Tvö stykki álver á dag

Nú gerast hlutirnir hratt bæði á Norðurlandi og á Reykjanesi. Á sama tíma og umhverfisráðherra staðfestir skýrslu Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fyrir álver í Helguvík er fundað á Húsavík.  Þar er boðað að Alcoa ætli síðar í þessum mánuði að leggja fyrir Skipulagsstofnun áætlun um mat á umhverfisáhrifum fyrir álver á Bakka við Húsavík. Það álver á að framleiða um 250.000 tonn á ári og stefnt er að fullum afköstum árið 2015.

Mörgum þykir nóg um alla stóriðjuna og ekki virðast yfirlýsingar um að gera skuli hlé og skoða málin, hafa neitt að segja. Kannski ekki að undra núna þegar lægð kemur í efnahagsmálin. Heimamenn virðast þó flestir fagna, bæði á Suðurnesjum og á Norðurlandi, þótt sáttin sé ekki algjör eins og búast má við.

Engan þarf að undra að slíkum framkvæmdum sé af miklum meirihluta fólks tekið fagnandi á áhrifasvæðum þeirra. Líklega væri ekki burðugt atvinnulíf á Austfjörðum núna ef álversins á Reyðarfirði nyti ekki við. Tvær handónýtar loðnuvertíðir og niðurskuður þorskkvóta auk minnkandi úrvinnslu landbúnaðarafurða. Nokkur hundruð störf þar. Svipað horfir nú við Norð-Austurlandinu og sama mætti segja um Akranes og nærsveitir allt til Reykjavíkur ef Grundartanga nyti ekki við. Nei meðan við höfum ekkert annað haldbært er bara engan veginn hægt að setja sig í dómarasæti úr fjarlægð og segja nei við þessum áformum.

Hins vegar verður að gera þá kröfu að varlega sé farið og gengið eins vel um náttúruna og mögulegt er. Þar höfum við lögin um mat á umhverfisáhrifum og verðum að treysta á að vel sé unnið eftir þeim. Sjálfur hef ég fylgst með breytingum sem verða í kjölfar stóriðju, fyrst við Grundartanga þegar Járnblendiverksmiðjan kom þar, síðan á Austurlandi. Ég viðurkenni fúslega að ég var aldrei hrifinn af Kárahnjúkavirkjun og þeim gífurlegu umhverfisáhrifum sem hún hafði. Sú skoðun hefur ekkert breyst. - Þetta var hins vegar undirstaðan fyrir stór atvinnutækifæri og því reynir maður að lifa með því. Umhverfisáhrifin vegna álvers á Bakka verða án efa smámunir miðað við Kárahnjúkadæmið.

Spennandi verður að fylgjast með framvindunni. Þeir Alcoa menn stóðu vel að framkvæmdum á Reyðarfirði og ekki ástæða til að ætla annað af þeim við Húsavík. Svo getum við endalaust deilt um fórnirnar hvort þær séu þess virði eða ekki. Öll mannanna verk kalla á breytingar og ef við hefðum ætlað að vernda allt ósnert land síðustu 100 árin, eða svo, hefði orðið lítið um byggingar og framkvæmdir, hvorki á höfuðborgarsvæðinu né annarsstaðar.


mbl.is Undirbúningur álvers á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góður pistill Haraldur

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.4.2008 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband