Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Kaupir borgin eða frestar borgin kaupum?

"Borgin kaupir" segir í fyrirsögn fréttar en í textanum segir svo: Borgarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni að festa kaupum á eigninni......... - Nú er spurningin hvort þarna átti að standa fresta kaupum á eða festa kaup á - Þarna er greinilega villa, sem væntanlega verður leiðrétt fljótlega, en þarna er hún búin að vera í eina 6 klukkutíma, þegar þetta er skrifað. Öllum getur orðið á í skrifum en fjölmiðlar þurfa nú að leggja metnað sinn í að lesa yfir og leiðrétta þegar þörf er á.
mbl.is Borgin kaupir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo er verið að tala um smá umferðartafir hér

Argentínskir bændur eru ekkert að tvínóna við hlutina í sínum mótmælum. Búnir að trufla og hindra umferð í 16 daga á helstu hraðbrautum landsins til að mótmæla hækkuðum útflutningssköttum á sojabaunir. Þeir hafa lent í útistöðum við reiða vörubílstjóra, sem ekki hafa komist leiðar sinnar. - Svo eru menn að básúnast yfir smá töfum vegna mótmæla trukkabílstjóra hér á landi. Mótmælum sem koma öllum almenningi til góða, nái þau tilætluðum árangri. - Hræðsla um að löggu,- sjúkra- og brunabílar komist ekki leiðar sinnar er það sem hæst fer í umræðunni vegna mótmæla bílstjóranna. - Mótmæli argentínsku bændanna minna svolítið á mótmæli franskra bænda í gegnum tíðina, nema hvað þeir hafa verið heldur róttækari og losað mykju á fínustu torgin. - Hér fara svo samkeppnisyfirvöld af stað þegar bændur fá nokkurra króna hækkun ofan á mjólkurlítrann á sama tíma og öll þeirra aðföng hafa snarhækkað í verði, líklega telur sú stofnun nauðsynlegt að berja svona ósóma niður. - Nei við Íslendingar erum vanir því að láta valta yfir okkur og eina sem stjórnvöld skoða nú er hvernig megi redda þessum "nýríku" bankastrákum, sem nú eru með sparibuxurnar á hælunum. - Það er gert með vaxtahækkunum á skítblankann almúgann. 
mbl.is Bændur hættu aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fyrirmyndar í gær en ekki í dag

Var það ekki N1, sem lækkaði verðið á bensínlítranum um 1 krónu í gær eða fyrradag? - Virkaði þá eins og jákvætt fórnfúst fyrirtæki, sem sýndi gott fordæmi. Svo trítlar krónan eitthvað aðeins niður á við aftur og við liggur að N1 sé fljótara að hækka verðið en það tekur krónuna að hrapa. Þar á bæ ætla menn sko ekki að tapa neinu á óvissunni. Þeir eru bæði með belti og axlabönd, eflaust sterka teygju í buxunum líka.
mbl.is N1 hækkar verð á bensíni og díselolíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugir vörubílstjórar

"Nauðsyn brýtur lög," það á svo sannarlega við um öflugar aðgerðir vörubílstjóra til að vekja athygli á háu eldsneytisverði og auknum álögum á atvinnustarfsemi þeirra. Fleiri hópar mættu taka þá til fyrirmyndar núna. Það dugar ekkert að skæla úti í horni eða að senda stjórnmálamönnum bréf. Það þarf eitthvað áþreifanlegt, eitthvað sem vekur verulega athygli. Atburðir sem þessi er vel þekktir erlendis og þar eru menn yfirleitt ekkert að skafa utan af hlutunum við mótmæli. - Frábært framtak hjá ykkur vörubílstjórar, sem eflaust kemur fleirum til góða.
mbl.is Vegi lokað við Rauðavatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá mbl.is að vekja ítrekað athygli á þessu

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin. - Gaman að sjá aftur ítarlega frétt á mbl.is um skýrslu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Góð frétt var um þessa sömu skýrslu á mbl.is í fyrradag. Þetta er athyglisverð skýrsla og full þörf á að vekja rækilega athygli á henni. Ekki veitir af því stjórnmálamenn hafa ekki enn áttað sig á að símalínur og nettengingar virka í báðar áttir, þannig að hægt er að vinna stóran hluta starfa á vegum ríkisins hvar sem er á landinu. Þessu hafa forsvarsmenn margra stórra einkafyrirtækja hins vegar áttað sig á. - Þessa dagana er ríkið að draga úr starfsemi á landsbyggðinni frekar en hitt. Þetta er þvert á það sem margnefnd skýrsla gefur tilefni til, þar sem 3/4 forstöðumanna stofnanna telja vel mögulegt að vinna hluta starfa hjá stofnunum þeirra á landsbyggðinni. - En þakkir til mbl.is fyrir að vekja aftur athygli á þessari skýrslu, að vísu bætir þessi frétt ekkert við vitneskjuna eftir fréttina í fyrradag, en ekki veitir af, ef vekja á ráðamenn.


mbl.is Fleiri ríkisstörf ættu að fara til Eyjafjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síldarárin, taka 2 - Veislunni eystra er að ljúka

Þá er ekki lengur pakkað neyslumjólk í mjólkurstöðinni á Egilsstöðum og þar með er pökkun neyslumjólkur alfarið hætt á Austurlandi, engri mjólk pakkað á svæðinu frá Selfossi austur um og norður til Akureyrar. Enn er verið að auka á vöruflutninga á handónýtum þjóðvegum landsins og maður veltir fyrir sér hagkvæmninni, má vera hún sé fyrir hendi hjá þessum stóru sameinuðu fyrirtækjum, en varla er þetta þjóðhagslega hagkvæmt. Einhverra hluta vegna detta manni síldarárin í hug núna þegar stöðugt berast fregnir af lokunum atvinnufyrirtækja á Austurlandi. Á síldarárunum gerðist það að atvinnufyrirtækin voru flest í höndum aðkomumanna og því varð lítið sem ekkert eftir í heimabyggð þegar veislunni lauk. Nú er veislunni vegna virkjunar- og sóriðjuframkvæmda að ljúka eystra, minna þarf að afgreiða af mjólk því talsvert hlýtur að muna um þær þúsundir sem við virkjun og stóriðjuframkvæmdir unnu. Mjólkurframleiðslan er ekki undir stjórn heimamanna lengur, henni er stýrt að sunnan, eftir sameiningu og því ekki eins mikil áhersla á atvinnu í heimabyggð. Flutningafyrirtækið Aðalflutningar fór úr eigu heimamanna og því er nú lokað. - Þetta er svoldið svona eins og eftir síldarárin.  

Berufjörður-Kýr


mbl.is Pakka ekki lengur mjólk á Egilsstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmt að dregur úr samkeppninni.

Það eru slæmar fréttir að Aðalflutningar skuli hætta starfsemi, ekki veitti af samkeppni í vöruflutningum, sem nánast eru einokaðir af tveimur risum. Aðalflutningar sinntu vel því hlutverki að veita þeim aðhald. Þar var að finna persónulega þjónustu og lipra í passlega stóru fyrirtæki. Eftir að hjónin Birgir Vilhjálmsson og Birna Sigbjörnsdóttir eignuðust Aðalflutninga jókst starfsemin og viðskiptavinum fjölgaði. Það var líka gaman að sjá fyrirtæki, rekið á landsvísu, sem stjórnað var frá Egilsstöðum. Ég þurfti vegna starfa minna um tíma að hafa mikið samstarf við flutningafyrirtæki og þá kom berlega í ljós þörfin fyrir þetta fyrirtæki. Síðan veit ég ekki hvað hefur gerst en eigendaskipti urðu og málaferli fyrri eigenda við núverandi í kjölfarið og svo lokun núna. Ekki er vafi á að önnur flutningafyrirtæki rífast um að fá til sína þá starfsmenn, sem hjá Aðalflutningum voru. Þeir þurfa ekki að kvíða atvinnuleysi.Egilsstaðir nýbyggingar -2006


mbl.is Aðalflutningar hætta rekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin smá ófærð

Frétt eða ekki frétt. Hún er stórkostleg myndin sem fylgir "fréttinni" um ófærð á bílastæði í Mýrdalnum. Ég legg til að hún verði tilnefnd til verðlauna sem fréttamynd ársins. - Myndin sýnir enga ófærð. Yarisinn stendur vel upp úr snjó og enga fyrirstöðu að sjá og því eru þeir nú varla alvarlega fastir ferðamennirnir á bíl sínum. Vissulega er vetrarlegt að sjá eins og greint er frá í textanum með myndinni, það er ábyggilega svipað víða um land á þessum árstíma. - Nei þeir hljóta að hafa séð meiri snjó þarna í Mýrdalnum, einu mesta úrkomusvæði landsins, án þess að tala um ófærð. - Þetta er dæmigerð "ekkifrétt" - myndin sýnir það. 
mbl.is Ófærð á bílastæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvorki klink né GSM í stöðumæla eða strætó

Á Akureyri þurfa ökumenn hvorki að hafa tiltækt klink eða gsm-síma vilji þeirra leggja bíl sínum í gjaldskylt stæði í miðbænum. Þar eru einfaldar klukkuskífur í framglugga bílanna stilltar á þann tíma sem þú leggur bílnum og síðan ganga stöðumælaverðir um götur miðbæjarins og athuga hvort bíllinn hefur staðið of lengi í stæðinu. Svo einfalt er það og ef ökumenn annað hvort gleyma að stilla "klukkuna", eða eru of lengi frá bílnum, þá fá þeir sekt. Þetta virkar vel og almenn ánægja með þetta kerfi. Reykvíkingar mættu huga að svona löguðu og annað sem þeir gætu lært af Akureyringum. Þar er ókeypis í strætó og hefur verið nokkuð lengi. Strætónotkun almennings og ekki síst skólanema hefur margfaldast við þetta og um leið minnkar umferðarálag einkabíla. Ætli slíkt væri ekki einfaldlega ódýrara fyrir Reykvíkinga þegar upp er staðið. Í staðinn fyrir hálfkákið að hafa frítt fyrir framhaldsskólanema, börn og gamalmenni. Því fylgir allskonar afsláttarkortakerfi, sem er rándýrt og býður upp á svindl. Nei dragið úr umferð einkabílsins í Reykjavík, þá þarf ekki eins mikið af þessum "misskildu" gatnamótum. - - Frítt í strætó.
mbl.is Hægt að greiða í stöðumælinn með GSM símanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var þetta ekki "týpískt" innbrot en ekki rán?

Má vera að allskonar ófögnuður, innbrot, rán, líkamsmeiðingar og allt slíkt sé að aukast en menn mega heldur ekki gleyma sér og mála hlutina of dökkum litum í fyrirsögn. "Rán í skartgripaverslun", segir í fyrirsögn á mbl.is. - Svo þegar maður les fréttina kemur í ljós að þetta var það sem kallað hefur verið innbrot hingað til. Ef ofbeldi hefði verið beitt eða einhverskonar þvingunum við þjófnaðinn á þessum dýru úrum, var fyrirsögnin rétt. Þarna var hinsvegar brotist inn í mannlausa verslun að nóttu til, sem sagt dæmigert innbrot og mennirnir því innbrotsþjófar. - Úpps...einhver draugagangur. Ég fór inn í þetta blogg aftur því allt í einu var horfinn síðari hlutinn af fyrirsögnin og eftir stóð: Var þetta ekki....lagfærði það til fyrra horfs en tók þá eftir að mbl.is er búið að breyta fyrirsögninni og nú er ránið orðið að innbroti......gott að menn skoða hlutina og laga.
mbl.is Innbrot í úraverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband