Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Ha! - Kópavogur og skipulag?

Úps!!! - Getur það verið að bæjarstjórinn í Kópavogi sé að gera sig breiðan um skipulagsmál? -Er eitthvað til sem kallast getur skipulag í Kópavogi? - Kópavogurinn hefur nú eiginlega verið eitt allsherjar völundarhús frá upphafi og ekki hefur það batnað með illskiljanlegu gatnakerfi og þessum turnum sem þar rísa.

Sagan segir að þegar gatnagerð hófst í Kópavogi hafi Finnbogi Rútur staðið og bent jarðýtustjórunum á að taka stefnuna á einhverja tiltekna steina og hóla. Út frá því sé svo skipulagið komið í þeim bæ. - Kannski var þetta bara ágætis aðferð og fleiri sáttir þá en nú þegar "forsjárhyggjan og valdboðið hafa náð yfirhendinni", eins og bæjarstjórinn segir. Skipulagsmál í mörgum bæjarfélögum í dag eru svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir og mörg dæmi um ótrúlegt klúður.

Hér áður fyrr var Skóda-umboðið í Kópavogi og ein sagan um flókið gatnakerfi þar, var af gamla manninum sem hafði farið þangað að kaupa Skódann sinn. Síðast þegar fréttist af honum var hann enn að leita leiðar út úr bænum. Síðan eru liðin mörg ár og þessi saga löngu úrelt. - En bara, svo það fari ekki á milli mála:.......Það er gott að búa í Kópavogi.


mbl.is Valdboðið náði yfirhendinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjallt hjá Skagfirðingum

Skagfirðingar horfa til framtíðar og stofnun undirbúningsfélags um að reisa koltrefjaverksmiðju er til fyrirmyndar. Þarna hafa heimamenn frumkvæðið, fá til liðs við sig fjárfesta úr sinni sveit og lengra að komna og hrinda verkefninu af stað. Ekki ál né nokkurskonar málmbræðsla, verksmiðjan þarf nokkra orku en ekki umtalsverða og mengunin eflaust hverfandi ef hún er þá einhver. Þetta er passlega stórt fyrirtæki, það munar um 60 störf og svo eru alltaf einhver hliðarstörf. Stærðin setur þó ekki allt á hliðina í samfélaginu. Fjárfestingin er heldur ekkert sem ætti að vefjast fyrir mönnum.

Snjallt hjá Skagfirðingum að horfa út fyrir álgarðinn, horfa til framtíðar og framleiðslu á efni sem virðist einsýnt að eigi framtíðina fyrir sér. Vonandi er að dæmið gangi upp hjá þeim.


mbl.is Undirbúa byggingu koltrefjaverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrr má nú rota en dauðrota

Já fyrr má nú rota en dauðrota. Ekki er ég viss um að höggið við að lögfesta matvælalög Evrópusambandsins verði svo þungt að dauðrot hljótist af, eins og kemur fram í máli Guðna Ágústssonar. Satt að segja held ég að íslenskir neytendur séu skynsamari en svo að þeir velji útlendar kjötvörur umfram íslenskar svo einhverju máli skipti.

Auðvitað má búast við aukinni samkeppni en eru ekki allir frystar í matvöruverslunum nú þegar fullir af allskonar innfluttu kjöti? Samt kaupa Íslendingar sínar kjötvörur, sem aldrei fyrr. Forskot íslenskra framleiðenda er augljóst á öllum sviðum og þeir geta örugglega aukið það enn frekar. Líklega er þetta óþarfa ótti og pirringur en Guðni þarf að hafa sín orð um þetta, svo eftir honum sé tekið.


mbl.is Segir landbúnaði og neytendum kunni að vera ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál - En hvað með álminjasafn?

Þetta er til fyrirmyndar að fjarlægja strax þessi mannvirki á Reyðarfirði, sem ekki er not fyrir lengur. Þessir tankar og aðrir þeim skyldir hafa sett mikinn svip á þorpið síðustu árin en nú er tími þeirra liðinn og hugmyndin um miðbæjarskipulag þarna upp af höfninni er auðvitað borðliggjandi. Þarna og í næsta nágrenni var í raun miðbær Reyðarfjarðar með höfuðstöðvar Kaupfélags Héraðsbúa, sem miðpunktinn.

En svo er spurningin. Ætla Reyðfirðingar ekki að koma sér upp álminjasafni til að sýna komandi kynslóðum stóra stökkið sem varð þar eftir þriggja áratuga bið? - Það væri þörf viðbót við stríðsminjasafnið sem þar er. Þetta tvennt; álið og stríðið er líklega það sem áhrifaríkast hefur verið fyrir Reyðarfjörð í gegnum tíðina að síldarárunum kannski slepptum.  


mbl.is Miðbær í stað sementsturna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti Einar virkilega von á einhverju?

Ætli Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hafi virkilega búist við einhverjum stórtíðindum varðandi þorskstofninn úr togararallinu? - Ef svo er þá er hann örugglega einn um það. Ég efast stórlega um starfsmenn Hafró trúi því sjálfir að eitthvað jákvætt geti komið út úr því. Þetta togararall er eflaust nýtilegt til margra góðra vísindalegra hluta og rannsókna. En að nota það við að ákvarða stærð þorskstofnsins hefur alltaf verið furðulegt og er enn. Enda geta eflaust margir tekið undir ummæli Guðjóns Arnars á alþingi í gær.

Svo segir ráðherra að hlutirnir þokist í rétta átt. Það er allur árangurinn eftir áratuga verndun þorskstofnsins. Allsstaðar er fiskur og allir verða varir við hann mema Hafró, sem ráðherrann verður svo að taka mark á. Ekki er hægt að taka fram fyrir hendurnar á mönnum sem hafa menntun og þekkingu til. - Það er löngu tímabært að stokka upp spilin í þessum málum og viðurkenna að það hefur verið vitlaust gefið frá upphafi.

 


mbl.is Vorrall færir vonarneista en engin stórtíðindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringavitleysan heldur áfram

Alltaf fer þetta allt í hringi í fiskveiðistjórnuninni hjá okkur. Veiði er takmörkuð með naumum kvóta vegna þess að þorskstofninn á að vera svo lítill. Úr þessum litla stofni veiðist svo mikið að kvóti, sem þyrfti að duga fram á haust er nánast búinn á vormánuðum. Þá fara menn í auknum mæli að velja úr besta og verðmesta fiskinn og það sem merkilegt er, það virðist úr nógu að velja. Sem sagt, litli þorskstofninn er svo stór að hægt er að leyfa sér að velja úr. Verst er að það sem kastast frá er kannski meira og minna dautt.

Þetta eru ósköp eðlileg viðbrögð hjá sjómönnum og útgerðarmönnum. Naumt er skammtað úr gnægðinni og þeir reyna að lifa af....gera gott úr því litla sem má veiða.

Svo fer Hafró í togararall og ekkert bendir til breytinga, þó segir ráðherrann einhverjar jákvæðar vísbendingar. - Fiskurinn veiðist sem aldrei fyrr úr þessum stofni, sem nánast er ekki til og hringavitleysan heldur áfram. - Þetta kallast veiðistjórnun og verndun fiskistofna. 


mbl.is Segir brottkast að aukast gífurlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salernin eru ekki símaheld........

....er ekki aðalatriðið að þau séu vatnsheld? - þurfa þau að halda símum líka?.....það hlýtur líka að fara illa með símana að lenda í salernum - enda hafa þeir ekkert þangað að gera.......svona eru nú fyrirsagnirnar gáfulegar...
mbl.is Salernin eru ekki símaheld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heppnir að hitta á sömu krónutölu sama daginn

Hérna aðeins neðar á síðunni er önnur frétt þar sem eitt olíufélaganna ber af sér allt samráð við önnur félög um verð, með ýmsum undarlegum afsökunum. Nú hækka félögin verð á eldsneytislítra um 2 krónur, segir í þessari frétt. Mikið asskoti eru þau alltaf lunkin þessi olíufélög að hitta á sömu krónutöluna og það á sama degi, þrátt fyrir að vera ekki með samráð um eitt eða neitt. - Hver verður næsti brandarinn frá þessum undrafyrirtækjum í samkeppni, skyldu þau öll lækka verðið jafn mikið einhvern daginn?
mbl.is Eldsneyti hækkar í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagastrætóinn er hrein snilld

Já Skagastrætóinn er hrein snilld og ekki er ég hissa á aðsókninni í hann. Sjálfur reyndi ég þetta í fyrra. Þá þurfti ég að fara frá Egilsstöðum til Akraness, sem sagt enda á milli á landinu og varla til lengri leið að fara. Eftir tæplega klukkutíma flug frá Egilsstöðum var ég í Vatnsmýrinni og gekk þar rétt út fyrir flugstöðina. Beið í einhverjar mínútur eftir strætó númer 15, sem ég gat tekið alla leið í Mosó. Með skiptimiða að vopni fór ég svo þar inn í strætó númer 27 nokkrum mínútum síðar og beint upp á Akranes.

Einfaldara gat það ekki verið og ferðin í heild frá Egilsstöðum til Akraness tók ekki nema rúma 2 klukkutíma. Að vísu kostaði flugið eitthvað um 10 þúsund kallinn en innan við 300 kall í strætóinn. Svo eru Skagamenn víst komnir með frítt í strætó innanbæjar núna og fylgja þar fordæmi Akureyringa og Egilsstaðabúa en góð reynsla er af ókeypis strætó á þessum stöðum. Eitthvað sem einhver af borgarstjórnarmeirihlutunum í Reykjavík gæti lært af.


mbl.is Akranesstrætó slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúlegt eða hitt þó heldur

Það er í rauninni ótrúlegt oft á tíðum hvað forsvarsmenn olíufélaganna ímynda sér að hægt sé að telja fólki trú um. Meira að segja að ekkert samráð sé milli félaganna. Ef ekki er samráð milli þeirra, þá hlýtur það að kallast gegnsæi eða eitthvað álíka. Í það minnsta virðast aðgerðir þessara félaga vera nokkuð taktvissar og munurinn á verðlagi er yfirleitt það lítill að ekki tekur því að tala um hann.

Svo er síðasta setningin í fréttinni snilld, hvort sem hún er komin frá blaðinu eða olíumönnum. Að ekki sé prósentuálagning á eldsneyti heldur sé álagning krónur á lítra. Það vissu allir að ekki er hún evrur eða dollarar hér á landi, né einhver annar gjaldmiðill. Ekki er hún föst krónutala. Auðvitað er hún hlutfall af einhverju og er það ekki það sem kallað er prósentuálagning?


mbl.is Athugasemd frá Olís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband