Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Misskilin umhverfisvernd

Hvenær ætla menn að átta sig almennilega á að maðurinn er hluti af umhverfinu. Umhverfisvernd felst í því að halda jafnvægi í umhverfinu. Ef ekki á að veiða hvali getum við alveg eins hætt fiskveiðum. Hvalurinn ógnar nú jafnvægi í höfunum. Honum fjölgar óheft og hann setur stór skörð í fiskistofnana. Hvalurinn tekur ekki mark á kvótakerfi, hvorki ESB né annarra, þess vegna virðir hann engar takmarkanir til að hlífa fiskistofnum. Þeir hjá ESB tala um rányrkju okkar Íslendinga á makríl vegna þess að við veiðum utan kvóta. Samt vilja þeir ekki hleypa okkur að samningaborði, svo við getum veitt úr sameiginlegum kvóta. Kannski eru þeir að vernda makrílinn svo hvalurinn hafi meira að éta. Svona er tvískinnungurinn hjá þeim sem þykjast vera meiri umhverfissinnar en aðrir. 

Hrefna Nýveidd hrefna


mbl.is ESB gagnrýnir hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er í eggjunum?

Hvað er í eggjunum sem Gulli og Birgir leita að. Auðvitað málshættir. T.d.: "Sjaldan fellur styrkur langt frá Sjálfstæðisflokki" eða "Mikill er máttur milljónanna" eða "Fólk er fífl nema í FL og Landsbanka sé." - Eflaust eru þeir fleiri málshættirnir.

Nei annars kannski er enginn málsháttur. Bara kvittanir fyrir endurgreiðslu úr tómum sjóðum Valhallar.


mbl.is Þingmenn í páskaeggjaleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staksteinar í sömu súpunni

Það ætlar að verða djúpt á einhverju bitastæðu hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu spillingarmáli. Einu peði hefur verið fórnað, það er alltof sumt. Enginn þarf að segja manni að Andri Óttarsson beri neina ábyrgð í þessu máli. Þar koma stærri postular við sögu. 

Mogginn hefur staðið sig nokkuð vel í umfjöllun um siðspillta "styrki" til Sjálfstæðisflokksins á árinu 2006. Margt hefur verið birt sem óhugsandi er að birt hefði verið í Morgunblaðinu fyrir stuttu síðan. Líklega eru þar einhver áhrif eigendaskipta á ferðinni. Staksteinar eru hins vegar við sama gamla heygarðshornið og reyna að heimfæra spillingu Sjálfstæðisflokksins yfir á aðra flokka. Þar eru útrásarfyrirtækin tíunduð og bent á að líklega hafi þau ekki vitað aura sinna tal á þessum tíma. Bent er að nauðsyn hafi verið að setja sérstök lög um stuðning við stjórnmálaflokka. Þá er bent á að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hafi sagt af sér og í lokin kemur þessi undarlega setning:  "Hvað gerist hjá hinum flokkunum, sem sátu í sömu súpunni?"

Álítur ritstjórn Moggans virkilega að allir flokkar sitji í sömu súpunni? Samfylking og Framsókn komast næst Sjálfstæðiflokknum. Samfylking fékk 36 millur frá fjölda fyrirtækja, sem styrktu flokkinn um hálfa milljón eða meira. Fyrirtæki og einstaklingar sem styrktu Samfylkingu um minn en hálfa milljón gáfu flokknum samtals 9 milljónir. Þetta gera 45 milljónir, sem er 10 milljónum minna en aukastyrkir Landsbankans og FL Group námu til Sjálfstæðisflokksins og 36 milljónum minna en heildarstyrkir til Sjálfstæðisflokksins árið 2006. Hjá Framsóknarflokknum er eitthvað svipað uppi á teningum og hjá Samfylkingunni. Vinstri grænir og aðrir eru á allt öðrum nótum og nánast ekki með neina styrki miðað við hina. Er þetta að sitja í sömu súpunni?

Hér má sjá Staksteina Moggans í dag í heild sinni: http://morgunbladid.blog.is/blog/morgunbladid/

Staksteinaritari er greinilega enn í sama gamla Moggagírnum, situr í sömu súpunni og áður, ólíkt öðrum sem í það ágæta blað eru að skrifa.


mbl.is Framhaldið í höndum formannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstoðarmaður ábyrgðarmannsins tekur við

Farsinn "Enginn veit neitt" heldur áfram hjá Sjálfstæðisflokknum. Nú er stokkað upp, peði fórnað og nýr framkvæmdastjóri ráðinn. Til starfa kemur fyrrverandi aðstoðarmaður Geirs Harde, mannsins sem lýst hefur ábyrgð á hendur sér í farsanum, til að létta af þeim sem í forystu eru núna. Sem sagt endurnýjunin er fólgin í því að leita til fortíðar. Leita til hægri handar þess sem segist bera alla ábyrgð á 55 millunum var veitt viðtaka. Framkvæmdastjórin, sem hætti í október en starfaði þó til áramóta, veit þó allt en segir ekkert. Sama á við um formann flokksins. Formenn sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík eru gráti nær yfir illri meðferð á Guðlaugi Þór. Von er á næta leik á næstunni því þingflokkurinn er á fundi. Líklega fá fleiri peð að fjúka.
mbl.is Gréta tekur við af Andra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peðunum fórnað

Það er nú léttvægt hjá íhaldinu að fórna peðunum. Framkvæmdastjórinn hættir. Geir var hættur og tekur á sig sukkið til að hinir geti haldið áfram. Allt er þetta yfirborðskennt. Svo frestaði FLokkurinn þingFLokksfundi sem vera átti í dag á sjálfan Föstudaginn Langa, sennilega ekki þorað í slaginn ennþá. Finna þarf fleiri yfirborðskenndar afsakanir fyrir sukkinu.
mbl.is Andri hættir störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknrænn fundardagur

Föstudagurinn Langi er heppilegur fundardagur til að ræða "styrki" (lesist: mútur) FL og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins. Kannski táknrænt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að nota þann dag í ljósi ummæla Davíðs almáttugs á landsfundinum. Eitt er víst að árið 2006 er ekkert einsdæmi í málum sem þessum hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er bara toppurinn á ísjakanum. Sjóðirnir hafa alltaf verið digrir í Valhöll og þar hefur ekki verið siðferði til að greina á milli þess sem eðlilegt getur talist eða ekki.
mbl.is Þingflokkur fundar í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fullkomnu samræmi við siðferði Sjálfstæðisflokksins

Landsbankinn virðist hafa styrkt stjórnmálaflokka um 5 milljónir á línuna. Að minnsta kosti hefur komið fram að styrkur bankans til Samfylkingarinnar 2006 nam þeirri upphæð. Ekki er óliklegt að aðrir hafi fengið sama. Þetta hefur átt að vera sýnilega upphæðin. Svo kom til kasta Guðlaugs Þórs, sem farið hefur út og suður í játningum og neitunum, þá bættust 25 milljónirnar við. Er til einhvers að krefjast þess að einhver í Sjálfstæðisflokknum segi af sér? Það held ég ekki. Þetta er allt fullkomlega í samræmi við siðferði Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina.
mbl.is Landsbankinn veitti 2 styrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reyna að ljúga sig út úr sukkinu

Það hefur verið kostulegt að hlusta á forystumenn Sjálfstæðisflokksins í fréttatímum ljósvakamiðla í kvöld. Þeir reyna með veikum mætti að ljúga sig út úr sukkinu. Kjartan Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson voru allir vandræðalegir í viðtölum. Langar þagnir meðan þeir voru að hugsa um hvernig best væri að koma orðum að svarinu án þess að vera sakaðir um lygi. Guðlaugur Þór reynir að hvítþvo síg í þessari frétt Moggans en viðurkennir þó að hafa hringt í nokkra menn af sjúkrabeði. Hverjir það voru, gefur hann ekki upp, en kannski er fyrsti stafurinn í nafni eins þeirra Hannes eða kannski Sigurjón?
mbl.is Guðlaugur Þór: Ég óskaði ekki eftir styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo rífa Norðmenn kjaft

Þetta er eftir sjávarútvegsspekúlöntum Evrópusambandsins og Norðmanna. Skrítið að Færeyingar skuli haga sér eins. Svo koma Norðmenn rífandi kjaft og segja Íslendinga stunda rányrkju, hóta að kaupa ekki mjöl af Íslendingum, sem þeir geta þó ekki verið án, vegna stórfellds laxeldis. Auðvitað veiðum við makrílinn í íslenskri lögsögu eins og aðrar fisktegundir sem eru farnar að venja komu sínar í íslensku lögsöguna með auknum sjávarhita. Sérstaklega má þar nefna skötuselinn sem gengur orðið upp undir fjörur hér við land.
mbl.is Svara ekki boði um makrílfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði komið sér vel í heilbrigðiskerfinu

Það var þá sami maðurinn og var með niðurskurðarhnífinn á lofti í heilbrigðiskerfinu sem reddaði 55 milljónum króna í Valhallarsjóðina. Gat hann ekki í ráðherratíð sinni farið og fengið álíka upphæðir í heilbrigðiskerfið. Það hefði bjargað talsverðu á þeim bæ. Skömm Sjálfstæðismanna er algjör núna og máttlaust yfirklór formannsins bjargar engu. Ætli almennt launafólk haldi áfram að kjósa þennan flokk eftir að upplýst hefur verið um siðleysið og spillinguna?

Annarsstaðar í  Mogganum í dag er látið liggja að því að Geir sé að taka á sig meiri ábyrgð en hann eigi skilið. Hann sé, sem sagt núna, að fórna sér fyrir þá sem eru andlit flokksins í dag. Það er ekki ólíklegt. Geir er hættur í pólitík en tryggð hans við flokkinn er söm. Sú tryggð nær út fyrir allt hjá flokksbundnum Sjálfstæðismönnum. Þegar Flokkurinn og Foringinn eru annars vegar þá gleyma sjálfstæðismenn öllu, hvað sem það er kallað.

Ætli Fjármálaeftirlitið áminni ekki blaðamennina Agnesi og Önund Pál fyrir þessa uppljóstrun?


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband