Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hvað með þessa blönku?

Vel launaðir menntamenn fylgjast helst með fréttum RÚV og mbl., samkvæmt könnun. - Hvar ætli illa launaðir menntamenn leiti eftir fréttum? Þeir eru örugglega miklu fleiri en hinir vel launuðu. - Hvað með vel launaða ómenntaða menn? - Eða illa launaða ómenntaða? - Þetta hlýtur allt að koma fram í næstu könnun. - Við verðum að fá að vita hvað þessir blönku aðhafast líka.
mbl.is Vel launaðir menntamenn fylgjast með RÚV og mbl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er 30 ára draumur um fjölbreytni í atvinnulífi að snúast upp í andhverfu sína?

Þetta er eiginlega svolítið öfugsnúið. Íbúar á Reyðarfirði hafa aldrei verið fleiri en nú, ef undaskilin eru stríðsárin þegar fjölmennt herlið var þar. Á sama tíma virðist matvælafyrirtæki ekki þrífast þar. Að vísu kemur ekki fram í fréttinni um Kjötkaup á Reyðarfirði að fyrirtækið sé að leggja upp laupana en leiða verður getur að því þegar öllu starfsfólki er sagt upp.

Sú var tíðin að Austfirðingar og Héraðsmenn gerðu sér sérstaka ferð á Reyðarfjörð til að byrgja sig upp af kjöti hjá forveranum Austmat. Þar var líka annað matvinnslufyrirtæki, KK-matvæli, sem rómað var fyrir gæði matvöru, ekki síst úr sjávarfangi. Á Reyðarfirði var líka Kaupfélag Héraðsbúa með öflugan rekstur fiskvinnslu og útgerð. Nú er þetta allt liðin tíð, þrátt fyrir vaxandi byggð og því ljóst að ekki fer saman fjölgun íbúa og fjölbreytni í atvinnulífi og þjónustu. Líklega þarf ekki að hafa áhyggjur af starfsfólkinu, það hlýtur að fá vinnu í álverinu, enda auglýsir það grimmt eftir starfsfólki þessa dagana. - Getur verið að 30 ára gamall draumur Reyðfirðinga um fjölbreytni í atvinnulífi með tilkomu sóriðju sé að snúast upp í andhverfu sína?


mbl.is Kjötkaup á Reyðarfirði segja upp starfsfólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var þörf fyrir þyrlu líka?

Það er greinilegt að strákræfillinn sem í örvinglan sinni labbaði inn í banka í Hafnarfirði með búrhnífa í hendi er talinn mjög hættulegur glæpamaður. Eðlilegt er að leit sé gerð að honum og reynt að ná honum sem fyrst en viðbúnaðurinn er mikill. - Var svo brýnt að ná honum að þyrlu þyrfti til þess að leita? - Maður veltir þessu fyrir sér í ljósi þess að jafnan er nauðsyn útkalla metin gaumgæfilega áður en þyrla er send af stað vegna mikils kostnaðar. Dæmi eru um slíkt þegar sjómaður slasaðist út af Austfjörðum ekki alls fyrir löngu og sagt var frá í fréttum. - Hver borgar svo kostnaðinn við þyrluna þegar þetta er ekki björgunaraðgerð heldur lögregluaðgerð. Er það bankinn eða færist þetta á reikning lögreglu eða Landhelgisgæslunnar? 

Þessi strákur á greinilega bágt og þarf á hjálp að halda. Svona lagað gera ekki ungir menn nema þeir séu í verulega slæmum málum. Ekki virðist hann hafa haft mikið upp úr krafsinu eftir því sem bankamenn segja.


mbl.is Ræninginn ófundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mat á umhverfisáhrifum er ekki sama og umhverfismat.

Ég er ekki hissa á því að ljóst sé að ríkissjóður borgi ekki kostnað við umhverfismat vegna olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum. Umhverfismat er nefnilega ekki gert fyrr en að loknum framkvæmdum. Áður en til framkvæmda kemur eru umhverfisáhrif metin samkvæmt sérstökum lögum um mat á umhverfisáhrifum. Kostnaður við mat á umhverfisáhrifum fellur á þann, sem framkvæmir. Mat á umhverfisáhrifum við Kárahnjúkavirkjun er talið hafa kostað um 300 milljónir, sem  Landsvirkjun greiðir, en það var ekki kostnaður við umhverfismat, eins og haft er eftir Álfheiði. Slíkt mat hefur ekki verið gert þar enn.

Í fréttinni er farið rangt með þessi hugtök því framkvæmdum á Vestfjörðum er ekki lokið. Þetta er ekki flóknara en svona: Mat á umhverfisáhrifum er gert fyrir framkvæmdir. Umhverfismat að loknum framkvæmdum.


mbl.is Borga ekki umhverfismat fyrir olíuhreinsunarstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað á að ráða Stefán

Það er auðvitað skynsamlegast að ráða Stefán Pálsson hernaðarandstæðing í embætti forstjóra Varnamálastofnunar (Hún hlýtur að heita það en ekki Varnarmálastofnun). Honum einum er treystandi til að vinna hratt og örugglega að því að leggja þessa óþörfu stofnun niður strax.
mbl.is 25 sóttu um embætti forstjóra Varnarmálastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vöruflutninga út á sjó aftur

Einn trukkur slítur vegum á við 9.000 eða 12.000 fólksbíla. Er það ekki næg ástæða fyrir samgönguráðherra til að láta kanna hvort ekki er möguleiki á að koma einhverju af öllum þessum vöruflutningum út á sjó aftur? Það er í raun fáránlegt að eyþjóð skuli ekki vera með strandferðaskip í stöðugum flutningum kringum landið. Stór hluti af þeim vörum, sem verið er að flytja um þjóðvegina þarf ekkert að komast á milli staða samdægurs eða á tveimur dögum og þolir því vel sjóflutninga.

Er ekki ráð að samgönguráðherra láti kanna hvers vegna það er svona miklu hagkvæmara fyrir skipafélög eins og Eimskip og Samskip að flytja vörur landleiðina en sjóleiðina? - Sjóflutningar til nokkurra valinna lykilhafna á landinu og landflutningar þaðan til annarra staða myndu létta verulega á þjóðvegakerfinu. Svo ekki sé nú talað um mengun og allan annan kostnað en vegaslit.


mbl.is Flutningabíll slítur vegum á við 9 þúsund fólksbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þær eru jú með búnað í þetta

Þessi frétt um útlenskar konur grunaðar um vændi á Egilsstöðum minnir svolítið á söguna af manninum sem var kærður fyrir að brugga eftir að bruggtæki fundust hjá honum. Hann spurði þá hvort hann yrði þá ekki kærður fyrir nauðgun, hann ætti jú græjurnar í þann verknað líka.

Ekki kemur fram í fréttinni hvað löggan er að rannsaka í þessu tilviki. Væntanlega hefur hún kannað þetta með græjurnar. Ekki eru þær brotlegar fyrir að eiga þær og ekki heldur fyrir að stunda vændi, það er löglegt. Þessi rannsókn hlýtur þá að beinast að því hvort einhver melludólgur sé eystra. Það er gott mál að komast í innsta hring og þyrfti að gerast í fleiri málaflokkum, til dæmis fíkniefnamálum.


mbl.is Grunur um vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta eitthvað nýtt?

Bankaáhlaup hafið? - Er hann að færa okkur einhver ný tíðindi þessi karl? - Er þetta ekki bara sagnfræði liðinna mánaða? - Einhvern veginn finnst mér allt þetta hafa legið fyrir lengi og líka þetta sem kemur fram í skoðun hans á Seðlabankanum. - En glöggt er gests augað. - Kannski verður tekið mark á honum og þetta verði til þess að ríkisstjórnin og ekki síst Seðlabankagúrúarnir líti aðeins út um gluggana í fílabeinsturninum.

Geir er jú búinn að segja fólki að taka ekki lán nema nauðsynlega þurfi. Hann heldur eflaust að allur almenningur sé að hlaupa á eftir lánsfé á okurvöxtum að gamni sínu. Solla talar um þjóðarsátt, sennilega þjóðarsátt um ekki neitt. - Lítið fleira hefur heyrst úr fílabeinsturninum.


mbl.is Bankaáhlaup hafið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónus býður betri verðhækkanir

"Bónus býður betur". Þetta er það sem hljómar nær daglega í auglýsingum frá þessari annars ágætu verslanakeðju. Hingað til hefur verið hægt að treysta þessum slagorðum á þann veg að verðið sé jafnan lægst en nú bregður svo við að hækkun á ákveðnum vörutegundum í verðkönnun hjá ASÍ er mest í Bónusi. ´

Er Bónus að notfæra sér trúnað neytenda, sem hafa flykkt sér um Bónus í trausti þess að þar sé ódýrast að kaupa í matinn? - Er Bónus ekki þar með að bregðast því trausti sem neytendur haf sýnt versluninn?  Vonandi verður þetta til þess að þar verði tekið hressilega til núna og verð snarlækkað. Það er ljótt að vera úlfur í sauðagæru og tæplega trúi ég því að brautryðjandinn í lágveruverslun á Íslandi, Jóhannes Jónsson sé sáttur við þessa niðurstöðu.

Það að Bónus bjóði betur þegar verðhækkanir eru annars vegar beinir okkur bara eitthvað annað með matarinnkaupin.  


mbl.is Lágverðsbúðir hækkuðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er þetta loftrými sem Fransmenn eiga að gæta?

Það er nú aldeilis munur að Fransmenn skuli vilja vernda okkur fyrir þessum viðsjárverðu Rússum fyrst Kanarnir sjá ekki lengur ástæðu til þess. En hvað er þessi loftrýmisgæsla, sem getið er um í fréttinni? Þetta er eithvert nýyrði, sem ekki hefur heyrst áður. Oftast hefur verið talað um lofthelgi, svona svipað og landhelgi. Í mínum huga er rými eitthvað afmarkað pláss og maður hefur heyrt talað um loftrými í kafbátum og jafnvel björgunarbátum en aldrei fyrr í háloftunum, þar sem þessar frönsku þotur verða væntanlega.
mbl.is Sjónarspil í háloftunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband