Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Eldþolin bönd

Auðvitað er alltaf slæmt þegar eldur kemur upp í stóriðjum. En samkvæmt fréttinni er búið að koma böndum á eldinn. - Við skulum vona að þetta séu eldþolin bönd!!!!
mbl.is Eldsvoði á Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11. maí vetrarvertíðarlok

Mitt i einhverjum flensuskratta sem er að hrjá mig núna uppgötva ég að það er 11. maí. Lokadagur vetrarvertíðar. Þetta var alltaf merkilegur dagur heima á Skaganum. Þá tóku allir upp þorskanetin og vertíðin var gerð upp. Við strákarnir spáðum í hvaða bátur hefði orðið hæstur á vertíðinni og þetta var eiginlega forsmekkurinn að fótboltavertíðinni sem kom í kjölfarið. Karlarnir skvettu í sig og það var fjör á Akranesi þetta kvöld, svoldið slegist kannski en allt gert upp í góðu í lokin

Ég horfi á veðurkortið núna og það er bara tóm hamingja í veðrinu framundan. Eftir mánuð fer ég á æskustöðvarnar á Skaganum og tek upp fyrri iðju, blaðamennsku, gaman að reyna það eftir rúmlega 20 ára hlé. - Læt svo fylgja með mynd af pabba um borð í Önnunni ásamt skipsfélögum. Hann er annar frá hægri í miðröð. Myndina tók Örn Hjörleifsson sem þá var stýrimaður á Önnu SI-117, sem gerð var út á vetrarvertíðum frá Akranesi og skipstjóri var Þórður Guðjónsson sem er í  brúarglugganum.IMG


Til hamingju Lára Hanna! - Þú ert að ná athygli

Já Lára Hanna í viðtali hjá Mogganum. Hún á sko heldur betur skilið viðtal. Það vitum við sem lesum daglega bloggsíðu hennar. Ég er viss um að enginn fyrirfinnst sem leggur eins mikla vinnu í þann texta sem skrifaður er hér á bloggsíðum mbl. Hún Lára Hanna er búin að skrifa svo margar og fræðandi greinar um þetta hugðarefni sitt að undanförnu að fjölmargir hafa hrifist með. Ég er líka viss um að allir geti verið sammála um það að hún vandi til verka, hvort sem þeir eru fylgjandi eða andvígir þessum virkjunarframkvæmdum. Í það minnsta skil ég nú heilmikið um hvað kemur til með gerast þarna eftir að hafa viðað að mér fróðleik Láru Hönnu og annarra sem vitnað er til á bloggsíðunni.

Það er ánægjulegt að Lára Hanna skuli nú hafa náð athygli Morgunblaðsins og vonandi að aðrir fjölmiðlar fylgi í kjölfarið. Í framhaldinu ættu svo stjórnvöld að hlusta á þessa rödd manneskju sem talar af skynsemi, þekkingu og tilfinningu fyrir landinu. - TIL HAMINGJU LÁRA HANNA!!!!

 


mbl.is Berst gegn Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þrítugsaldri - Hvað er hann þá gamall?

Karlmaður á þrítugsaldri búinn að játa bankaránið í Hafnarfirði. En hvað er maðurinn gamall? Hann getur verið 21 árs, 29 ára eða allt þar á milli. Það er mjög algengt orðið í fréttum að segja menn á tvítugs,- þrítugs- eða fertugsaldri. Þetta segir okkur frekar lítið en enn verra er þegar talað er um fjölda á einhverjum mannfagnaði, fundi eða mótmælum. Oftar en ekki er sagt að á annað hundrað manna hafi verið á staðnum, sem getur hlaupið á á tæpu hundraði fyrir vikið. Það er mun skárra að segja rúmlega tvítugur eða tæplega þrítugur eða þá bara hreinlega aldurinn og tilgreina áætlaðan fjölda á fundum. 
mbl.is Bankaræningi handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingana heim og sem flesta í samfélagsþjónustu

Það gengur auðvitað ekki að fangar landsins séu húsnæðislausir frekar en aðrir. Einhverra hluta vegna er það nú samt svo að húsnæðismál ríkisins eru alltaf í ólestri og skiptir þá engu hvort það eru fangelsi, stofnanir fyrir sjúka, aldraða eða hverja sem er.

Annars hlýtur að vera hægt að rýma verulega á Hrauninu með því að senda útlendingana til síns heimalands. Það hlýtur að vera hægt. Aðrar þjóðir geta varla gert þá kröfu að við séum að bjóða þeirra fólki ókeypis gistingu. Svo er auðvitað best að koma sem flestum í samfélagsþjónustu. Það er án efa góð lausn fyrir alla, bæði brotamanninn og þjóðfélagið. En hvernig er það hefur engum dottið í hug að einkavæða fangelsin eða breyta þeim í ohf?


mbl.is 140 dæmdir menn á biðlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli Hafró viti af þessu?

Það er svo sem varla orðið fréttnæmt þótt mokveiði sé nánast allt í kringum landið. Þessar fréttir af afla úti fyrir Norð-Austanverðu landinu bæta bara um betur. Allt er þetta á skjön við það sem okkur er sagt um fjölda fiska í sjónum. - 21 tonn á 50 bjóð. - Það hefði nú einhverntíma þótt gott. - Þetta er mok. - Að draga svona mikinn feng á linu segir okkur líka mikið meira en að fá þetta í troll eða net. Eflaust er þetta fiskur sem synt hefur framhjá öllum reiknilíkönum. - Hann á ekki að vera til. - Ég spyr bara einu sinni enn: Ætli Hafró viti af þessu?

 


mbl.is Mokveiði í Öxarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumardekkin já?

 

 austurl1

Jamm. - Það er víst löngu kominn tími á sumardekkin. Gallinn er bara sá að ef menn ætla að ferðast um fjallvegi Norðan- og Austanlands duga bara ekki sumardekk. Kortið frá Vegagerðinni yfir Norðausturlandið nú í hádeginu sýnir þetta ágætlega. Selfosslöggan ætlar að gefa séns til 15. maí, enda gert ráð fyrir tilliti til aðstæðna í lögum. Austfirðingar og Norðlendingar, sem ætla á Suðurlandið um hvítasunnuna sleppa því við sekt þótt þeir fari á þeim dekkjum sem í dag henta til ferða milli landshluta.


mbl.is Boðar aðgerðir gegn notkun nagladekkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins kom vitræn tillaga um vöruflutninga

Loksins kom maður, sem vill horfa til framtíðar með vöruflutninga hérlendis. Ármann Kr. Ólafsson alþingismaður ætlar að óska eftir því að hagkvæmnin við að færa vöruflutningana af vegunum út á sjó verði könnuð. Ég trúi ekki öðru en Möllerinn samgönguráðherra taki vel í þetta mál og láti skoða það af alvöru.

Ljóst má vera að flutningar verða ekki alfarið færðir út á sjó en stærstur hluti þess sem verið er að flytja um þjóðvegina í dag getur alveg farið sjóleiðina. Það er ekki nærri því allt sem þarf að komast samdægurs eða með tveggja daga fyrirvara milli landshluta. Við erum að greiða niður vöruflutninga á þjóðvegunum í dag. Það má vera ljóst þar sem gjöld af þeim flutningum standa engan veginn undir kostnaði við að endurbæta vegi eftir þær skemmdir sem allir þessir flutningar valda. Hvað þá að leggja nýja vegi sem þola þessa flutninga.

Ég er marg búinn að koma fram með ábendingar um þetta í færslum hér á bloggsíðunni. Ég fagna þessari hugmynd Ármanns og er viss um að hún fær góðar undirtektir. Eitthvað varð þess valdandi að skipafélögin Eimskip og Samskip hættu strandsiglingum og fóru alfarið yfir í landflutninga. Ríkið hefur líklega verið að gefa vitlaust í þessum málum en þá er bara að stokka spilin og gefa á ný. 


mbl.is Strandsiglingar kall nútímans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gott skip" á Húsavík

Ekkert smá, heilir tíu lítrar af vodka og átta sígarettu karton. Satt að segja hélt ég að löggan væri hætt að eltast við svona smotterí eftir að öll hörðu fíkniefnin komu til sögunnar. En þeim ber að framfylgja lögunum og enginn má selja svona varning nema ríkið og til þess valdir veitingamenn. Þannig að löggan á Húsavík er bara að standa sína plikt. Annars eru þeir svoldið langræknir þarna á Húsavík fyrst þeir muna enn eftir að þeir höfðu afskipti af sama skipi fyrir 2 árum. Kaupendurnir fá sekt, segir í fréttinni, en hvað með Rússana?

Annars hafa skip, sem færa svona varning að landi gjarnan verið kölluð "góð skip" í sjávarplássum hér á landi í gegnum tíðina. 


mbl.is Lögregla á Húsavík lagði hald á smygl úr rússnesku skipi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætis umhugsunarefni fyrir Björn og hans lið

Ætli Björn Bjarnason og hans lið taki mark á þessari ályktun, sem Amnesty á Íslandi hefur sent frá sér. Samkvæmt lýsingunum sem þar koma fram eru  þessar rafbyssur skaðræðisvopn og ekkert vit í að setja þær í hendurnar á mönnum sem ekki geta haft hemil á sér með spraybrúsa eða kylfur. Nýleg samþykkt landsfundar lögreglumanna bendir þó til þess að á þeim bæ dreymi menn um svona vopn. - Þessi litaða tilvitnun í ályktun Amnesty segir hins vegar allt sem segja þarf:

 Rafbyssur eru kynntar sem öruggari valkostur við skotvopn þegar lögreglan á í höggi við hættulega einstaklinga. Þrátt fyrir það hefur komið í ljós að í reynd er rafbyssum er ekki einungis beitt gegn einstaklingum sem lögreglan telur að hætta stafi af, heldur er þeim í síauknum mæli beitt sem tæki gegn fólki sem engin raunveruleg hætta stafar af. Rafbyssum er oft beitt við aðstæður þar sem hvorki beiting vopna og jafnvel ekki kylfa væri réttlætanleg, að því er segir í tilkynningu frá Amnesty.
Frá því í júní árið 2001 hafa a.m.k. 290 einstaklingar látist í Bandaríkjunum og Kanada eftir að hafa fengið í sig rafstuð úr M26 og X26 rafbyssum, í sumum tilfellanna var beitt aðferðum eins og þeim sem lýst er hér að ofan
.

Sérsveitin hefur byssur og það er nóg. - Nær væri að leggja áherslu á mannleg samskipti í lögregluskólanum og hætta að hugsa hlutina út frá því að ofbeldi leysi einhver mál. - Gleymið frekari vopnaburði lögreglu. Vopnaburður kallar bara á aukið ofbeldi.


mbl.is Amnesty leggst gegn notkun rafbyssa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband