Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Athyglisvert hjá Jóni fyrrverandi í einu og öðru

Það er athyglisvert sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi í einu og öðru, meðal annars í Seðlabankanum, bendir þarna á um þrennskonar gjaldmiðla sem hér á landi séu ráðandi. Engu er líkara en þetta sé nokkuð sem núverandi Seðlabankastjórar hafi ekki áttað sig á eða vilji ekki viðurkenna, hvað þá forsætisráðherra og hans meðreiðarfólk í ríkisstjórn. Telja sig eflaust vera að halda í einhver ímynduð völd að öllu óbreyttu.

Jón telur tímabært að sækja um ESB-aðild og bendir á að slík aðild geti orðið hagstæð fyrir landbúnaðinn en erfiðir samningar vegna sjávarútvegs. Er nokkur ástæða til að hræðast viðræður um ESB-aðild? Þær ættu þá bara að leiða í ljós hvort við erum í raun að fórna einhverju. Sjálfstæðið í sjávarútvegsmálum er það sem helst hefur staðið í fólki. Það má líka spyrja sig í hverju það sjálfstæði sé fólgið í dag. Sjávarafurðir vega enn mikið í öflun þjóðartekna, þótt hlutur þeirra hafi farið minnkandi en viðræður um ESB-aðild ættu þá hreinlega að leiða í ljós hvort við þurfum í raun að fórna einhverju á því sviði. Ekki verður annað séð en allt hitt hjá ESB komi okkur til góða. Við erum hvort sem er búin að lögleiða flestar tilskipanirnar og höfum þar kokgleypt ýmsa mis gáfulega hluti. 

Nei förum strax í viðræður um ESB-aðild og sjáum til hvers það leiðir. Tíma ráðamanna er örugglega betur varið í það heldur en ruglið með öryggisráðið.


mbl.is Tímabært að sækja um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir mega ekki missa af verðbólgunni

Ætli þeir hafi ekki bara heyrt fréttirnar af verðbólgunni í dag, samráðsgæjarnir í bensíninu? - Drifið sig í að hækka svo þeir misstu nú ekki af neinu. Hún gæti hjaðnað aftur þessi bólga - Nei annars, maður var eiginlega farinn að sakna þess að eldsneytisverð stæði í stað. Það hafa bara ekki komið fréttir af hækkunum í marga daga. - Mikill léttir að heyra að lífsmark er með olíufélögunum. 


mbl.is Skeljungur hækkar eldsneytisverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðisráðherra kaupir sér frest

Þá er heilbrigðisráðherra og hans lið búið að kaupa sér smá frest til að undirbúa frekari herför gegn heilbrigðiskerfinu. Svo framarlega að hjúkrunarfræðingar og geislafræðingar samþykki að draga uppsagnirnar til baka. Því má hins vegar fastlega reikna með. Langlundargeð heilbrigðisstarfsmanna er ótrúlegt. 

Þetta er náttúrlega ruddaleg framkoma að draga allar ákvarðanir fram á síðustu stundu og taka ekki einu sinni raunverulega ákvörðun. Nei þetta virðist allt vera planað og stílað inn á ohf og einkavæðingu.


mbl.is Landspítali frestar nýju vaktakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli bakarinn viti af þessu?

Er bara allt í tómu tjóni í skólahaldi á Skaganum núna? Pestagangur í kennurum beggja skóla og enginn til að leysa af. - Hafa bæjaryfirvöld á Akranesi, þá ekki verið í takti við önnur bæjaryfirvöld í aukasporslum til kennara upp á síðkastið? - Er ekki annars verið að skrifa undir samninga við grunnskólakennara núna, einhversstaðar er önnur frétt um það - En það sem öllu máli skiptir: Ætli bakarinn viti af þessu?


mbl.is Engin kennsla á unglingastigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannaðu fleiri siglingaleiðir Kristján

Það hlýtur að vera athugandi fyrir samgönguráðherra að skoða fleiri siglingaleiðir við landið en yfir Breiðafjörð. - Hvað með strandsiglingar? - Hvers vegna eru þær ekki fýsilegar hjá eyþjóð eins og okkur. Með þeim mætti létta verulega á vegakerfi, sem engan veginn ber alla þá þungaflutninga sem um það fara. - Stór hluti þeirra flutninga sem um þjóðvegi fara þolir alveg lengri tíma en einn dag. - Þá þarf kannski ekki að ströggla eins mikið við ESB um þjóðvegaumfeðarreglur. - Hvað með losunarkvótann. Það verður alla vega minni mengun á hverja flutningseiningu með sjóflutningum en landflutningum.

Það er allt til að vinna að koma sjóflutningum til vegs og virðingar að nýju. Bara leita ástæðna fyrir því að stóru flutningafyrirtækjunum þykir þetta ekki fýsilegt lengur. Þau voru jú stofnuð til sjóflutninga.


mbl.is Siglingar endurskoðaðar í ljósi ástands vega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látið Hafró vita af þessu

Já hún leynir á sér grásleppan. Ekki virðist vaxtarlagið til þess fallið að koma henni hratt á milli staða. Samt gerist það, samkvæmt þessu.  Það er athyglisvert og hið besta mál að rannsaka feril grásleppunnar. - Skyldi Hafró vita af þessu? - Ætla má að þorskurinn fari nokkuð hratt yfir líka. Hann hefur jú sporð eins og grásleppan og er ólíkt rennilegri í vaxtarlagi. Sennilega er það nú skýringin á því hve illa gengur að hemja hann inn í reiknilíkönunum, hvað þá á togararallsblettunum.

Veiðimálastofnun, Landsamband smábátaeigenda og Háskólinn á Akureyri eiga þakkir skildar fyrir að hefja þessar rannsóknir. - Vinsamlegast látið Hafró vita af þessu. 


mbl.is Mikil yfirferð á grásleppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GAS!!! - GAS!!! - GAS!!! - Þetta átti að vera svona

Jamm svona átti þetta að vera. Ekki er nokkur vafi að löggurnar gerðu allt samkvæmt því sem fyrir þær var lagt, þegar þær úðuðu piparúðanum á fólk við Rauðavatn um daginn. Það segir hins vegar ekkert til hvort réttlætanlegt er að nota þetta sprey í einhverjum tilfellum. Ofbeldið sem felst í því er ekki til þess fallið að lægja öldur. - Jafnvel þótt fólk sé aðvarað áður og það margoft. - Tryllingslega GAS!! GAS!! GAS!! öskrið var aumkunarverðast fyrir viðkomandi lögregluþjón og gerði hann hálf afkáralegan í þessu öllu.

Löggan kennir í sínum fræðum meðferð svona ógnunarvopna og líklega eru til ákveðnar reglur um rafstuðsbyssur líka, hvað þá alvöru byssur. Spurningin er hins vegar hvort ekki þarf að endurskoða eitthvað námskrána í lögguskólanum og leggja meiri áherslu á mannlega þáttinn en ofbeldið.


mbl.is Rétt aðferð við beitingu piparúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýr Friður 2000 sér að götum Reykjavíkur?

Gott að Ástþór skuli ekki vera á leið forsetaframboð. Hann sér kannski loks að þetta er full reynt. - Eru ekki bara annars nóg verkefni nú orðið fyrir Frið 2000 á götum Reykjavíkur?
mbl.is Ástþór býður sig ekki fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taka allan pakkann í einu og málið er dautt

Það er í rauninni synd að þessi bor skuli ekki látinn bora sig til sjávar frá Héraði um Seyðisfjörð, Mjóafjörð, Norðfjörð, Eskifjörð og til Reyðarfjarðar, þar sem má setja hann í skip. Vel má vera að of seint sé í rassinn gripið og útboðsferli og allt slíkt setji strik í reikninginn. Þarna er hins vegar kjörið tækifæri til að ljúka þeim verkum, sem hefðu þurft að vera samhliða Kárahnjúkavirkjun og stóriðju við Reyðarfjörð. Það átti um leið að tengja Hérað við firði á nútíma hátt. Hætta þessu príli yfir há fjöll með fólk og annað sem flytja þarf.

Heimamenn hafa að undanförnu verið að skoða þessi mál og notkun þessa bors virðist raunhæf. Hvort svona tækifæri kemur upp í hendurnar á okkur aftur fljótlega er óljóst. Eflaust verður áfram dundað við að þrasa um hvar næsta gat eigi að koma og því sleppt að taka allan pakkann í einu. Það þarf að gera og málið er dautt.  


mbl.is Risabor á útleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afl hefur sinnt góðri löggæslu fyrir ríkið

Forsvarsmenn Afls, starfsgreinafélags á Austurlandi hafa undanfarin ár þurft að standa í ströngu vegna ýmissra réttindamála, sem tengjast stórframkvæmdunum eystra. Þetta mál sem vannst núna er aðeins eitt af mörgum atvikum sem félagið hefur þurft að hafa afskipti af. Félagið hefur í raun verið að taka að sér löggæslu að hluta til síðustu ár og ekki annað að sjá á niðurstöðum dóma en að þar hafi tekist vel til.

Það var nefnilega ýmislegt sem ríkisvaldið gleymdi að gera ráð fyrir þegar farið var í stórframkvæmdirnar. Bæði lagaumhverfið og eftirlitið. 


mbl.is AFL vinnur innheimtu- og vinnuréttindamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband