Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hvað drukku Íslendingar mikið af þessu?

Alls voru seldir 24,8 milljónir lítrar af áfengi hér á landi á síðasta ári, að því er kemur fram í Hagtíðindum, segir í frétt mbl.is. Þetta er staðreynd og líka það að þetta er 7% meira en árið áður. Sterkir drykkir seljast nú aftur í meira mæli en áður en vinsældir þeirra höfðu verið á niðurleið frá því bjórinn hélt innreið sína, allir greinilega orðnir leiðir á því glundri. Allt eru þetta staðreyndir birtar í virtu riti en það er annað sem vekur athygli. Þessi drykkja er heimfærð upp á Íslendinga 15 ára og eldri. Vel má vera að fólk byrji almennt að drekka 15 ára þó sala áfengis til þess sé ekki heimil fyrr en við tvítugs aldur. Hitt er hins vegar ljóst, sem ekki kemur fram í þessum tölum, að ferðamönnum hefur fjölgað mikið á þessum tíma og útlendingum, sem starfa hér, líka. Þó svo að Íslendingar eigi án nokkurs vafa bróðurpartinn af þessari drykkju, þá má hins vegar ljóst vera að þessar tölur í Hagtíðindum eru ekki alveg réttar. Sjö og hálfur lítri af spritti er því ekki sannleikanum samkvæmt en þó svo það sé ekki, þá er þetta alveg nóg og vel það. Opinber stofnun á hins vegar að vanda sig betur þegar hún setur fram tölur. Líklega getur hvorki hún né nokkur annar sagt okkur hvað Íslendingar drukku mikinn hluta af þessu áfengi.
mbl.is Áfengissala jókst um 7% á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefðu alveg eins getað stolið rissblokkum

Þeir hafa verið illa ruglaðir þessir að leggja á sig að ræna íslenskum krónum úr hraðbönkum. Þeir hefðu alveg eins getað stolið rissblokkum úr ritfangaverslun fyrst þeir ætluðu ekki að nota peningana hér á landi. Þessir karlar hafa greinilega ekki verið búsettir hérlendis því þá hefðu þeir vitað allt um verðgildi íslensku krónunnar og það þótt þeir skildu ekki orð í íslensku. Óhófleg bjartsýni að ætla sér að nýta þessa pappíra í öðru landi. - Til hvers eiginlega? 


mbl.is Sviku út milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símalínur virka nefnilega í báðar áttir

Þetta eru athyglisverðar niðurstöður sem koma fram í skýrslu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar en koma kannski ekki á óvart. Það er ekki bara Eyjafjarðarsvæðið sem verður út undan í þessum efnum þótt auðvitað sjáist merki þessarar "byggðastefnu" best þar. Nýlegar fréttir á þessum nótum segja allt sem segja þarf, en eru þó lítið brot af heildinni. Fasteignamat ríkisins ákvað að leggja niður starfsemi í Borgarnesi og á Egilsstöðum, Umhverfsstofnun er að leggja niður starfsemi á Akureyri. Nýr þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs verður í Reykjavík og eflaust er fleira hægt að nefna, sem ekki hefur komist í fréttirnar. Á meðan bætast við störf á höfuðborgarsvæðinu. Það eru helst fyrirtæki í einkarekstri, sem sjá sér hag í að nýta starfskrafta landsbyggðarfólks og þá tækni sem fyrir hendi er. Þannig er t.d. stærsta úthringiver landsins á Akureyri. Það er líka athyglisvert að þrír af hverjum fjórum forsvarsmanna ríkisstofnanna telja að hægt sé að vinna hluta starfa stofnanna þeirra á landsbyggðinni. Hingað til hefur því verið haldið fram að hjá forstjórunum sé flöskuhálsinn. Stjórnmálamenn hafa á liðnum árum talað digurbarkalega um þá miklu möguleika, sem tækni nútímans bjóði upp á í þessum efnum, en lítið verður úr framkvæmdum. Eitthvað hefur að vísu verið gert, rukkun sekta og eitthvað af starfsemi Íbúðalánasjóðs hafa verið flutt, svo dæmi séu tekin, en samkvæmt þessari skýrslu er sá flutningur ekki í neinu samræmi við fjölgun starfa hjá ríkinu. Maður hefði nú kannski haldið að á tímum einkavæðingar myndi störfum hjá ríkinu fækka en það virðist ekki raunin. Þeim fjölgar og er hlaðið niður á suð-vesturhornið. - Það er kominn tími til að ráðamenn átti sig á því að nettengingar og símalínur virka í báðar áttir en ekki bara að sunnan.- Mér er alltaf minnisstætt, í þessu sambandi, þegar höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins voru fluttar til Egilsstaða á sínum tíma. Þá afhenti Jón Loftsson skógræktarstjóri öllum skógarvörðum landsins faxtæki og gat þess sérstaklega að þau virkuðu í báðar áttir. Þetta var táknrænt en þetta var fyrir tíma nettenginganna og faxið því helsti samskiptamátin auk símans.
mbl.is Ekki á móti flutningi starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í viðkunnanlegu Eurovisionsæti

"Mikil hagsæld og stöðugleiki á Íslandi". - Glæsileg fyrirsögn og einstaklega snjallt að koma með frétt um þessa rannsókn núna á þessum miklu tímum hagsældar og stöðugleika. Það er eiginlega merkilegt að Bretarnir skuli hafa komist að þessari niðurstöðu eftir heils árs rannsóknarvinnu. Eins gott að þeir voru ekki að dunda við þetta núna. Ísland er í 16 sæti í þessari rannsókn, sem er sama sætið og við lendum oftast í þegar söngvakeppni Evrópu er haldin. Við höfum nú ekki alltaf verið par ánægð með það sæti en þarna eru líka þekktar Eurovision-þjóðir í toppsætum, eins og Svíþjóð og Lúxemborg, í öðru og þriðja sæti. - Kannski ætti topplið Páfagarðs í "stöðugleika og hagsæld" að spreyta sig í Eurovision næst.
mbl.is Mikil hagsæld og stöðugleiki á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir á einu máli um afleiðingar

Það er athyglisvert að sjá bæði fulltrúa neytenda og matvörukaupmanna segja álit sitt á áhrifum stýrivaxtahækkunarinnar. Allir telja þeir afleiðingarnar verða aukin útgjöld almennings í landinu. Þetta er svo sem nokkuð sem fólk hefur almennt gert sér grein fyrir og löngu ætti að vera augljóst að hækkun stýrivaxta hefur ekki sömu áhrif hér á landi og annarsstaðar. Verðtrygging lána vegur þar þyngst og ef almenningur á að geta haldið haus í svona Seðlabankahamförum þarf annað hvort að banna verðtryggingu lána eða að vísitölutryggja laun á ný. Þeir sem stjórna úr Gabróhúsinu í grunni Sænska frystihússins verða einfaldlega að líta út fyrir fílabeinsturn sinn og komast í tengsl við almenning í þessu landi og kjör hans. Ekki væri verra að stjórnmálamennirnir skoðuðu þessa hluti líka, en það skiptir minna máli, þeir ráða engu á þessu sviði. Stjórnmálamenn eru búnir að afsala sér allri ábyrgð og ef marka má fréttir úr fjármálaheimi þá er það einhver merkispersóna, sem heitir Markaður, sem þar ræður ríkjum. Líklega lætur sú skepna ekki stjórnast af mannlegum verum.
mbl.is Áhrif vaxtahækkunarinnar: Heimilum blæðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blönduósslöggan er þá enn á vaktinni!

Mikið léttir manni að sjá frétt um að löggan á Blönduósi hafi haft afskipti af fjölda ökumanna vegna hraðaksturs. Ég var farinn að óttast að þetta víðfræga lögregluembætti hefði hreinlega verið lagt niður, svo langt er síðan hraðakstursfréttir hafa sést þaðan. Ef sektirnar eru eitthvað í samræmi við það, sem stelpan er hraðast fór fékk, þá hefur dálagleg summa komið í kassann á þessum 7 klukkutímum. Þó er nú varla að búast við að allir hafi fengið svona háa sekt, en ef meðaltalið er um 15 þúsund kall, þá gera þessir 40 um 600 þúsund, svo löggurnar hafa vel unnið fyrir sínu þennan daginn. Kannski gefa þeir einhvern staðgreiðsluafslátt ef borgað er strax í posann þeirra, má vera.
mbl.is Tugir teknir fyrir hraðakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona virkar kannski í alvöru fjármálaheimi en tæplega hér

"Eðlileg viðbrögð Seðlabanka," segja Geir og Ingibjörg Sólrún um stýrivaxtahækkunina. Vel má vera að svona lagað virki í alvöru fjármálaheimi, en hvort það gerist í þessum undraheimi fjármálanna, sem er hér á landi, það er ekki víst. Svo óljóst er hvað er eðlilegt í þessum efnum. Eitthvað sljákkar eflaust í þessu öllu en vextir hækka og vísitala öll er á blússandi ferð. Hér höfum við nefnilega þessa ótrúlegu lánskjaravísitölu, sem siðaðar þjóðir þekkja ekki. - Þannig að ekki er víst að hinn venjulegi meðal-Jón hér á landi njóti neins góðs af þessum aðgerðum. Svo boðar Ingibjörg Sólrún að starfsmenn utanríkisþjónustunnar reyni að tala um fyrir útlendum peningamönnum! - Sem sagt þessir ríkisstarfsmenn reyni að klóra yfir skítinn frá hinum nýríku íslensku "fjármálamönnum", sem farið hafa nokkuð frjálslega á flugi sínu undanfarið. - Er það þá ekki svo að þegar upp er staðið í öllu peningafrelsinu, þá er það hinn almenni meðal-Jón, þessi Jón sem alltaf hefur haldið uppi ríkisskassanum, sem ber byrðarnar og tekur að sér að bjarga klúðrinu?
mbl.is Eðlileg viðbrögð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er á meðan er

Jamm, þar kom að því að hún fór eitthvað upp á við, blessunin. Ekki þó víst að allur almenningur njóti neins góðs af þessu, hækkandi vextir vega eflaust þar á móti. Hvort þetta er komið til að vera, eða bara bóla, eigum við eftir að sjá. ---- En... er á meðan er.
mbl.is Krónan styrkist um 4,23%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt upp á við, nema krónan

Nú boða forsvarsmenn verslunar miklar hækkanir á innfluttum matvælum á næstunni og ekki bara þeim heldur megi búast við hækkun á innlendum matvælum líka vegna hækkunar á hráefniskostnaði. Þá má reikna með að hærri aðföng til innlendar framleiðslu, eins og áburður og eldsneyti hafi þarna áhrif líka. Allt er þetta vegna lakari stöðu íslensku krónunnar, allt fer nú upp á við nema hún sjálf. Krónan hefur hinsvegar verið nokkuð sterk um hríð og virtist það hafa minni áhrif á verðlagið, sem auðvitað hefði átt að vera lægra þess vegna. - Haarde og hans fólk í ríkisstjórninni telja að ekkert þurfi að gera vegna þessa ástands og vona líklega að það sé tímabundið.  En hver veit um það? - Ríkisvaldið ætti þó að slá eitthvað af því sem það innheimtir í hlutfalli af innkaupsverði en halda sömu krónutölu samt. Þetta hefur allt mikil keðjuverkandi áhrif, sem á endanum greiðast af hinum almenna neytanda. Hækkandi verðlag.....hærri vísitala....hækkun lána..... allt upp á við, svo nýgerðir kjarasamningar halda varla lengur. - Fyrir þjóðarbúið ætti þó hærra verð, í krónum talið, fyrir útfluttar vörur að vega upp á móti. - Ofan á þetta bætast svo áhrifin sem allt "frelsið" hefur haft á íslenska bankakerfið og kæmi manni ekki á óvart að postular einkavæðingarinnar í þeim efnum þurfi nú á pilsfaldi ríkisvaldsins að halda til að bjarga sér og í raun þjóðinni allri fyrir horn í peningamálunum. Þeim voru gefin fjármálafyrirtæki í ríkiseign og veitt frelsi til að valsa með þær eignir að vild. Nú er það fólks að meta hvort þeim var treystandi fyrir þessu "frelsi".
mbl.is Verulegar verðhækkanir á matvælum framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ótrúlegt, var hann að meina þetta?

Ætli fjölskyldum hinna 4.000 ungu Bandaríkjamanna, sem George Bush er búinn að etja í opinn dauðann, hafi verið mikil huggun í þessum orðum hans? - Svo segir hann þessar fórnir til að tryggja frið til frambúðar í Írak. - Hvar er sá friður að þessum 4.000 mönnum föllnum? - Nei svona karlar eins og Bush ættu einfaldlega að skammast sín og slá sig sjálfa af sem fyrst. Það hafa sumir annarra stærstu glæpamanna sögunnar gert. - Það er í raun ótrúlegt hve honum tókst, við upphaf þessarar helfarar, að blekkja bandarísku þjóðina og fjölda annarra þjóðarleiðtoga. Þar eru íslenskir leiðtogar ekki undanskildir. - Svo segir hann bara við foreldra, systkini og börn: "Ég samhryggist ykkur". - Þvílík hræsni - Hve mörg mannslíf hafa horfið í þessum hilldarleik veit líklega ekki nokkur maður, 4.000 Bandaríkjamenn eru án efa örlítill hluti þess. - Nei svona fréttir, eins og þessi, sýna manni ótrúlega mikið um hræsni og villimennsku. - Var maðurinn virkilega að meina þetta. Það er ótrúlegt að hann trúi því sjálfur.
mbl.is Samúðarkveðjur frá Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband