflugvallar. Stríðsminjarnar, sem þjónað hafa flugfarþegum hingað til, eru löngu úr sér gengnar og þrengsli þar hafa meðal annars komið í veg fyrir þróun innanlandsflugs. Ný samgöngumiðstöð, sem á að vera miðstöð fyrir flug- og landsamgöngur, verður vel í sveit sett, þar sem henni er ætlaður staður vestan við Valsvöllinn á alls 7 hekturum lands. Þetta er í raun mun betri staður en núverandi flugstöð er á. Auðvitað vonast maður til að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram innanlandsflugvöllur og kannski verða þessar breytingar til þess að hægt verður að nýta undir annað það pláss sem sparast þegar ný samgöngumiðstöð verður til. Nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum en borgarstjóri segir undirbúning taka stuttan tíma. - Þeir eiga hrós skilið fyrir þetta Ólafur F. Magnússon  borgarstjóri og Kristján L. Möller samönguráðherra. - Möllerinn virðist vera eini ráðherrann sem eitthvað lætur að sér kveða þessa dagana. Vegabætur á Suðurlandsvegi, Vaðlaheiðargöng og nú samgöngumiðstöð í Reykjavík.  Vissulega má segja að hann dragi lappirnar í að skoða kröfur atvinnubílstjóra, sem hljóta að einhverjum hluta að koma inn á hans borð. Fjármálaráðherra ræður þó eflaust öllu í þeim efnum.
mbl.is Samgöngumiðstöð hýsi alla samgöngustarfsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3 kr upp - 1 kr niður

Þær eru nú svolítið skondnar þessar fréttir sem birtast öðru hverju af verðbreytingum hjá olíufélögunum. Lækkun um eina krónu á lítrann núna en hækkun um 3,50 og 2,50 fyrir helgi. Þetta er auðvitað bráðsnjallt að hækka hressilega öðru hvoru en lækka svo bara um smávegis þess á milli. Alltaf jákvæður mismunur fyrir olíufélögin. - Nú getur fólk semsagt sparað heilar 40 krónur á einni áfyllingu á venjulegan lítinn fólksbíl, miðað við verðið í gær.- Það munar um minna.


mbl.is N1 lækkar eldsneytisverð um krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vakna ekki allir við fyrsta hanagal

Það vakna ekki allir við fyrsta hanagal, það er alveg ljóst. Allra síst má búast við því að ráðamenn vakni strax þrátt fyrir mótmæli atvinnubílstjóra. Talsmaður bílstjóranna vonast þó til þess að aðgerðirnar dugi til að ræsa ráðamenn. Vissulega hafa aðgerðir bílstjóranna vakið athygli og þeir hafa sent skýr skilaboð til stjórnvalda. - Nú er stjórnvalda að sýna þá lágmarks kurteisi að svara þessu ákalli bílstjóranna, með einhverjum hætti. Þeir njóta að sjálfsögðu ekki einir góðs af ef árangur næst. Sá ágóði verður alls almennings. - Löggan er í vandræðastöðu. Henni ber að framfylgja lögunum og vissulega eru þarna lögbrot, en vonandi passa menn sig á þeim bæ að missa sig ekki.
mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SMS til ríkisstjórnarinnar

Er ég að misskilja eitthvað? Er ekki Samfylkingin í ríkisstjórn? - Nú sendir flokkstjórnin skilaboð til ríkisstjórnarinnar af fundi sínum. - Voru ekki ráðherrarnir þarna? - Það fylgir með fréttinni mynd af Ingibjörgu Sólrúnu, ábyggilega tekin á þessum fundi, þannig að hún hefur verið þar. - Þetta er svona einhverskonar sms um stóriðju- og virkjunarframkvæmdir. Allt er þetta í véfréttarstíl og almennt orðað, ekki tekið af skarið í neinu máli. - Þýðir þetta að flokkurinn ætlar að beita sér gegn framkvæmdum í Helguvík og á Bakka við Húsavík, samþykkja allan pakkann, eða bara annað álverið?  - Þarna eru engin bein svör við því og greinilega allt haft opið. Að vísu aðeins talað um að taka þurfi tillit til byggðamála, plús nútíma atvinnuhátta og  umhverfiþátta. Þar að auki er talað um að allt þurfi að vera klappað og klárt áður en farið er af stað. Ekkert nýtt, ekki tekið af skarið í neinu, bara allt haft opið. -Ég þarf eitthvað meira til að sannfærast um að Samfylkinginn sé í rauninni í ríkisstjórn.


mbl.is Græn skilaboð flokksstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng frétt!

Nú þegar önnur frétt er komin inn á mbl.is um að þetta hafi verið röng frétt og Sunday Times hafi tekið hana út af vefnum, er þá ekki rétt að taka hana út af mbl.is líka. - Eða í það minnsta að hafa hina fréttina við hliðina. - Engin ástæða til að láta slúðrið standa áfram. - Nema fréttin um slúðrið hafi bara verið slúður! - Sem hvarflar svo sem að manni núna, því fréttin um slúðurfréttina virðist horfin - Þetta fer nú að verða skrítinn fréttaflutningur af öðrum fréttaflutningi. - Hvar er mbl.is eiginlega statt í fjölmiðlaheiminum?

Til að bæta um betur er svo hérna innslag úr fréttinni bresku, sem G. Tómas Gunnarsson birtir á bloggsíðunni Bjórá 49. - Dæmi nú hver fyrir sig:

"It is understood that customers have moved savings from Landsbanki and Kaupthing to British institutions that are also in the best-buy tables, such as Birmingham Midshires, an arm of Halifax Bank of Scotland."

 

Hverlags "fréttamennska" er þarna að baki? - mbl.is tekur einhver loðin skilaboð upp úr breskri pressu og leitar ekki skýringa hjá íslensku bönkunum né birtir allt sem stendur í breska textanum. 


mbl.is Bretar taka út af reikningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slúður í bresku pressunni

Er þetta kannski málið? - Við erum sífellt að lesa einhverjar fréttir hér um efnahagsmálin á Íslandi teknar upp úr útlendum fjölmiðlum og svo þegar málin eru skoðuð virðist ekki fótur fyrir nema einhverju broti af þessum fréttaflutningi. Meira að segja smitast þetta inn á flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar, þar sem formaðurinn talar um útlenda spákaupmenn sem hagnist á hremmingum í íslenska fjármálaheiminum, en minnist ekki á þá íslensku. - Eigum við ekki bara að líta okkur nær og hætta að velta okkur upp úr einhverju útlendu slúðri, jafnvel þótt það komi frá virtum fjölmiðlum, að því er virðist. Skiptir þá engu hvort þeir eru breskir, danskir eða annarra þjóða.
mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En svona virkar bara frumskógarlögmálið Ingibjörg

Maður veltir óneitanlega fyrir sér stöðu Samfylkingarinnar í þessu stjórnarsamstarfi núna og hefur svo sem gert frá upphafi. Nú talar formaðurinn á flokksstjórnarfundi og fer yfir stöðuna. Talar um erlenda spákaupmenn, sem hagnist á hremmingum krónunnar. - Eru ekki einhverjir þessara hrægamma svolítið nær okkur? - Er það ekki of einfalt að varpa þessu öllu á einhverja útlendinga? - Maður bara spyr. - Auðvitað er það rétt sem Ingibjörg Sólrún bendir á að í fjármálaheiminum sé enginn annars bróðir í leik og ekki spurt um heiður eða sóma heldur auð og áhrif. - En svona virkar bara frumskógarlögmálið Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin ákvað að vinna samkvæmt því. Lítið virðist flokkurinn reyna til að klóra í bakkann. - Jú það á að senda einhver skilaboð til spákaupmanna um að þeir komist ekki upp með þetta. Eitthvað stutt sms og hvað svo?- Jú, lántökur , sem geta þýtt hærri stýrivexti. - Þeir hafa reynst okkur svo vel til að halda niðri þennslu er það ekki? - Formaðurinn segir alla þurfa að leggjast á eitt og ekki láta hækkanir á matvöru yfir sig ganga. - Jamm gott og gilt, hversvegna hækka þessar matvörur, ekki eru þetta tómir krimmar sem selja okkur þær, eða hvað? - Hverjir eru þessir allir? - Jú sauðsvartur almúginn á að taka á sig hremmingarnar, það virðist ljóst - Formaðurinn er ekki tilbúinn að fórna krónunni fyrir aðrar myntir, segir löngu orðið ljóst að það gangi ekki en samt er krónan of lítil fyrir íslensku þjóðina ef hún ætli að taka þátt í hnattvæddu samfélagi. - "Obb, obb, obb", sagði maðurinn. Er ekki formaðurinn farinn að tala í einhverja hringi? - Smá Framsóknarblær á þessu? - Greinilega eitthvað sem heltekur flokka í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. - Nei hysjið nú buxurnar upp um ykkur Samfylkingarmenn og sýnið okkur eitthvað annað en gömlu klisjuna um að almenningur taki á sig ábyrgðina af sukkinu.
mbl.is Erfiðar ákvarðanir framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki verkefni fyrir Samkeppniseftirlitið að kanna verðmyndun grásleppuhrogna?

Já grásleppuveiðarnar fara misjafnlega af stað eftir veiðisvæðum, eins og vejulega. Þær máttu hefjast fyrir norðan- og norðaustanverðu landinu um miðjan þennan mánuðinn og fréttst hefur af þokkalegum afla austast en minna fyrir Norðurlandinu. Veðrið hefur líka sett strik í reikningin, eins og oft áður hjá þeim sem fyrst byrja. Enn einu sinni heyrist frá grásleppusjómönnum að lágt verð sé greitt fyrir hrognin. Þetta hefur verið árvisst undanfarin ár og liðin sú tíð að greiddar væru 70 þúsund krónur fyrir tunnuna eins og hæst var. Nú tala menn um 50 þúsund, eða þaðan af minna. - En það merkilega er að nánast sama virðist hver kaupandi hrognanna er, verðið er allstaðar svipað. Kannski svona álíka verðmunur og á matvörunni í verslunum, 1 króna til eða frá. - Hvar er Samkeppninseftirlitið? - Maður veltir því fyrir sér núna þegar fregnir berast af því að Samkeppniseftirlitið vilji fá öll gögn frá Búnaðarþingi varðandi verðlag landbúnaðarvara, hvort ekki sé ástæða fyrir þá stofnun að hnýsast aðeins í verðmyndunina hjá grásleppuhrognakaupmönnum. - Starfsemi þeirra og samráð um verð hlýtur að heyra undir Samkeppniseftirlitið eins og verðmyndun á mjólk eða kjöti. Grásleppuveiðar skipta talsverðu máli fyrir mörg minni sjávarpláss landsins, ekki síst núna eftir allan þorskniðurskurðinn. Ásættanlegt verð fyrir hrognin skiptir því lífsafkomu talsvert margra miklu máli. - Af stað nú Samkeppniseftirlit!!!! - Kannið verðmyndun hjá grásleppuhrognakaupmönnum. 
mbl.is Of snemmt að spá um útkomuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak Gísla Sigurgeirssonar

Það er frábært framtak hjá Gísla Sigurgeirssyni að gera heimildamynd um sveitunga sinn og nágranna; þúsundþjalasmiðinn Sverri Hermannsson. Ástæða til að óska Gísla til hamingju með að skrá sögu þessa manns í máli og myndum. Ekki efast ég um að heimildarmynd þessi er vel unnin og fróðleg að sjá. Gísli hefur í áratugi starfað við fjölmiðla með Norðurland sem heimavöll og þekkir því vel til allra hluta. Nú nýtir hann sér reynsluna til góðra verka. Þetta framtak Gísla leiðir hugann að því að það sem manni þykir hversdagslegur hlutur að vinna við í fjölmiðlum verður ótrúlega fljótt að sögulegum heimildum. Það hefur oft hvarflað að mér á síðustu árum að gera eitthvað með allt það efni sem ég hef verið að vinna með í fjölmiðlum síðustu þrjá áratugina en frekar lítið orðið úr verki. Helst að ljósmyndir frá Akranesi séu farnar að þjóna sem sögulegar heimildir og þá fyrst og fremst fyrir tilurð Ljósmyndasafns Akraness, sem þeir feðgar Friðþjófur og faðir hans Helgi Daníelsson eiga öðrum fremur heiður af. Á nærri tveggja áratuga starfstíma mínum hjá RÚV tók ég ótal fréttaviðtöl og gerði marga viðtalsþætti. Þar eru ómældar heimildir, sérstaklega af Austurlandi. En þær eru sýnd veiði en ekki gefin því mikið af efni hefur farið forgörðum. Þetta hef ég kannað lítillega og í ljós hefur komið að búið er að henda mjög miklu af gömlum viðtalsþáttum sem birtust í Ríkisútvarpinu. Ástæðan var sú að alltaf var verið að spara spólurnar og því hreinsað til öðru hvoru svo unnt væri að nýta segulbandsspólurnar aftur. Talsvert er þó til af efni en ekki endilega alltaf það sem maður vildi að hefði verið geymt, enda vont að meta það á hverjum tíma hvað beri að geyma og hvað ekki. Vonandi er að ný tækni komi í veg fyrir svona slys. En framtak Gísla er gott og ástæða fyrir okkur hina, sem starfað höfum á þessum vettvangi síðustu áratugi, að horfa til hans og skoða hvort ekki leynist eitthvað áhugavert í okkar fylgsnum.
mbl.is „Henti aldrei neinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband