En svona virkar bara frumskógarlögmálið Ingibjörg

Maður veltir óneitanlega fyrir sér stöðu Samfylkingarinnar í þessu stjórnarsamstarfi núna og hefur svo sem gert frá upphafi. Nú talar formaðurinn á flokksstjórnarfundi og fer yfir stöðuna. Talar um erlenda spákaupmenn, sem hagnist á hremmingum krónunnar. - Eru ekki einhverjir þessara hrægamma svolítið nær okkur? - Er það ekki of einfalt að varpa þessu öllu á einhverja útlendinga? - Maður bara spyr. - Auðvitað er það rétt sem Ingibjörg Sólrún bendir á að í fjármálaheiminum sé enginn annars bróðir í leik og ekki spurt um heiður eða sóma heldur auð og áhrif. - En svona virkar bara frumskógarlögmálið Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin ákvað að vinna samkvæmt því. Lítið virðist flokkurinn reyna til að klóra í bakkann. - Jú það á að senda einhver skilaboð til spákaupmanna um að þeir komist ekki upp með þetta. Eitthvað stutt sms og hvað svo?- Jú, lántökur , sem geta þýtt hærri stýrivexti. - Þeir hafa reynst okkur svo vel til að halda niðri þennslu er það ekki? - Formaðurinn segir alla þurfa að leggjast á eitt og ekki láta hækkanir á matvöru yfir sig ganga. - Jamm gott og gilt, hversvegna hækka þessar matvörur, ekki eru þetta tómir krimmar sem selja okkur þær, eða hvað? - Hverjir eru þessir allir? - Jú sauðsvartur almúginn á að taka á sig hremmingarnar, það virðist ljóst - Formaðurinn er ekki tilbúinn að fórna krónunni fyrir aðrar myntir, segir löngu orðið ljóst að það gangi ekki en samt er krónan of lítil fyrir íslensku þjóðina ef hún ætli að taka þátt í hnattvæddu samfélagi. - "Obb, obb, obb", sagði maðurinn. Er ekki formaðurinn farinn að tala í einhverja hringi? - Smá Framsóknarblær á þessu? - Greinilega eitthvað sem heltekur flokka í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. - Nei hysjið nú buxurnar upp um ykkur Samfylkingarmenn og sýnið okkur eitthvað annað en gömlu klisjuna um að almenningur taki á sig ábyrgðina af sukkinu.
mbl.is Erfiðar ákvarðanir framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Sæll Haraldur.

Þú vitnar í orð Ingibjargar: 

„Í ljós er komið að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi leita leiða til að skipta megi um mynt hér á landi. Vinir okkar í Vinstri grænum ræða um sameiginlega norræna krónu, Framsóknarmenn og Frjálslyndir um svissneska franka og margir í Sjálfstæðisflokknum hafa horft til einhliða upptöku Evru.

Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Er ekki öllum löngu orðið ljóst að engin þessara leiða er raunhæf? Og er ekki jafnljóst að í þessari leit allra stjórnmálaflokka að annarri leið en krónu felst vitnisburður um hinn erfiða en óumflýjanlega veruleika: Krónan er of lítil fyrir Ísland þ.e.a.s. ef Ísland ætlar að taka þátt í hnattvæddu hagkerfi heimsins,"

Og þú segir að hún sé að tala í hringi, en þar liggur misskilningur þinn. Ingibjörg segir að þessar leiðir; samnorræn króna, svissneskur franki, eða einhliða upptaka evru, gangi ekki -- en er alls ekki að útiloka upptöku annarar myntar. Í raun er það deginum ljósara að hún vill meina að við ættum að ganga í ESB og taka upp evru í kjölfarið, en ekki reyna að taka upp evru einhliða.

Einhliða upptaka evru (eða gengislæsing við evru) á þessum tímum myndi vera skýr vantraustsyfirlýsing á efnahagi landsins. Eiginlega einu löndin (ef nýsjálfstæð svæði á borð við Hong Kong '97 eru undanskilin) sem hafa gert sambærilega hluti eru suður amerísk lönd sem hafa læst gengi sinna gjaldmiðla við dollara, þegar efnahagurinn hrundi, til að forðast óðaverðbólgu -- það er ekki traustvekjandi fordæmi og því miður liggja vonir okkar um stöðugleika í því leikriti sem á sér stað á síðum fjölmiðlanna, þar sem allir keppast um að lýsa því yfir hvað allt er gott, því það eina sem heldur fjármálakerfi heimsins saman er í raun traust.

Innganga í ESB, gengislæsing krónunnar við evru og verðbólgan hamin í kjölfarið -- þetta er leiðin áfram. 

Steinn E. Sigurðarson, 30.3.2008 kl. 17:54

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Takk fyrir innlegg þitt Steinn. - Má vera að helst til strangt sé til að orða tekið að segja formann Samfylkingar tala í hringi , en ég varpaði því nú fram sem spurningu og jafnframt hvort ekki væri smá Framsóknarblær af þessu. Auðvitað væri bes að formaðurinn segði þetta beinum orðum. - Getur verið að það henti ekki í þessu stjórnarsamstarfi, með tilliti álits samstarfsflokksins á aðild að ESB?

Haraldur Bjarnason, 30.3.2008 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband