Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

"Dýrsleg" hauskúpa í Kjósinni

Þessi frétt af hauskúpunni í Kjósinni virðist efni í heilmikla sögu. Ekki nóg með að eigandi hjólhýsisins sáluga hafi talið kúpuna vera af dýri og því haft hana meðal húsmuna, heldur virðist einhver ókunnur maður hafa komið með hauskúpuna í hjólhýsið. Sagan er öll rakin á vef Kjósverja www.kjos.is en það sem manni finnst undarlegast er að hjólhýsiseigandinn hafi ekki áttað sig á því að kúpan er af manni en ekki dýri. Hún virðist þó heilleg að sjá á myndum, ef þær eru þá af henni, og ekkert sérlega dýrsleg.- Þetta verður án efa spennandi framhaldssaga.
mbl.is Hauskúpan var meðal húsmuna í hjólhýsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú kemur sér vel að eiga góða granna

Ánægjulegt er að sjá fréttir af því að eitthvað sé um að sjávarafurðir séu unnar á Akranesi eftir allt sem gekk á þegar HB-Grandi ákvað að hætta þar bolfiskvinnslu þvert á það sem búist hafði verið við. Það hefur reyndar verið gott fyrir þá Grandamenn að hafa fiskimjölsverksmiðjuna á Akranesi að undanförnu, ekki síst meðan loðnan var við bæjardyrnar. Ekki hefðu þeir fengið að bræða hana né heldur kolmunnann núna í Örfirisey. Það hefðu allar frúr í vesturbænum orðið vitlausar um leið og einhver keimur af fiski hefði borist frá verksmiðjunni. - Já það kemur sér stundum vel að eiga góða granna. - Vonandi eiga þeir Grandamenn eftir að sjá að sér og nýta þann mannskap, ásamt þeim tækjum og húsum, sem til eru á Akranesi til arðbærrar framleiðslu sjávarafurða. - Einhver þvermóðska virðist hafa ráðið ríkjum hjá fyrirtækinu að undanförnu frekar en framsýni og skynsemi. En það hefur aldrei gert svo dimm él að ekki birti upp aftur. - Áfram Skagamenn! - Við höfum oftar en ekki hlaupið undir bagga með KR-ingunum í Vesturbænum þegar þeir hafa þurft á að halda.
mbl.is Kolmunna landað á Akranesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafnt hafast mennirnir að

feb 2008 016Meðan flestir hafa slakað á og reynt að njóta frídaganna um páskana í frábæru veðri berast fréttir af allskonar djöfulgangi og látum í henni Reykjavík. Þetta eru engin venjuleg slagsmál, eins og tíðkuðust á böllum hér áður fyrr, ef hægt er að tala um eitthvað venjulegt þeim efnum. Nei, þetta eru stórtækar líkamsárásir, þar sem ofbeldismennirnir fylla tuginn og ríflega það vopnaðir lífshættuegum tólum. Rán og önnur óáran hafa verið tíunduð líka. Menn nota greinilega frídagana sína á misjafnan hátt. Í gegnum tíðina hefur maður vonað að ekki bærust fréttir af alvarlegum umferðarslysum í fréttum páskanna, enda margir á ferðinni þessa dagna og akstursskilyrði ekki alltaf þau besu á þessum árstíma. Sem betur fer hefur ekki verið mikið um fregnir af slíku enn, þó ein slík frétt sé of mikið. Aukið ofbeldi virðist vera það sem hæst ber þessa páskahelgi. Sem betur fer hefur þó stærstur hluti landsmanna notið þess að vera til um páskana, hitta vini og ættingja og nýtt sér frídagana til uppbyggilegra hluta. Það er því óhætt að segja að misjafnt hafist mennirnir að, þessa dagana.

(myndin, sem fylgir með, er tekin út á Eyjafjörðinn á páskadag. Hrísey í vetrarskrúða og ferjan Sævar á leið frá Árskógssandi til Hríseyjar, sjá myndaalbúm)-hb


Aftur? - Nei þetta er sama atvikið

"Sjaldan er góð vísa of oft kveðin". Það á kannski við þegar maður les þessa frétt af 15 ára strák sem var keyrandi með fullan pabba sinn á Bolungarvik um miðjan dag í gær. Frétt um sama atburð og jafnvel aðeins ítarlegri er annarsstaðar á mbl.is og var sett þar inn um kl 17 í gær. - Eitthvað hefur einhversstaðar farið öðruvísi en ætlað var í fréttaskrifunum, nema það sé ætlunin að endurtaka þessa frétt með reglulegu millibili, svona öðrum til varnaðar. --- En ---- Svo virðist ekki vera því núna þremur tímum eftir að ég skrifaði ofangreinda klausu er seinni fréttin horfin út af mbl.is. en sú fyrri stendur og er hún hér fyrir neðan.

mbl.is15 ára ökumaður ók útaf


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kýr um kú frá kú til nauts

"Ef þú ert bíll, þá er ég hestur", sagði asninn við trabantinn. - "Þrjár kýr sem verið var að flytja til slátrunar sluppu lausar",..... segir m.a. í frétt á mbl.is. Eitthvað hefur kyngreiningin skolast til hjá blaðamanninum í þessari frétt ef marka má myndskeiðið sem fylgdi með fréttinni. Kýrnar hafa að vísu oft verið vandamál hjá íslenskum blaðamönnum og beygingin vafist fyrir þeim. Oftar en ekki hefur það vandamál verið leyst með því að tala um belju en það gengur ekki upp í þessu tilfelli. En mikið asskoti hlýtur að vera rýr eftirtekjan hjá mjólkurstöðvunum þarna vestra ef þetta eru mjólkurkýrnar þeirra.
mbl.is Sluppu á leið á sláturhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

6 fréttir af sama máli á 12 tímum

Þessir ólánsmenn, sem otuðu sprautunálum að saklausu fólki og hótuðu því, redduðu greinilega alveg fréttavatkinni hjá mbl.is í gær. Hvorki fleiri né færri en 6 fréttir voru um ógæfu þeirra og afleiðingar hennar frá því klukkan 9 í gærmorgun til kl 20:30. Fátt annað frétnæmt á þeim tíma, enda líklega fámennt á fréttavaktinni á þessum langa föstudegi og því málið leyst með því að hringja bara í lögguna til að hafa eitthvað. - Hvað verður svo um þá ólánsömu þremeninga, sem nú liggja undir grun? Framundan er vikulangt gæsluvarðhald, svo líklega sama ferlið aftur, hark fyrir dópi og tóbaki með öllum tiltækum ráðum. Eða þá Hraunið, sem ekki hefur verið besti staðurinn fyrir fíkniefnaneytendur í vanda hingað til. Fréttir hafa þó borist af batnandi tímum í þeim málum þar, svo vonandi er að menn skili sér þaðan aftur heilsteyptari og tilbúnir að takast á við verkefnin utan múranna.
mbl.is Þrír úrskurðaðir í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í höndum sjúkra geta saklaus verkfæri orðið að hættulegum vopnum

Vopnin geta verið margvísleg, eins og þessi dæmi um sprautunálarnar sýna. Þrisvar var ógnað með þeim í Reykjavík á stuttum tíma, síðasta sólarhringinn. Ekki þarf að undra að fólk sé hrætt við slík verkfæri, sem geta valdið illvægum sjúkdómum. Þeir, sem sprautum beita í þessum tilfellum, eru sjúkir menn en hinsvegar vitum við að hjálp er til fyrir þá hér á landi og eflaust sú besta sem fæst í heiminum og fer þar SÁÁ fremst í flokki. Sem betur fer hlaut enginn líkamlegt tjón af þessum aðförum en sagan hefur sýnt okkur að ekki láta þau öll mikið yfir sér vopnin, sem notuð eru. Dúkahnifar nægðu þeim sem rændu stórum farþegaþotum og frömdu hryðjuverkin mannskæðu í Bandaríkjunum. Engin hjálp var til fyrir þá, sem héldu á þeim vopnum og ekki heldur fyrir þá þjóðarleiðtoga sem í kjölfarið sendu ungmenni sín með með stórtæk vopn í hendi í opinn dauðann í þeim tilgangi að drepa fjölda fólks. - Þarna er kannski ólíku saman að jafna en allt er þetta samt sjúklegt, hvert á sinn hátt. - Kannski verðugt umhugsunarefni á föstudaginn langa.
mbl.is Þriðja sprautunálaránið framið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf pottþéttir páskarnir!

Aldrei bregðast páskarnir, alltaf þetta 5 daga pottþétta frí, að minnsta kosti hjá venjulegu launafólki, sem vinnur sína dagvinnutíma og kannski heldur meira í hverri viku. Eða eins og maðurinn sagði eitt sinn, þegar hann leit á dagatalið í byrjun nýs árs: "Góðir páskarnir núna, skírdagur á fimmtudegi", ekki nema von því margir aðrir frídagar eiga það til að bregðast fólki. Stundum er talað um avinnurekendajól og svo getur auðvitað 1. maí, baráttudag verkalýðsins, borið upp á helgi, sömuleiðis þjóðhátíðardaginn 17. júní. Páskar, hvítasunna og þessir tryggu fimmtudagsfrídagar á vorin, eins og uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti eru þó alltaf öruggir. Ég fór að velta þessu fyrir mér því mér finnst áberandi mikið af fólki vera hér á Akureyri núna og það þrátt fyrir frekar leiðinlega tíð í gær, að vísu var alltaf fært að sunnan, bæði landleið og loftleið en ófært landleiðina að austan. Líklega er þetta ein mesta ferðahelgi landsmanna fyrir utan verslunarmannahelgina og skiptir þá hátt bensínverð og vetrarveður litlu. Annars er hann "brostinn á með blíðu" núna og sól skín í heiði, að vísu leiðindaslabb á götum innanbæjar, enda hefur snjóað í nótt en sólin sér um að hreinsa það. Fólk steymir í Hlíðarfjall á skíði og aðrir njóta góða veðursins á láglendi, best að drífa sig út í góða veðrið. Smile

Um er að ræða að líta við og staðsetja aðilann í þessari aðstöðu

Allskonar orðskrípi og afbakanir breiðast oft hratt út í málfari fólks og líta svo sem ekki vel út í fyrirsögn eins og hér að ofan. Áður fyrr var þágufallssýkin algeng og mönnum hlakkaði til, þeim langaði og allt það. Þágufallssýkin er vissulega til ennþá en kannski meira áberandi í öðrum orðasamböndum. Nú er t.d. algengt að heyra fólk segja: spáðu í því. - Þarna er greinilega verið að rugla saman spáðu í það og pældu í því - Í morgun heyrði ég í útvarpinu viðtal við mann, sem ætlar að aðstoða útlendinga við að telja fram til skatts, sífellt tala um skattskýrslu þegar hann var að tala um skattframtal - Skattskýrsla er eitthvað sem kemur mun seinna, þegar álagður skattur liggur fyrir. Í eina tíð var þessi skýrsla til sérprentuð og var vinsælt lesefni. - Svo er alltaf verið að líta um öxl í auglýsingum. "Littu við hjá okkur" - Þarna er verið að rugla saman komdu við og líttu inn. Ein aðal tískan núna er að staðsetja allt mögulegt og líka um er að ræða. - Hvorttveggja er vinsælt í fasteignaauglýsingum. Dæmi þegar einbýlishús er auglýst: Um er að ræða einbýlishús staðsett í góðu hverfi. - Ef um er að ræða og staðsett eru fjarlægð úr textanum breytist ekkert. Sama má segja um ofnotuð orð eins og aðstaða, aðili og magn. - Oftast nær, ef ekki alltaf, eru þessi orð óþörf. -Tískuorðin eru án efa oft komin til vegna þess að fólk ætlar að fegra mál sitt og fer þá að nota þessi orðskrípi en einfaldleikinn í texta er alltaf bestur og skilar því sem þarf að segja.

Enn og aftur finnast týndir fiskar

Þá eru þeir farnir að veiða loðnu á Breiðafirði, greinilegt að einhver ganga hefur komið vestan að, eins og stundum gerist. Enn og einu sinni hefur hún synt framhjá Hafró og setur þá líklega strik í reikninginn. Óvíst er samt hvort það strik veldur nokkrum usla í reikningshaldi Hafró, þar á bæ kunna menn eflaust einhverjar skýringar á þessu, þó ekki væri nema með þögninni.  Litlar líkur verður þó að telja á auknum loðnukvóta, nema þeim mun meira komi í ljós fyrir vestan. Loðnuveiðistoppið, sem sett var á um tíma, hafði alvarlegar afleiðingar fyrir loðnuvinnslu landsmanna og ekki væri amalegt fyrir þjóðarbúið að hafa þá milljarða, sem fóru forgörðum vegna þess, núna þegar allt er í kalda koli í efnahagsmálum en gott verð og mikil eftirspurn eftir loðnuafurðum. Lærdómurinn sem draga má af misvísandi upplýsingum vísindamanna um loðnustofninn og ekki síður þorskstofninn ættu að sýna okkur að aðferðir vísindamanna og viðvera þeirra við rannsóknir þurfa mikillar skoðunar við. Loðnan og þorskurinn hafa týnst við Ísland og kanadískir vísindamenn týndu hvorki meira né minna en 40 þúsundum hvölum. Miðað við það er ekki að undra að þeir íslensku týni þessum loðnukvikindum, þau eru heldur smærri en Grænlandssléttbakur.
mbl.is Loðna veiddist á Breiðafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband