Bændum, kjötiðnaðarmönnum og neytendum er treystandi

Ég verð að segja það enn og aftur að mér finnst pirringurinn, óttinn og stressið yfir þessum mögulega kjötinnflutningi óþarflega mikill. Finnst reyndar ótrúlega lítið traust borið til íslenskra neytenda. Býst fólk virkilega við því að Íslendingar hlaupi allir upp til handa og fóta og kaupi útlent kjöt umfram það íslenska jafnvel þótt það verði eitthvað ódýrara? Ekki sér maður mikla hreyfingu á því útlenda kjöti, sem nú þegar er boðið upp á í verslunum, sem er þó nokkuð samt. Ég er viss um að íslenskar kjötvinnslur halda velli eftir sem áður og geta meira að segja farið að stunda útflutning. Ætlumst við ekki til þess að geta flutt út bæði fisk og kjöt, hvers vegna eigum við að setja hömlur á innflutning frá sömu þjóðum og við erum að flytja okkar matvæli til?

Það er mikill hræðsluáróður í þessu öllu saman og ekki síst þessi sjúkdóma- og smitótti. Landið er opið í dag. Íslendingar ferðast milli landa og útlendingar koma hingað. Það er af sem áður var að beðið sé komu vorskipsins. Smit getur borist á allan hátt til landsins, meira að segja á hjólbörðum bíla og skófatnaði fólks, svo eitthvað sé nefnt. Eftirlit með innfluttum matvælum hlýtur að verða jafn mikið og með íslenskum matvælum. Því verðum við að trúa.

Hættið nú þessari endalausu forsjárhyggju og treystið á skynsemi samlanda ykkar. Ísland er heldur ekkert einangrað fyrirbæri lengur. Innflutningur á einhverjum útlenskum kjöttuttlum verður ekki til að lama atvinnulíf í heilu byggðarlögunum. Íslenskir bændur, kjötiðnaðarmenn og neytendur sjá til þess. Þessu fólki er nefnilega treystandi.


mbl.is Vilja ekki innflutning á fersku kjöti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Íslendingar munu halda sig við íslenska lambið. Ætli þetta myndi ekki bara hleypa lífi í íslenska kjötiðn?

Hólmdís Hjartardóttir, 19.4.2008 kl. 21:25

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Það kæmi mér ekki á óvart Hólmdís, að möguleikarnir í íslenskri matvælaframleiðslu myndu aukast við þetta.

Haraldur Bjarnason, 19.4.2008 kl. 21:53

3 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Heldur fólk virkilega að það ráði einhverju um það hvað er keypt.   Nei það er Bónus sem ræður því hvaða vörum er stillt upp fyrir framan neytendur. það eru mörg dæmi undanfarið að innlend framleiðsla er látin víkja á meðan verslunin er klára það sem þeir fluttu sjálfir inn og það er vegna þess að verslunin verðu sjálf að taka rýrnunina sem hún þarf ekki að gera þegar innlend framleiðsla er annars vegar

Í fyrra var 1000 tonn af kjöti flutt inn.  Megnið af því var afþýtt og unnið í Íslenskum kjötvinnslu og merkt þeim.  Neytendur keyptu vöruna í góðri trú um íslenska vöru væri verið ræða.

Hingað hefur verið að flæða vörur sem aðrar þjóðir hafa verið að banna. Ítalskt svínakjöt. Aðalframleiðsluhéruðin eru í kringum Napólí.  Allir vita hvernig sorphirðuástandið er þar.  Á undanförnum áratugum er mafían búin að grafa þar efnaúrgang frá allri Evrópu.  Svínakjöt frá Tyson Foods í USA.  En þeir pumpa upp grísina sín með sterum og meira að segja Kínverjar eru búnir að banna þá. En þetta er í búðum hér og ódýrt, nema hvað

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 19.4.2008 kl. 22:16

4 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Já Gunnar, mikill er máttur Jóhannesar og trú þín á neytendum lítil. Hvað eru menn svo að vorkenna kjötvinnslunum ef þær geta bara hakkað þetta útlenska sem selst ekki? - Eflaust ágætt með kýrkjötinu. Samkvæmt þessu virðist þeim hins vegar ekki treystandi. - Og allt þetta rusl sem kemur hingað og þú nefnir, mafíurusl frá Ítalíu og amerísk sterasvín, svei! - Hvað eru menn þá að væla? - Er þetta ekki allt opið nú þegar? - Nær að einbeita sér að eftirlitskerfinu hér heima. - Kannski að Björn geti sett sérsveitina í þetta!!!

Haraldur Bjarnason, 19.4.2008 kl. 22:28

5 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ein stærsta Kjötvinnsla landsins er í eigu Baugs.  Í dag er ekkert eftirlit innflutningum vegna þess hver vísar annan

Samkvæmt nýja frumvarpinu eiga innlendir framleiðendur að borga brúsann af eftirlitinu á innflutningnum.  forstjórinn hjá Högum hlýtur að vera alsæll þessa dagana vegna þess að þeir verða þeir einu sem hagnast á þessu

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 20.4.2008 kl. 00:27

6 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þú kemur með athyglisverðar upplýsingar inn í þessa umræðu Gunnar, sérstaklega vegna þess að þetta eru ekki þau atriði, sem lögð hefur verið áhersla á hjá þeim óttaslegnu hingað til. Samt get ég nú ekki séð að neinu skipti hvort Baugur eða einhver annar á stærstu kjötvinnsluna, svo framarlega sem hún vinnur eftir þeim reglum, sem settar eru og það er um þær sem málið auðvitað snýst. Tæplega trúi ég því að ekkert eftirlit sé með innflutningum en ef brotalöm er þar þarf auðvitað að auka það og líka með kjötvinnslunum. Hingað til hafa nú flestir gagnrýnt ofureftirlit í þessum málum öllum hér á landi en samkvæmt þínum orðum virðist svo alls ekki vera. Á endanum er það svo alltaf neytandinn sem borgar, hvort sem það er eftirlit eða annað er snertir bæði innlenda og útlenda framleiðslu. Allt leggst þetta ofan á vöruna.

Haraldur Bjarnason, 20.4.2008 kl. 10:12

7 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Vottorðin sem fylgja eiga að duga en það hefur sýnt sig að það er ekkert að marka þau en aftur á móti erum við kaþólskari en páfinn í þeim efnum gagnvar innlendum framleiðendum

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 20.4.2008 kl. 12:09

8 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Já eflaust er þetta snúið og að við verðum sjálfsagt að taka útlend vottorð gild á sama hátt og okkar vottorð eru tekin gild ytra. Það ætti þó ekki að vefjast fyrir okkur að búa til einhvern millilið þar og við ættum að geta orðið jafn kaþólsk varðandi innflutninginn og innlendu framleiðsluna. - Þá er líka málið dautt.

Haraldur Bjarnason, 20.4.2008 kl. 13:36

9 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég er ansi hræddur um málið verði dautt löngu áður og svo kemur ææ en þá verður það of seint. því miður er matur ekki framleiddur með því að ýta á takka

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 20.4.2008 kl. 17:49

10 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Nei það vita allir og enginn að tala um takka í því sambandi. En hvort það deyr, efast ég stórlega um. Þetta vrðist allt stefna í eina átt með ESB

Haraldur Bjarnason, 20.4.2008 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband