Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Loksins almennilegt meðaltal

Loksins kom eitthvað meðaltal sem maður getur sætt sig við. Alltaf hefur maður verið á skjön við þessi meðaltöl, sem birtast yfir margvíslega hluti og gjörðir. Þá alltaf vitlausu megin, að eigin mati. Nú kemur loksins meðaltal sem maður hangir í og hefur líklega gert í gegnum tíðina. Að visu hefði ég kosið að vera heldur meira undir þessu meðaltali en leysi það bara með því að stíga ekkert á helvítis vigtina.

Það er eflaust líka gott að eiga forða til mögru áranna, bændum hefur oftast ekki þótt slæmt að eiga einhverjar fyrningar og svo vitum við að sumir fuglar safna í sarpinn. Öllu má svo ofgera og gangandi dæmi eru um það allsstaðar, en eru ekki menn að tala um hita undir meðallagi? - Er þá ekki bara ágætt að hafa svoldið fitulag yfir meðallagi til að verjast þeim skratta?


mbl.is Offitufaraldur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annasöm vika hjá Möllernum

Gífurlegar breytingar hafa orðið á aðbúnaði farþega sem fara um Egilsstaðaflugvöll með tilkomu nýju farþegamóttökunnar, sem tekin var formlega notkun í dag. Að vísu hefði hún verið kærkomin nokkrum árum fyrr, en betra er seint en aldrei.

Það er skammt stórra högga á milli núna hjá Kristjáni L. Möller samgönguráðherra. Fyrir nokkrum dögum  innsiglaði hann samkomulag við borgarstjórann um samgöngumiðstöð í Reykjavík, í gær mundaði hann sprengjuhnallinn í Héðinsfjarðargöngum og í dag opnaði hann formlega nýja viðbyggingu við flugstöðina Egilssaðaflugvelli. Þess á milli hefur karlinn svo verið að spjalla við atvinnubílstjóra í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. - Annasöm vika hjá Möllernum víða um land.

Eins og fram kemur í frétt mbl hefur farþegum fjölgað mikið um Egilsstaðaflugvöll á liðnum árum, bæði í innanlands- og millilandaflugi. Þá hefur mikilvægi flugvallarins sem varaflugvallar í millilandaflugi alltaf verið að aukast, enda veðurfars- og landfræðilega á góðum stað.

Það var svolítið skemmtileg tilviljun að í þann mund er opnunarathöfninni á flugvellinum var að ljúka varð ljóst að færeysk farþegaþota þyrfti að lenda þar vegna ófærðar í Færeyjum, jafnvel var búist við að um hundrað farþegar hennar þyrftu að gista á Egilsstöðum. Færeyingar nota Egilsstaðaflugvöll mikið sem varaflugvöll auk Icelandair.

Á myndunum, sem fylgja með og teknar voru í lok opnunarathafnarinnar í dag, má sjá tvo austfirska bloggara, sem þar voru; Seyðfirðinginn Saxa (Einar Braga Bragason) og Héraðsmanninn Pella (Benedikt Vilhjalmsson).

SaxiPelli


mbl.is Nýr komusalur tekinn í notkun í flugstöðinni á Egilsstaðaflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei gert svo dimm él að ekki birti aftur

Veðurminni fólks er með minnsta móti og hefur jafnvel minnkað á síðustu árum ef eitthvað er. Oftar en ekki heyrist orðið talað um vorkomu á útvarpsrásum í mars og byrjun apríl. Fólk á þeim bæjum jafnvel undrandi á því að vetur skuli ríkja enn. Þetta hefur verið talsvert áberandi að undanförnu og líklega spilar þar inn í hve páskarnir voru snemma þetta árið. Auðvitað fer vorið fyrr af stað á suður- og suðvesturlandi en annars staðar á landinu og ekki hefur þótt tiltökumál þótt vetrarhret komi í maí á síðustu árum á Norður- og Austurlandi. Veturinn hefur bara ekkert verið harður, eins og oft er hamrað á. Aðeins í meðallagi. En sól hækkar á lofti og í dag er besta veður á Austurlandi, fimm stiga frost og stilla. Snjór er yfir öllu en sólin hátt á lofti. Allt hefur þetta sinn tíma og vorið kemur örugglega fyrr en varir. Eða eins og maður sagði: "Það hefur aldrei gert svo dimm él að ekki birti aftur".
mbl.is Beðið eftir gróanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að beygja nú nöfnin rétt?

"Samkvæmt upplýsingum frá upplýsingafulltrúa Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Ólöfu......." - Hverslags íslenskukunnátta er þarna á mbl.is og þetta er búið að standa svona á forsíðunni í hálftíma. Reynið nú að beygja þetta rétt og setja svo fréttina inn aftur.....vonandi gengur þessi björgunarleiðangur á Esjuna vel.
mbl.is Fólk í sjálfheldu í Esjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á samfélagið að taka þátt í leikfangaútgerðinni?

Þessi mótmæli með ofurjeppana eru nú ekki alveg í sama takti og hjá vörubílstjórunum. Þar eru menn að verja sína atvinnu en í þessu tilfelli hobbíið eða leikaraskap. Maður getur skilið nauðsyn slíkra farartækja ef fólk þarf hreinlega á þeim að halda til að komast til og frá heimili sínu, þar sem háir illfærir fjallvegir skilja að. Þetta á tæplega við í Reykjavík. Þar eru þessi farartæki til ánægju fyrir eigendur en fólki nægir sparneytinn bíll, strætó eða reiðhjól til að komast allra sinna ferða. Það er ekkert við það að athuga að hafa áhugamál, en hver sem þau eru kosta þau alltaf eitthvað. Kannski verða vélsleðaeigendur næstir?

Eigendur ofurjeppanna koma þó eins og aðrir til með að njóta góðs af aðgerðum vörubílstjóranna nái þær tilætluðum árangri. En það er ekki ástæða til að samfélagið taki einhvern þátt í útgerð leikfanganna.


mbl.is Jeppamenn fara hvergi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú væri gott að reikna líka út langlundargeð Íslendinga

Það er svoldið gaman að fylgjast með umfjölluninni um mótmæli bílstjóranna og hvernig hún þróast. Nú er svo komið að áherslan er orðin á lagabrot þeirra og það sem er athyglisverðara það er farið að reikna út kostnað. Auðvitað þarf þá alltaf að gefa sér einhverjar forsendur og þannig er hægt að reikna endalaust. Bara spurningin um hvaða forsendur eru gefnar. Öll mótmæli, hvort sem það eru verkföll eða annað er hægt að reikna út í háan kostnað. Það er í raun og veru hægt að reikna allan fjandann út, bara að gefa sér einhverjar forsendur. Svo má líka reikna út kostnaðinn af því að mótmæla ekki. Hvar væri almenningur staddur í dag ef ekki hefði orðið til verkalýðshreyfing til að mótmæla bágum kjörum? - Þetta er eflaust hægt að reikna líka. Svona lagað verður nú hins vegar aðallega skemmtiatriði.

En allt er þetta svo sem góðra gjalda vert og það eru mótmælin líka. Staðreyndin er bara sú að langlundargeð okkar Íslendinga er það mikið að aldrei er farið út í mótmæli fyrr en verulega er gengið fram af fólki. - Nú er komið að talnaglöggum mönnum að reikna út langlundargeðið. -T.d. hve mikla þolinmæði þarf til að koma af stað mótmælum? - Hvert er þanþol þolinmæðinnar? - Út frá þessu og mörgu fleiru er eflaust hægt að búa til skemmtileg reikningsdæmi.

Svo er hægt að færa þetta yfir á vegakerfi landsins. Hvernig væri að skoða hve miku eldsneyti er búið að eyða í bið við fjallvegina vegna ófærðar? - Hve mikið er vinnutapið vegna þeirra?- Hve margar flugferðir hafa tapast? - Hvað hefur allur snjóruðningurinn kostað? - Eflaust segir einhver að þetta sé vegna náttúrunnar en hitt af völdum manna. - Svo einfalt er það ekki. Vegir og samgöngumannvirki eru mannanna verk og Vegagerðin hefur reiknað út arðsemi í gegnum tíðina áður en farið er í framkvæmdir. Þar er bara spurning um að gefa sér forsendur líka.

Svona mætti lengi telja og án efa kemur margt athyglisvert í ljós. Álíka útreikninga má svo gera út frá tregðu í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins.

Þetta er hins vegar ekki stóra málið. - Stóra málið er að gengið hefur verið fram af fólki og aðgerðir bílstjóranna eru í raun mótmæli alls almennings, þótt einstaka maður hafi orðið pirraður yfir töfum, þá er ekki annað að sjá og heyra en allur almenningur styðji þau og ekki ólíklegt að fleiri mótmælaaðgerðir verði og það á öðrum sviðum en þeim sem snerta eldsneytisverð. IMG 0479


mbl.is Dýr mótmæli bílstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö stykki álver á dag

Nú gerast hlutirnir hratt bæði á Norðurlandi og á Reykjanesi. Á sama tíma og umhverfisráðherra staðfestir skýrslu Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fyrir álver í Helguvík er fundað á Húsavík.  Þar er boðað að Alcoa ætli síðar í þessum mánuði að leggja fyrir Skipulagsstofnun áætlun um mat á umhverfisáhrifum fyrir álver á Bakka við Húsavík. Það álver á að framleiða um 250.000 tonn á ári og stefnt er að fullum afköstum árið 2015.

Mörgum þykir nóg um alla stóriðjuna og ekki virðast yfirlýsingar um að gera skuli hlé og skoða málin, hafa neitt að segja. Kannski ekki að undra núna þegar lægð kemur í efnahagsmálin. Heimamenn virðast þó flestir fagna, bæði á Suðurnesjum og á Norðurlandi, þótt sáttin sé ekki algjör eins og búast má við.

Engan þarf að undra að slíkum framkvæmdum sé af miklum meirihluta fólks tekið fagnandi á áhrifasvæðum þeirra. Líklega væri ekki burðugt atvinnulíf á Austfjörðum núna ef álversins á Reyðarfirði nyti ekki við. Tvær handónýtar loðnuvertíðir og niðurskuður þorskkvóta auk minnkandi úrvinnslu landbúnaðarafurða. Nokkur hundruð störf þar. Svipað horfir nú við Norð-Austurlandinu og sama mætti segja um Akranes og nærsveitir allt til Reykjavíkur ef Grundartanga nyti ekki við. Nei meðan við höfum ekkert annað haldbært er bara engan veginn hægt að setja sig í dómarasæti úr fjarlægð og segja nei við þessum áformum.

Hins vegar verður að gera þá kröfu að varlega sé farið og gengið eins vel um náttúruna og mögulegt er. Þar höfum við lögin um mat á umhverfisáhrifum og verðum að treysta á að vel sé unnið eftir þeim. Sjálfur hef ég fylgst með breytingum sem verða í kjölfar stóriðju, fyrst við Grundartanga þegar Járnblendiverksmiðjan kom þar, síðan á Austurlandi. Ég viðurkenni fúslega að ég var aldrei hrifinn af Kárahnjúkavirkjun og þeim gífurlegu umhverfisáhrifum sem hún hafði. Sú skoðun hefur ekkert breyst. - Þetta var hins vegar undirstaðan fyrir stór atvinnutækifæri og því reynir maður að lifa með því. Umhverfisáhrifin vegna álvers á Bakka verða án efa smámunir miðað við Kárahnjúkadæmið.

Spennandi verður að fylgjast með framvindunni. Þeir Alcoa menn stóðu vel að framkvæmdum á Reyðarfirði og ekki ástæða til að ætla annað af þeim við Húsavík. Svo getum við endalaust deilt um fórnirnar hvort þær séu þess virði eða ekki. Öll mannanna verk kalla á breytingar og ef við hefðum ætlað að vernda allt ósnert land síðustu 100 árin, eða svo, hefði orðið lítið um byggingar og framkvæmdir, hvorki á höfuðborgarsvæðinu né annarsstaðar.


mbl.is Undirbúningur álvers á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfismat aftur og nýbúið!

Aftur frétt um umhverfismat.  Að vísu er ekkert vísað í skýrslu Skipulagsstofnunar þannig að maður getur ekki áttað sig á því hvort þetta er rétt eða ekki. En held samt að þetta hljóti að eiga að vera mat á umhverfisáhrifum en ekki umhverfismat. Varla að Helguvíkurframkvæmdum sé lokið. Ef svo væri þá gætum við talað um umhverfismat.

Allt um mat á umhverfisáhrifum á vef Skipulagsstofnunar: www.skipulag.is


mbl.is Vill stjórnarskrárbreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfismat eða mat á umhverfisáhrifum?

Ég hef grun um að umhverfisráðherra hafi verið að staðfesta ákvörðun Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna álvers í Helguvík. - Það er nefnilega þannig að mat á umhverfisáhrifum er gert áður en framkvæmdir hefjast en umhverfismat er gert að framkvæmdum loknum.

Algengt er að rugla þessu saman og verður æ algengara með árunum. Framkvæmdum er ekki lokið við Helguvík og því er ekki hægt að gera umhverfismat strax.

Nánari skýringar á þvi hvað "Mat á umhverfisáhrfium" er, má sjá á vef Skipulagsstofnunar www.skipulag.is

 


mbl.is Umhverfismat staðfest af umhverfisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangar og illa skrifaðar fréttir á vefmiðlunum

Hvað er eiginlega að gerast í þessum vefmiðlum? - Ítrekað fara þeir með rangt mál í fréttum, óvart kannski en að því er virðist stundum viljandi. - Málvillur eru áberandi og orðanotkun ábótavant. - Ekki eru þetta venjulegar prentvillur, maður horfir fram hjá þeim og skilur vel að ekki er allt prófarkalesið að fullu, sem fer í gegnum þessa miðla.

Þetta virðist ekki einskorðast við einhvern ákveðin miðil. Þó finnst mér visir.is fara heldur geyst í getgátum og vafasömum fréttaflutningi, sennilega hefur sá miðill forystuna í þeim efnum. Til dæmis er hún svo ótrúleg þessi frétt um líkamsræktartækin hjá Orkuveitunni, sem þar birtist, að hún hreinlega getur ekki verið rétt. - mbl.is hefur líka verið með rangar fréttir og ekki síst fyrirsagnir sem hafa verið út úr kortinu. Þetta er þó ekki eins áberandi þar.

Svo er málfarið sér kafli og líklega einna lakast á mbl.is. Gera þarf verulegt átak í því. Nærtækt dæmi er í fréttaflutningi um eldsneytisverð síðustu daga. Ítrekað er skrifað lítir í fréttunum þegar verið er að segja frá lítra, hvaðan sem þetta nú kemur. Oft hefur líter sést á prenti hér og það eru erlend áhrif en lítir er það nýjasta. Þetta er ofur einfalt á íslensku: lítri, um lítra, frá lítra, til lítra. Sama gildir um metra, en meter er ekki íslenska. Svo er nafnorðamyndunin algeng. Í dag getum við séð á mbl.is að vöntun sé á atvinnuhúsnæði á Austurlandi, þegar betur færi að segja frá því að atvinnuhúsnæði vantaði. Fyrirsögnin á næstu frétt er svo: "Mikil aukning á útflutningi á skyri". Færi ekki betur að segja: Aukinn skyrútflutningur - eða: Skyrútflutningur eykst.

Þetta er bara það sem sést í fljótu bragði. - Takið ykkur nú á í þessum efnum, þið sem stýrið vefmiðlum. Vandið vinnubrögðin.


mbl.is OR hefur enga ákveðna kaupendur í huga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband