Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Eðlilegt framhald af góðum árangri

Það er náttúrulega borðliggjandi að ráða Ólaf Þ. Stephensen sem ritstjóra Morgunblaðsins og aðalritstjóra Árvakurs. Undir hans stjórn hefur dagblaðið 24 stundir vaxið og dafnað og því eðlilegt framhald að hann taki við Mogganum eftir að Styrmir hættir. Nú bíður Ólafs það hlutverk að rífa Morgunblaðið upp til fyrri virðingar.

Að vísu verð ég aldrei sáttur við þetta nafn á blaðinu; 24 stundir. Það eru bara áhrif úr ensku en yfir þetta eigum við ágætis orð í íslensku sem er sólarhringur.

En til hamingju Óafur og Moggamenn.


mbl.is Ólafur nýr ritstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlaus mótmæli og stjórnlaus geðveikisöskur um GAS!!!

Vel má vera rétt hjá Herði að mótmælin hafi verið stjórnlaus og þess vegna hafi lögreglan gripið til aðgerða. Hvernig aðgerða hún greip til má hins vegar deila um og hvort stjórn var á þeim aðgerðum. Í það minnsta virtist hann stjórnlaus lögreglumaðurinn sem sást í sjónvarpi með úðabrúsann sprautandi og hrópaði geðveikislegri röddu: GAS!!! GAS!! GAS!!! - Nei þetta bar ekki vott um heilbrigða stjórn á aðgerðum lögreglunnar.

Nú ætti að vera orðið ljóst að ágreiningur verður aldrei leystur með ofbeldi og það sem voru mótmæli trukkabílstjóra í morgun breyttist í almenn mótmæli og á köflum skrílslæti. Svo ekki sé minnst á stríðsleik af hálfu lögreglu. - Annars var svoldið táknrænt að sjá þá koma þarna strákana úr Iðnskólanum í Hafnarfirði, sem voru að dimmitera í líki Hitlers og undirsáta hans.


mbl.is Mótmælin virtust stjórnlaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki keyra þeir trukkana burt blindir af sprayúða

Jæja, þá kom að því . Nú fékk lögguherinn aldeilis verðugt vekefni og getur beitt öllum tiltækum vopnum. Úðað spreyi og hvað eina. Spurning hvort einhver hlýtur skaða af en fastlega má þó reikna með því. Táragasið, eða hvað sem þeir nota getur nú ekki verið hollt í augu manna og varla keyra bílstjórarnir trukkana á burtu staurblindir.

Annars er ég viss um að þeim leiðist ekki núna víkingasveitargæjunum. Þetta er það sem þeir eru þjálfaðir upp í og bíða spenntir eftir. Það verður hins vegar að segja lögreglunni til hróss að fram að þessu hefur verið tekið á þessum mótmælum af skynsemi. Deilumál verða aldrei leyst með ofbeldi og skiptir þá engu hvert upphaf deilnanna er. Við skulum þó vona hið besta og að enginn slasist en öruggt má telja að þetta sem gerðist núna verður ekki til að lægja öldurnar.


mbl.is Lögregla beitir táragasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesturgatan löngum þótt góð til hraðaksturs

Þetta er nú meira hraðakstursæðið sem gengur yfir Skagann og ótrúlegt að þessir krakkar sem keyra hvað hraðast skuli ekkert læra af reynslunni. Vítin hafa jafnan verið til að varast þau. Annars hefur Vesturgatan á Skaganum löngum þótt góð til hraðaksturs, nú virðist hann þó aðallega stundaður á Niðurskaganum þar sem húsin standa nánast ofan í Vesturgötunni. Áður fyrr var nú mestur hraðinn talsvert innar og helst á kaflanum frá Merkigerði að Háholti. Einmitt á mínum æskuslóðum í mýrinni. Í heild er nú Vesturgatan rúmur tveir og hálfur kílómetri að lengd, að mig minnir, og ekki er beygjunum fyrir að fara.

Erfitt er að sjá hvað er til ráða, helst þó að skapa þannig stemmningu meðal unga fólksins að þessi hraðakstur þyki ekki sniðugur í þeirra hópi. Löggan virðist vera með nýjungar, hringir meðal annars í mömmurnar og "klagar", það er svo sem snjallt ef það virkar en slíkt er ekki hægt nema ökumaðurinn sé undir 18 ára aldri. Ég hef litla trú á hraðahindrunum, þó vel megi vera að það virki í þessu tilviki. Það er svoldið hvimleitt að sjá þegar loks hafa verið gerðar sléttar og beinar götur að þá þurfi að eyðileggja þær með einhverjum leiðinlegum hólum.

Nei, hugarfarið skiptir mestu og því þarf unga fólkið á Skaganum að breyta.


mbl.is Kappaksturinn á Akranesi stöðvaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki nóg af grenjum fyrir þá í miðbænum?

Refir í Heiðmörkinni já. Maður var svo sem búinn að heyra af póltískum ref úr Kópavoginum í skóglendi Reykvíkinga með skurðgröfur að vopni. Svo hefur náttúrlega verið heilmikil refskák í borgarstjórninni. Meindýraeyðir telur þó enga hættu á að refirnir úr Heiðmörkinni fari í bæjarferð og geri sér greni í húsum eins og gerst hafi í útlöndum. Er ekki annars nóg um grenin fyrir í miðborginni? - Kannski best að náttúrulegir refir nýti þau fyrst hinir pólitísku kunna ekki með þau að fara.
mbl.is Refir í Heiðmörkinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsið getur verið fljótt að snúast upp í andhverfu sína

Ég held að eg hafi talið rétt að 43 hafi tengt bloggfærslur sínar við þessa frétt um lokun bloggsíðu Skúla Skúlasonar frá því fréttin var sett inn klukkan 8 í morgun. Athugasemdafærslurnar skipta svo eflaust hundruðum ef ekki þúsundum og skoðanir á þessu margvíslegar. Það hefur því ríkt hálfgert stríð á bloggsíðum mbl.is í dag og kemur þá í ljós enn einu sinni það sem sagan segir okkur að ef eitthvað eitt, umfram annað, getur komið af stað stríði þá eru það deilur um trúarbrögð.

Ekki ætla ég að leggja mat á hvort rétt hafi verið að loka þessari tilteknu síðu. Það var ákveðið af stjórnendum mbl.is og að þeirra sögn í fullu samráði og sátt við viðkomandi einstakling. Ástæða þótti til þess. Ljóst er að valdið er þeirra sem stýra mbl.is, annað er einfaldlega ekki hægt. Þeir stýra þessum fjölmiðli og sjá því um að breiða út þann "boðskap", sem þar er fluttur. Um það hefur verið sköpuð umgjörð, sem eflaust verður svo endurbætt og þróuð eftir því sem reynslan færist yfir. Þetta "apparat", hefur nú ekki starfað nema í tvö ár þannig að það er enn í mótun.

Frelsið er mikið á bloggsíðum mbl.is og frelsið er vandmeðfarið. - Það er nefnilega þannig að frelsið getur verið fljótt að snúast upp í andhverfu sína.


mbl.is Óánægja með lokun umdeilds bloggs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Abbas hefur nú séð það svartara

Nú er maður alveg hættur að átta sig á trukkabílstjórunum. Mótmæli þeirra voru góðra gjalda verð í upphafi og þeir riðu á vaðið með því að vekja rækilega athygli á málstað sínum með aðferðum sem ekki hefur verið mikið um hér á landi. Þeir eru enn að, enda eflaust nógu hægt að mótmæla, en þá hlýtur maður að spyrja hverju þeir eru í raun að mótmæla núna?

Möllerinn er búinn að fara til Brussel og tala máli þeirra. Nú liggur fyrir ESB ósk um að tekið verði tillit til trukkabílstjóra um hvíldarreglur. Það virðist hafa hægst heldur á eldsneytishækkunum hér á landi, miðað við það sem var áður, þrátt fyrir að eldsneytisverð hækki ytra. Hvað stendur þá eftir?

Það að vekja á sér athygli með því að trufla atburðarás við Bessastaði gerir hvorki þeim né okkur hinum gagn, nema síður sé. Líklega kippir nú Abbas sér ekki upp við einhverja nokkra trukka með flautublæstri. Hann hefur séð það svartara.

 


mbl.is Bílstjórar fóru með friði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðalánasjóður tryggir raunverulegt frelsi

Sem betur er höfum við Íbúðalánasjóð, það sýnir sig enn og aftur. Þrátt fyrir allt "frelsið" á fjármálamarkaði og tímabundin gylliboð stendur sjóðurinn allt af sér. Hann sinnir hlutverki sínu og meira að segja lækkar vexti núna og sýnir okkur enn og aftur fram á nauðsyn þess að hafa þennan fasta punkt í kerfinu fyrir þá nauðsynlegu fjárfestingu sem íbúðarhúsnæði er hverjum manni.

Íbúðalánasjóður á ekki bara að vera einhver félagslegur pakki eins og margir "frelsis"postularnir vilja. Hann á að vera valkostur fyrir alla. Íbúðalánasjóður tryggir raunverulegt frelsi á fasteignamarkaði.


mbl.is Vaxtalækkunin sýnir styrk Íbúðalánasjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað verður um óskhyggju Seðlabankamanna?

Eykur þetta ekki líkurnar á að ekkert verði úr þeirri óskhyggju Seðlabankamanna að húsnæðisverð lækki um 30%.? - Það að Allianz, í eigu Byrs, ætli að bjóða óverðtryggð lán, að vísu í evrum, ásamt því að Íbúðalánasjóður ætlar að bjóða lægri vexti, segir okkur allavega að vænta má einhvers lífsmarks á fasteignamarkaðinum.

Við skulum vona að þetta verði líka til þess að forsendurnar fyrir útreikningi lánskjaravísitölunnar verði skoðaðar. Löngu er kominn tími á að endurskoða það óréttlæti sem í þeim útreikningum felst. Líka spurning hvort þetta ýtir eitthvað við öðrum bönkum.


mbl.is Íhugar að bjóða óverðtryggð íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pukrið er bara hluti af ohf

Svona virkar ohf. bara - RÚV kemur ráðherra ekkert við lengur. - Eigendunum, þjóðinni, kemur heldur ekkert við um RÚV. - Þetta eru skilaboðin sem send eru og ekki er víst að eigendur annarra fyrirtækja í landinu sættu sig við svona lagað. Þeir vilja eflaust margir hverjir geta leitað svona upplýsinga í sínum fyrirtækjum. - En þannig er það bara ekki hjá RÚV ohf. - Aumkunarverðast er það fyrir útvarpsstjóra að þarna er fjölmiðillinn visir.is að vitna til upplýsingalaga og fær ekki svör. Þeirra sömu laga og starfsmenn RÚV hafa oftar en ekki þurft að vitna til við að leita upplýsinga. Það var meðal annars gert fljótlega eftir að lögin voru sett til að fá upplýsingar um laun sveitarstjóra.

Laun útvarpsstarfsmanna voru aldrei leyndarmál áður en ohf kom til, enda allir á þeim launaskömmtum sem ríkið skammtar. Nú er öldin önnur, pukur og greinilega einkasamningar við einstaka menn í gangi. Efast samt stórlega um að stærstur hluti starfsmanna RÚV liggi á upplýsingum um sín laun. Þeir eru ekki ofaldir.

Án efa verður hið sama upp á teningnum þegar Landspítalinn verður ohf.


mbl.is Pukur ekki að undirlagi ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband