Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Síðasta kerið á Reyðarfirði og síðasta gatið vegna Kárahnjúkaganga

Jæja nú er ástæða fyrir marga Austfirðinga að brosa út að eyrum. Allt komið á fullt á Reyðarfirði og því má segja að ríflega þriggja áratuga bið eftir stóriðju við Reyðarfjörð sé loks á enda. Það stendur á endum að um leið og síðasta kerinu er startað á Reyðarfirði er síðasta gatið gert í göngum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Það er athyglisvert að sjá í fréttinni að helmingur starfsmanna álversins við Reyðarfjörð sé af Austurlandi, fimmtungur þeirra séu brottfluttir Austfirðingar, sem sneru aftur á heimaslóðir og restin aðfluttir. Ekki man ég hverju áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi, en minnir þó að reiknað hafi verið með meiri aðflutningi fólks. Þá hafa menn eflaust ekki búist við því hruni sem orðið hefur í sjávarútvegi á Austfjörðum síðustu árin auk samdráttar í landbúnaði og úrvinnslu landbúnaðarafurða.

En Alcoa ætlar að fjölga starfsmönnum enn frekar á næstunni vegna aukinna verkefna og sérstaða þessa álvers umfram önnur slík hérlendis er sú fullvinnsla sem þar er, eins og víraframleiðslan. Utan við þetta allt eru svo störfin sem skapast til hliðar og fróðlegt væri að sjá einhverja úttekt á þeim störfum


mbl.is Síðasta kerið gangsett í álveri Alcoa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kyrrsetjum þessa græju strax!

Líklega eru menn nú fallnir á tíma með að fá síðasta risaborinn til afnota á Austfjörðum áður en hann verður sendur úr landi frá einhverri Austfjarðahöfninni. Þó er aldrei að vita. - Langt er síðan kunnáttumenn eystra fóru að tala um að heilbora tengingu fjarða og Héraðs og töldu bæði vel unnt og hagkvæmt að nota borinn til þess. -  Auðvitað fylgir því kostnaður að endurnýja alla slitfleti sem þarf eftir notkunina efra en svona bor er mikið verkfæri og ólíklegt að slík græja verði flutt til landsins aftur. Því ætti að gera allt til að halda bormaskínunni í landinu. Hvers hlutverk sem það nú verður, ríkis eða einstaklinga.

Þörfin fyrir jarðgöng sem tengdu Hérað við firði; Seyðisfjörð, Mjóafjörð, Norðfjörð og Eskifjörð, jafnvel Reyðarfjörð, er löngu ljós og góður gangur jarðgangaverkefna síðustu ár hér á landi ætti að sýna okkur hve hagkvæm göng eru í raun og veru. Göng eru ekki bara vegur. Um þau má leggja ýmsar lagnir, sem annars þyrfti að leggja yfir háa fjallgarða eða þá að yrðu aldrei lagðar. Göngin stytta vegalengdir og þjappa saman byggð, minnka slysahættu og spara peninga a öllum mögulegum sviðum. Jarðgöng eru margfalt fljótari að borga sig upp en arðsemireikningar Vegagerðarinnar gefa til kynna. Margt af því gagni sem jarðgöng gera verður aldrei hægt að meta til fjár.

Dæmi síðustu ára ættu að kenna okkur að setja jarðgöng í forgang um land allt og skera ekki við nögl í þeim efnum, bora í gegnum fjöll, undir firði og sund. Þetta eru arðsamar framkvæmdir sem endast í aldir, mun lengur en allar arðsömu virkjanirnar okkar. Miðað við allt það sem búið er að bora og sprengja vegna Kárahnjúkavirkjunar eru veggöng smámunir. - Kyrrsetjið stóra borinn sem fyrst, hver svo sem gerir það. - Hættið svo þessu rugli um að jarðgöng séu eitthvert sérmál landsbyggðarinnar. Þau eru hagur allrar þjóðarinnar, hvar sem þau eru, hvort sem þau eru undir Hvalfjörð, Sundin, Óshlíð, Fjarðarheiði, eða..............


mbl.is Heilborun jarðganga lýkur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, það er ekki hægt að villast á Skaganum

Ég vissi svo sem að það hefði fjölgað talsvert á Skaganum síðan ég bjó þar fyrir rúmum tveimur áratugum en að bærinn hefði stækkað svo mikið að hægt væri að villast þar. - Nei, það er ómögulegt á þessari flatneskju með Sementsverksmiðjuskorsteininn og Akrafjallið sem pottþétt kennileiti.- Hann hefur verið illa skakkur þessi karlræfill.

En það er gaman til þess að vita að enn skuli vera lagvissir lögregluþjónar á Skaganum, þeir voru það hér áður fyrr. - Hvaða lögga skyldi hafa tekið lagið????  Whistling


mbl.is Villtist í miðbæ Akraness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mathiesen og Möllerinn hógværari en Haarde

Þau eru ólík ummælin sem ráðherrarnir viðhafa um atvinnubílstjóranna sem verið hafa í andófi að undanförnu. Árni Mathiesen og Kristján Möller virðast líta á málin með skilningi og á þeim má skilja að málin séu í vinnslu. Geir Haarde hins vegar hreytir bara út úr sér einhverju um lögbrot og að ekki verði farið að kröfum svona manna. Svolítið hrokafullt en eflaust finnst honum mennirnir hafa unnið til þess. Aðspurður tók Árni þó undir orð Geirs, en það verður nú bara að flokkast sem hollusta við formanninn.

Viðbrögð atvinnubílstjóra eru líka svolítið misjöfn. Þeir virtust nokkuð sáttir á Egilsstöðum og Akureyri eftir viðtöl við samgönguráðherra en þessu er öfugt farið með talsmann bílstjóra syðra. Hann virðist á engan hátt sáttur við nein svör. Hverju hann bjóst við, veit maður ekki. - Hins vegar er það þannig að svona gerast kaupin á eyrinni, stjórnarapparatið er seinvirkt í eðli sínu.

Andóf bilstjóranna hefur þrátt fyrir allt haft sitt að segja. Olíufélögin hafa í það minnsta tekið við sér og lækka nú verð um leið og tækifæri gefst. - Stjórnmálamennirnir vita kröfur þeirra, það er byrjunin, svo er að sjá hvað þeir vinna úr því og almenningur í landinu, sem staðið hefur með trukkamönnum fram til þessa, sér að það hefur áhrif  að "hafa hátt". - Hvort eitthvað græðist á því fyrir bílstjórana að halda áfram þessu strögli, er annað mál.

 


mbl.is Árni: Gerist ekkert á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíða þess að kaupkröfur og verð lækki, skemmtilegar væntingar!

Í frétt mbl er haft eftir forstöðumanni Vinnumálastofnunar á Austurlandi að atvinnulífið á Austurlandi hafi styrkst og dafnað í kjölfar allra framkvæmdanna, sem þar hafa verið á síðustu árum. Atvinnuleysi hefur þó eitthvað aukist, eins og vænta mátti, en ennþá vantar þó iðnaðarmenn og fólk til starfa við skóla, félagsþjónustu og sjúkrahús. - Nokkuð dæmigert er það ekki? - Þessar undirstöðu stéttir hafa eflaust ekki fylgt álverslaunum og því ekki eftirsóknarvert að sækja í þessi störf.

það er athyglisvert að sjá að Egilsstaðir og Eskifjörður eru meðal þeirra staða sem mest hafa atvinnuleysið. Báðir þessir staðir eru í seilingarfjarlægð frá álverinu og það ætti því að koma þeim til góða. Kannski er þetta vegna þess að á þessum stöðum hefur íbúum fjölgað en annarsstaðar fækkað, ef Reyðarfjörður er undanskilinn. Á Borgarfirði eystra una svo menn glaðir við sitt í fámenninu, allir með vinnu.

Þó er eitt, sem vekur athygli umfram annað í ummælum forstöðumannsins. Hin alræmda skepna "markaðurinn" bíður átekta eftir að kaupkröfur og verð lækki frá því sem verið hefur. Sem sagt að allt fari í sama gamla farið. Austurland verði láglaunasvæði aftur með verðlaust húsnæði. Skemmtilegar væntingar sem þessi persóna markaðurinn hefur, eða hitt þó heldur.


mbl.is Atvinnulífið á Austurlandi hefur styrkst og dafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott skref í átt til alvöru flugvallar

"Hreinir" Austfirðingar aufúsugestir í Evrópu. - Svolítið góð fyrirsögn á frétt og auðvitað hvarflar fyrst að lesendum hvort eitthvað sé til af svoleiðis fyrirbærum. Þeir hafa jú meira eða minna verið að vinna í einhverjum skít að undanförnu; virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum. Þegar betur er að gáð er þetta einungis líkingamál og verið að lýsa bættum aðstæðum á Egilsstaðaflugvelli með tilkomu nýs komusalar í flugstöðinni þar.

Þessi nýi salur er gott skref í þeim áfanga að gera Egilsstaðaflugvöll að fullkomum alþjóðaflugvelli og millilandaflugvelli. Allar aðstæður eru til staðar. Landfræðilega er Egilsstaðaflugvöllur á góðum stað til þessa hlutverks. Aðflug gott og "vítt til veggja". Hann er á öðru veðurfarssvæði en Keflavíkurflugvöllur og því er oftar en ekki gott að lenda þar þegar Keflavíkurflugvöllur lokast. Í fréttinni kemur líka fram að tveir þriðju alls millilandaflugs er þegar með völlinn bókaðann sem varaflugvöll.

Færeyingar hafa fyrir löngu uppgötvað þetta og flugfélagið þeirra sendir þotur sínar oftar en ekki til Egilsstaða þegar hætta þarf við lendingu í Færeyjum, enda stutt að fara.

Nú þarf að fullkomna verkið, lengja flugbrautina þannig að allar þotur, sem lenda þurfa hér á landi, geti tekið á loft þaðan fulllestaðar. Hún er nú þegar það löng að geta þjónað flestum vélum og nefna má sem dæmi að þegar "beint" fragtflug var frá Akureyri þurfti stundum að lenda á Egilsstöðum til að bæta á eldsneyti, því fullestuð fragt og farmi gat vélin ekki farið á loft frá Akureyri, enda aðstæður þar landfræðilega til muna verri en á Egilsstöðum. Fyrir nokkrum árum var haldinn utanríkisráðherrafundur Norðurlanda á Egilsstöðum og þá gátu ráðherrarnir og fylgdarlið lent sínum þotum á Egilsstöðum svo ekki ætti að vera til vandræða fyrir okkar æðstu embættismenn að lenda þar á einkavélunum.

Salurinn sem nú var tekinn í notkun hefði þurft að vera kominn þegar stórframkvæmdirnar hófust eystra en framkvæmdum við flugvöllinn var ítrekað frestað af stjórnvöldum. Nú er hann kominn og klára þarf verkið.

egilsstadir-juni 005Á myndinni sést færeysk farþegaþota á Egilsstaðaflugvelli


mbl.is „Hreinir“ Austfirðingar aufúsugestir í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll hagræðingin hefur kostað aukna olíubrennslu

Á sama tíma og Al Gore kemur hingað til lands og mærir okkur Íslendinga fyrir að nýta umhverfisvæna orku og vera til fyrirmyndar á sviði umhverfismála ber hæst í umræðunni hjá okkur hve hátt verð á bensíni og olíu sé hér á landi. Við ráðum svo sem ekki miklu um heimsmarkaðsverð á eldsneyti en við getum ráðið talsverðu um áhrif þess hér á landi. Við getum ráðið nokkru um verð eldsneytisins hér á landi og miklu um hve mikið við notum af því.

Við eigum svo sem ekki að þurfa Bandaríkjamann til að segja okkur til í þessum efnum. Sú þjóð hefur síður en svo verið til fyrirmyndar í umhverfismálum. Kanar eru líklega einir mestu umhverfissóðar heims og bruðla óþyrmilega með eldsneyti. Gore vonaðist að vísu eftir breyttum tímum í þeim efnum með nýjum forseta. Við getum hins vegar tekið talsvert til í okkar ranni þvert á það sem við höfum gert að undanförnu. Það á ekki bara við um einkabílana þótt flestir taki fyrst eftir hækkun eldsneytisverðs við að fylla á þá.

Orkuverin okkar menga vissulega ekki þótt þau hafi tekið sinn toll af náttúrunni. Það gera hinsvegar málmbræðslurnar sem knúnar eru með orkunni en þó eru þær án efa mun betur búnar mengunarvörnum en víðast hvar annars staðar í heiminum.

Hvað höfum við verið að gera að undanförnu til að minnka notkun olíu og bensíns? - Ekki neitt.-Frekar höfum við aukið notkunina. Við höfum flutt alla vöruflutninga af sjó upp á land og eyðum þannig margföldu eldsneyti á hverja flutningseiningu umfram það sem væri ef strandflutningar með skipum væru til staðar. Um leið aukum við álagið á vegina og eitthvað fer af tjörunni og orkunni í að halda þeim við og auka við þá umfram það sem þyrfti ef þungaflutningar um þá væru ekki svona miklir. Almenningssamgöngur eru ekki gerðar fýsilegar fyrir almenning og gaman væri að einhver talnaglöggur myndi reikna út hvort ekki sé þjóðhagslegur sparnaður af ókeypis almenningssamgöngum í strætó og áætlunarbíla.

Auk þessa hefur, í nafni hagræðingar, verið lokað úrvinnslustöðvum fyrir sjávar- og landbúnaðarafurðir víða um land. Nú er svo komið að sláturhús eru örfá í landinu, mjólkurstöðvar aðeins á örfáum stöðum, fiskvinnslum hefur fækkað. Tollhöfnum hefur fækkað og svona má lengi telja. - Allt kallar þetta á aukna flutninga. Þeir fara fram á landi með mikilli olíueyðslu með tilheyrandi mengun og allt er þetta á endanum borgað af almenningi með hærra verði á vörum og þjónustu.

Er ekki kominn tími til að taka aðeins til í þessum málum og skoða hvort öll hagræðingin er hagræðingarinnar virði?


mbl.is Margir sporna gegn breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert forðaði hann slysinu?

Enn og aftur verða lesendur mbl.is vitni að einstaklega lélegri íslenskukunnáttu. "Tókst að forða slysi...", segir í fyrirsögn í stað þess að forðast slys hefur viðkomandi ökumaður ákveðið að forða slysinu eitthvert. Hvers vegna og hvert hann forðaði því er hinsvegar óljóst en í fréttinni kemur svo fram að hann hefur forðað árekstri líka blessaður. Það verður ekki af þessum ökumanni skafið að hann hefur heldur betur tekið til hendinni þarna. 

Ef maður horfir hins vegar fram hjá þessum málvillum þá má ljóst vera að þarna mátti litlu muna að árekstur yrði og jafnvel slys á fólki. 


mbl.is Tókst að forða slysi með því að fara á rangan vegarhelming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hratt upp - hægt niður" reglan horfin?

Andófið hjá atvinnubílstjórum er að virka. Það er greinilegt. Olíufélögin ætla sko ekki að láta taka sig í bólinu núna með að lækka ekki verð á eldsneytislítranum þegar gengi krónunnar hækkar. Þetta er alveg nýtt og þeir hjá Neinum eiga hrós skilið fyrir að ríða alltaf á vaðið. Hinir koma örugglega á eftir og það samráð er vel þegið hjá landsmönnum. - Kannski hefur þetta orðið til þess að reglan um að verðið fari hratt upp en hægt niður, sé liðin undir lok.

IMG 0494


mbl.is N1 lækkar eldsneytisverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kamfýlóbakter í skiptum fyrir trosið

Já það er verulega vandlifað fyrir okkur þessar hræður hér á skerinu í samfélagi stóru þjóðanna. Við erum í stöðugu strögli með peningamálin, þótt oft hafi það nú verið svartara í þeim efnum. Að okkur er sótt á öllum sviðum þeirra mála. Til að við getum svo fengið einhverjar krónur fyrir þessa örfáu fisktitti, sem hafró og sjávarútvegsráðherra þóknast að leyfa veiðar á, þurfum við víst flytja inn einhverjar kjöttæjur frá útlöndum og það þrátt fyrir að eiga gnægð úrvals matar hér heima. Ekki eins og að við séum að senda þeim eitthvert tros. - Þetta gerist þrátt fyrir að við séum ekki fullgild í sambandi Evrópuþjóða. - Ekkert nýtt svo sem, við höfum þurft að kokgleypa allskonar furðulegar reglur frá Brussel síðustu árin. Unglingar mega t.d. ekki lyfta áburðarpoka eða saltfisksekk lengur, hvað þá vinna uppbyggilega með skóla. Bílstjórar eiga að stoppa hvar sem þeir eru staddir eftir fjóra og hálfan tíma á akstri og svona mætti lengi telja. Skiptir það bara orðið nokkru þó við tökum skrefið í ESB til fulls? - Við erum hvort sem er komin með flesta ókostina.
mbl.is Úrvalið meira en spurning um verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband