Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Óbreytanlegar reglur

Þessi afstaða Siglingastofnunar minnir svolítið á það þegar framtakssamir menn á Fljótsdalshéraði fluttu til landsins myndarlegt farþegaskip til fólksflutninga á Lagarfljóti; Lagarfljótsorminn. Þá kom í ljós að engar sérstakar reglur voru til um siglingar farþegaskipa á vötnum inn í landi. Sömu reglur þurftu því að gilda um Lagarfljótsorminn og ef hann hefði verið siglingum úti á rúmsjó. Sem sagt; fullkomnir gúmmíbjörgunarbátar með neyðarblysum, neyðarmat og öllu slíku. Björgunraflekar sem fylgdu skipinu þegar það kom dugðu ekki. Allur búnaður um borð þurfti að vera samkvæmt reglum Siglingastofnunar og til viðbótar giltu auðvitað reglur um veitingusöluna um borð á sama hátt og í landi.

Það var sérstaklega spaugilegt að sjá þarna alla gúmmíbjörgunarbátana, því ef eitthvað kemur upp á hjá þessu skipi er fljótlegast að renna því upp í fjöru, enda breidd Lagarfljótsins ekki meira en svo að slíkt tekur örugglega ekki meira en 5 mínútur, tæplega hægt með góðu mót að setja á flot gúmmíbjörgunarbát og koma fólki í hann á þeim tíma. Þær eru oft skondnar þessar reglur og reglugerðarfarganið kom svo sannarlega í ljós þegar þetta skip kom til landsins og það á fleiri sviðum en þeim sem sneru að Siglingastofnun. Það er eins og þar geri menn sér ekki grein fyrir að reglur eru breytanlegar eins og önnur mannanna verk. Þær þurfa að taka mið af aðstæðum hverju sinni.


mbl.is Veitingaskip eru talin skip
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkileg persóna þessi markaður

Ekki veit ég hvort maður á að segja það gott að einhverjir geti glaðst yfir atvinnumissi fólks í stórum stíl. En samkvæmt fyrirsögninni á þessari frétt er það þessi svokallaði "markaður" sem gleðst. Markaðurinn er eitthvað sem hefur verið persónugert og virðist af öllum fréttum að dæma vera algjörlega sjálfstætt hugsandi. Merkileg persóna það - Auðvitað er það ekki svo. - Að baki markaðarins standa bara fégráðugir einstaklingar, sem í þessu tilfelli sjá sér hag í því að fólk missi vinnuna. - Þetta er aldeilis uppbyggilegt, eða hitt þó heldur, en svona er Ísland í dag.  
mbl.is Uppsagnir gleðja markaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein sönnunin fyrir tilveru Íbúðalánasjóðs

Þessi ákvörðun Íbúðalánasjóðs að lækka vexti er enn ein sönnunin fyrir því hve nauðsynlegt er fyrir almenning í þessu landi að hafa þennan öfluga sjóð. Hingað til hefur tekist að hrinda öllum atlögum að honum. Verðum við ekki að vona að það takist áfram? Nægar sannanir fyrir tilveru Íbúðalásjóðs hafa komið fram að undanförnu.
mbl.is Íbúðalánasjóður lækkar vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Steingrímur

Steingrímur Hermannsson áttræður, full ástæða til að óska honum heilla. Steingrímur gerði margt gott á sínum langa stjórnmálaferli. Þó er það nú svo að í minningunni hjá mér standa upp úr ein stærstu mistök sem hann gerði á ferlinum. Það var þegar hann ásamt Þorsteini Pálssyni leiddi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og launavísitala var afnuminn í ríflega 100% verðbólgu en lánskjaravísitala var látin óáreitt. Þetta var að mig minnir árið 1983. Ég og fjöldi annarra á svipuðum aldri, sem nýlega höfðum fest kaup á húsnæði, biðum mikið tjón af þessu og flestir eru enn að súpa seiðið af þessu.

Því miður hafa þeir sem á eftir komu í stjórnmálum lítið lært af þessu. Lánskjaravísitalan er enn við líði, ekki það að hún geti ekki verið réttlætanleg áfram en forsendurnar fyrir henni eru vonlausar, grunnurinn sem reiknað er út frá er einfaldlega óréttlátur gagnvart almennu launafólki.

  


mbl.is Steingrímur Hermannsson 80
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna?

Hvers vegna dregst fylgi Sjálfstæðisflokksins saman? - Það er erfitt að skilja því hann hefur verið að fylgja sinni stefnu upp á síðkastið. Svo bætir Samfylkingin við sig en hún hefur nákvæmlega ekkert verið að gera í þessari ríkisstjórn. - Líklega er þetta af því að fólk er með vonir um að Samfylkingin geti eitthvað, Jóhanna Sigurðardóttir er áberandi og það hefur sitt að segja.  Aðrir ráðherrar eru í þögn. Að vísu var Þórunn að blása vegna hvítabjarnanna og Möllerin hefur verið þokkalegur í samgöngumálunum, annað er það nú ekki.
mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól og sumar á Skaganum

Já það er sko sannarlega sólskin og blíða hér á Akranesi. Bærinn iðar af mannlífi, enda er hér pollamót í fótbolta, þar sem um 1.000 ungir knattspyrnumenn leika listir sínar. Þeim fylgja að sjálfsögðu foreldrar, systkini, afar og ömmur. Þannig að ætla má að um 4.000 manns séu hér vegna mótsins. Flestir gista á staðnum og allir blettir eru þéttsettir tjaldvögnum, hjólhýsum og húsbílum. Stærsti hópurinn hefur komið sér fyrir á grassvæðum við safnasvæðið að Görðum.

Þessu til viðbótar er svo golfmót á Garðavelli með eitthvað á annað hundrað keppendum og þeim fylgir líka eitthvað af fólki. Tók nokkrar myndir í veðurblíðunni áðan.

IMG_8122 IMG_8123 IMG_8127 IMG_8130 IMG_8132

 1-2 Öllu tjaldað sem til er. Skuldahalar og annað hjólahúsnæði í hundraða tali á safnasvæðinu að Görðum.

 3-5 Foreldrar, systkini og aðrir fylgdust spenntir með í sumarblíðinu á íþróttasvæðinu á Jaðarsbökkum.

IMG_8138 IMG_8139 IMG_8136 IMG_8144 IMG_8145

6-8 Þeir sem ekki spiluðu fótbolta eða fylgdust með honum fóru að sjálfsögðu að sóla sig á Langasandinum.

9 Friddi Helga Dan var mættur til myndatöku á Langasandinum

10......og þetta er sá sem Friddi var að mynda. Hann gekk ákveðið eftir sandinum ber að ofan og sveiflaði skíðagöngustöfum.


mbl.is Gott veður um land allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stimpilgjöldin fyrst í forgangsröðina.....iPod seinna

Ætli það skipti svo miklu máli fyrir allan almenning í landinu hvað iPod spilari kostar? Tvennt annað en raftæki er nefnt í fréttinni; stimpilgjöld og uppgreiðslugjöld lána. - Er nú bara ekki rétt að forgangsraða í þessum málum? - Tappa af óvissunni á íbúðamarkaði og leggja af þennan fáránlega skatt sem stimiplgjöldin eru og það strax. Taka síðan uppgreiðslugjöld lána fyrir en iPod og önnur raftæki mega svo koma þar á eftir.

 


mbl.is Verð á iPodum mun lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki til þess ætlast?

Eldur í gasgrili. - Athyglisvert!- Eru þessi gasgrill ekki einmitt til þess gerð að logi í þeim.- Þegar meira en fyrirsögnin er lesin verður ljóst að eldurinn náði í klæðningu og fleira sem hann átti ekki að ná í. - Eins gott að þarna var gaskútur úr plasti þvi stálkútur hefði líklega sprungið með talsverðu trukki.
mbl.is Eldur í gasgrilli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins gott að íbúðalánasjóður var varinn

Það er eins gott að stjórnmálamenn stóðust atlögur bankanna og höfnuðu óskum forsvarsmanna þeirra um að leggja Íbúðalánasjóð niður. Þeir eiga hrós skilið fyrir að verja sjóðinn og þar fer fremst í flokki Jóhanna Sigurðardóttir. Nú sýnir það sig hversu mikilvægur þessi sjóður er fyrir þjóðfélagið. Einkavinirnir í bönkunum njóta líka góðs af núna, ekki síður en almenningur.

Þetta sýnir okkur hversu mikilvægt það er að standa vörð um ríkisstofnanir í almannaþágu. Við þurfum að vernda stofnanir eins og til dæmis Landsspítalann fyrir atlögum einkavinanna. Við erum ekki stærra þjóðfélag en svo að þegar þrengir að þá þurfum við á allri okkar samstöðu að halda. Þar eru samfélagslegar stofnanir mikilvægar. Gróðapungarnir í einkavinahópnum koma að litlu gagni þegar gróðavoninni sleppir. 


mbl.is Reglugerðir um húsnæðislán taka gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opin rúða, hvernig er hún?

Hann sló mann í gegnum opna rúðu .....merkilegt.- Hvernig er annars opin rúða?....Ætli hann hafi ekki frekar slegið manninn í gegnum opinn glugga......
mbl.is Dómur héraðsdóms staðfestur í líkamsárásarmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband