Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Skýrsla um það sem enginn veit

Hvernig getur stofnun, sem á að vera vönd að virðingu sinni, eins og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, birt skýrslu um stöðu Íslands innan Evrópusambandsins áður en það liggur fyrir hvað okkur stendur til boða og hverju við þurfum að fórna við inngöngu í ESB? - Þetta er eitt af fjölmörgum atriðum sem vekja furðu í þessum ótrúlega málatilbúnaði. Nýkrýndir þingmenn Borgaraflokksins vilja fá snuddu til að samþykkja viðræður, allir aðrir en Þráinn Bertelsson sem fylgir sinni sannfæringu. Bændasamtökin fagna skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskólans, væntanlega af því að þau eru fyrirfram búin að dæma aðild vonlausa. - Svo vill þetta lið atkvæðagreiðlu um hvort við eigum að fá að vita hvað við fáum. Atkvæðagreiðslu um hvað? Þvílík endemis vitleysa. Næst þarf að greiða atkvæði um það hvort við eigum að vera með sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Það væri álíka gáfulegt. 
mbl.is Landbúnaðarskýrslan birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiður hræsnaranna

Það er nú vafasamur heiður sem Ásmundur Einar hlýtur með þessu hrósi hræsnaranna sem komu þjóðinni í kalda kol. Ég virði þó skoðanir hans þótt ég telji að nauðsynlegt sé þjóðinni að vita hvað hún á að greiða atkvæði um. Án aðildarviðræðna við ESB vitum við ekkert hvað við fáum eða hverju við fórnum. Tvöföld atkvæðagreiðsla væri álíka og að verkalýðsforingjar þyrftu atkvæðagreiðslu um hvort þeir ættu að fara í samningaviðræður við vinnuveitendur. Allir sjá hverslags vitleysa það er svo ekki sé talað um kostnaðinn hjá skítblankri þjóð. Allt tal um framsal sjálfstæðis og hrun sjávarútvegs og landbúnaðar hér á landi er út í bláinn meðan við vitum ekki um hvað er verið að semja. 
mbl.is Sjálfstæðismenn hrósa Ásmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drengirnir hans Davíðs

Engan þarf að undra að drengirnir hans Davíðs sendi frá sér fordóma á þetta samkomulag. Þeir eru trúir og tryggir leiðtoga sínum sem réði þá til starfa í pólitískum tilgangi. Líklega hefur fulltrúi Seðlabankans í samninganefndinni ekki verið úr þeirra hópi.
mbl.is Ekki formleg umsögn Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta nær út fyrir öll þjófamörk

Þetta Sjóvárdæmi er enn eitt dæmið um óhefta frjálshyggju án eftirlits í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem stóð yfir allt of lengi. Hollvinir þessara flokka skiptu á milli sín ríkiseignum. Björgólfunum var lánað úr ríkisbankanum Búnaðarbanka til að kaupa ríkisbankann Landsbankann. Svo var Finni Ingólfssyni og hyglað á sama hátt við kaup á Búnaðarbankanum. Allt er þetta fjármagnað af almannafé og Rússagróði Björgólfanna virðist hafa farið í annað. Finnur hafði svo frjálsan aðgang að eignum Samvinnutrygginga sáluga og tókst að eyða því í sjálfa sig og aðra en eigendur fengu ekki neitt. Nú standa svo Bjarni Ben og Sigmundur, ungir formenn flokkanna og væla og skæla yfir ríkisstjórninni. Nei. Ný Framsón og nýr Sjálfstæðisflokkur eru á sama grunni og áður. Allt er fallið á okkur fyrir tilverknað þeirra flokka og að þeir skuli verja þessa vitleysu núna nær út fyrir öll þjófamörk.
mbl.is Hefðu ekki getað tekið við viðskiptavinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það tókst

Þrátt fyrir alla kreppu hefur Akureyrarbæ tekist að klára íþróttasvæðið í þorpinu. Þórsvöllurinn og allt hans umhverfi, sem ég hef gengið um, er að verða með fallegri íþróttasvæðum á landinu. Til hamingju Akureyringar og ég veit að allt verður til sóma á landsmótinu. Nú þurfum við húseigendur í nágrenninu að fylgja bænum eftir og standa okkur.
mbl.is Fyrsta æfingin á nýja vellinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skila sér ekki í suddann

Var að koma frá Reykjavík til Akraness og umferðin var sáralítil. Allir þeir sem fóru að sunnan á föstudag virðast ekki skila sér til baka. Engan þarf að undra því betra er að vera sólinni nyrðra en suddanum syðra.
mbl.is Umferð minni en reiknað var með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað með það?

"Fangageymslur Akraness fullar," virkar örugglega sem fyrirsögn. Ég ímynda mér að fangaklefarnir á Akranesi séu svona fjórir til sex. Hér hafa verið þúsundir manna um helgina að skemmta sér, bæði heimamenn og aðrir. Það getur vel verið að einhverjir hafi misst stjórn á sér en mér finnst gestir á þessum svokölluðu Írsku dögum hafa hagað sér vel. Það eru tjöld út um allt og vegna þess að unglingar geta ekki tjaldað á tjaldstæðinu þá finna þeir sér aðra staði. Þar er ekki eftirlit og þess vegna búa menn til vandamál með of miklum reglum. Treystum unga fólkinu og það skilar því til baka. 
mbl.is Fangageymslur Akraness fullar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki vélsleði?

Snjósleðar eru margskonar. Það eru til magasleðar og skíðasleðar (stundum kallaðir sparksleðar) og svo eru til snjóþotur, hestasleðar o.s. frv. Það apparrat sem var á ferðinni á Skjálfanda og sagt er frá í þessari frétt er ein tegund þessara sleða og heitir vélsleði. Það er orðið ótrúlega algengt að þessi vélfákur sé nefndur snjósleði, sem er víðfemara orð en svo að það segi eingöngu til um þetta tæki. 
mbl.is Húsvískur ofurhugi á Skjálfanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer henni ekki best að þegja núna?

Fer ekki Þorgerði Katrínu best að þegja í þessu máli og öllum þeim sem snerta íslenskt bankahrun og gjaldþrot þjóðarinnar í kjölfarið? Talað er um vanhæfni margra þessa dagana. Auðvitað ætti hún að skoða slíkt.
mbl.is Viljum semja að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömmi að leita útleiðar

Er ekki Ögmundur bara að leita leiða út úr stjórnarsamstarfinu og því að þurfa að taka ákvarðanir og axla ábyrgð? Það er miklu einfaldara að vera í stjórnarandstöðu og geta gjammað um allt og ekkert. Þannig er hægt að ganga í augun á almenningi sem er tilbúinn að kjósa Ömma til forystu í hreyfingu launafólks. Hann hlýtur að gera sér grein fyrir að Icesave klúðrið fer ekkert þótt þetta samkomulag verði fellt. Það þarf að leysa og ekki verður það auðveldara þá.
mbl.is Ögmundur ekki ákveðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband