Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Ótrúlegt að reyna þetta

Það er eiginlega ótrúlegt að reyna fíkniefnasmygl með þessum hætti, ekki síst á þessum árstíma. Skútuumferð er ekki mikil yfir hafið að vori til og auk þess hljóta þessir gaurar með hraðskreiða vel útbúna slöngubátinn að hafa vakið athygli á Djúpavogi. Ótrúlegt annað en að "Kongóbúar" hafi látið vita af grunsamlegum ferðum þessara "kafara."

En hvar eru gjaldeyrishöftin? - Þau eru greinilega ekki að virka þarna.


mbl.is Skútan verður færð til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróðurhús í stað kerskála

Fyrst ríkisstjórnin hefur verið að taka á ýmsum glappaskotum fyrri ríkisstjórnar er undarlegt að þessi 25% hækkun á rafmagnsverði til garðyrkjubænda, sem Einar Guðfinnsson setti á, skuli ekki hafa verið afturkölluð og meira en það. Allir vita að erlend mengandi stóriðja er að fá rafmagn á gjafverði. Nær væri að leggja áherslu á að auka garðyrkju með lækkandi rafmagnsverði. Þar gæti orðið stóriðja, sem jafnvel gæti hafið útflutning í stórum  stíl. Þekking og aðstæður eru fyrir hendi. Byggjum margra kílómetra löng gróðurhús í stað kerskála.
mbl.is Garðyrkjubændur skrifuðu ekki undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalir og hagfræði

Það var og. Að láta Hagfræðistofnun leggja mat á hvalveiðar. Ætli þeir hagfræðingarnir í háskólanum taki líka tillilt til áhrifa hvalsins í sjónum? Taka þeir tilllit til jafnvægis í lífríku? - Nei Steingrímur nú ertu á villigötum. Hvalveiðar og hagfræði eiga illa saman.


mbl.is Mat lagt á þjóðhagsleg áhrif hvalveiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór er snillingur

Frábær þessi ummæli Guðlaugs Þórs þarna um að ástæðan fyrir því að vinstri flokkarnir hafi boðað til kosninga núna hafi verið að þannig gætu þeir náð sér niður á Sjálfstæðisflokknum. Guðlaugur Þór hefur ekki enn áttað sig á því að sjálfstæðismenn hafa sjálfir grafið sér gröf. Þeirra er klúðrið. Guðlaugur Þór er sannarlega snillingur. Hann vissi ekki neitt um það sem hann gerði og nú er það einhverjum öðru að kenna.
mbl.is Þarf að vinna litla sigra á hverjum degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupfélög nútímans

Þetta er nákvæmlega sama hlutverkið og kaupfélögin gegndu áður. Bændur voru með allt sitt bundið hjá kaupfélögunum og þau skömmtuðu þeim naumt úr hnefa. Nú er ríkið í þessu hlutverki með sína banka. Sama er að gerast hjá öllum almenningi. Fólk er bundið á klafa bankanna. Þeir eru kaupfélög nútímans.
mbl.is Bankinn kaupir fóðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið? Þetta er rétt að byrja

Takk fyrir búið, segir þingmaður í síðustu ræðu sinni en nú er þetta rétt að byrja. Nú er það spurningin hvað við, almenningur í þessu landi, gerum. Það ræðst í þingkosningunum eftir viku.
mbl.is Takk fyrir, búið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið og frelsið fótum troðið

Sérhagsmunaliðið í Sjálfstæðisflokknum hefur náð sínu fram í hagsmunagæslunni með málþófi á Alþingi. Flokkur sem hefur þessi völd þarf auðvitað hvorki kjósendur né kosningar. Hann nær sínu fram með frumskógarlögmálinu eins og alltaf. Annars eru þetta undarleg fundarsköp á Alþingi. Þau ganga þvert á allt sem tíðkast í venjulegum fundarsköpum. Það er eðlilegt að ræða málin áður en til atkvæðagreiðslu kemur en það skuli hægt að teygja lopann með söng og sögulestri til þess að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu á ekkert skylt við lýðræði.

Þessi atlaga hagsmunagæslumannanna við lýðræðið er til skammar. Lýðræði og frelsi er það sem allir óska sér. Þetta tvennt er hins vegar vandmeðfarið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú fótum troðið hvorttveggja til hagsbóta fyrir einkavinina en til tjóns fyrir allan almenning í þessu landi.


mbl.is Stjórnarskrá ekki breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytir ekki trúarbrögðum Hafró

Togararall er og hefur alltaf verið arfavitlaus aðferð til að nota sem ráðgjöf um hverjar aflaheimildir eiga að vera. Einfaldlega vegna þess að fiskurinn hefur sporð og leitar því þangað sem lífsskilyrði fyrir hann eru best hverju sinni. Það er góðra gjalda vert að toga ár eftir ár á sömu bleyðunum á sömu skipunum. Slíkt getur gefið samanburð á lífríki viðkomandi staða og hitastigi. En að þetta eigi að segja okkur eitthvað um ástand þorskstofnsins er fáránlegt.

Mikið þarf að ganga á til að Hafró víki frá trúarbrögðum sínum um að hægt sé að geyma fiskinn í sjónum, eins og í einhveri afmarkaðri kví og bíða eftir að hann stækki. Þessi niðurstaða kemur ekki til með að breyta neinu um fiskveiðiráðgjöf á þeim bæ.


mbl.is Vísbendingar um sterkan þorskstofn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Möppudýrin einu dýrin sem ekki eiga að ganga laus

Auðvitað lét Kolbrún skynsemina ráða frekar en einhverja kerfiskarla í Reykjavík. Það eru ótal dæmi um að villtum dýrum hafi verið bjargað en þau svo látin fara frjáls ferða sinna á eftir. Möppudýradæmið, sem þarna fór á undan, er því miður dæmi um kerfisleg vinnubrögð langt frá allri skynsemi og mannlegri tilfinningu. 

Í raun eru möppudýrin eina dýrategundin sem ekki ætti að ganga laus.


mbl.is Mun tryggja að Líf fái líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsdýragarðshreindýrin fundust illa á sig komin

Getur ekki Kolla umhverfisráðherra farið sjálf heim að Sléttu og skoðað kálfinn. Veit að hún er á leið eða komin austur á firði. Þetta er kostulegt pappírsfargan og ég átta mikið ekki á því hvers vegna þetta möppudýr í umhverfisráðuneytinu talar um húsdýragarð og að flytja eigi dýrið inn á svæði. Að öllu óbreyttu hefði hreindýrskálfurinn gengið á sama svæði og önnur dýr frá Sléttu. Hreindýr hafa aldrei verið mikið fyrir að virða venjulegar girðingar. Hvað með alla villta fugla sem fara um allt og fólk gefur í húsagörðum eða villiketti, sem stundum verða að heimilisdýrum, þegar þeir finnast. Þarf leyfi fyrir þessu öllu?

Ég vil minna þessa pappírspésa syðra á að fyrstu hreindýrin sem komu í Húsdýragarðinn í Reykjavík komu eftir svipaðri leið og þessi kálfur. Þá fundust tveir kálfar austur á Héraði sem voru illa á sig komnir. Þeim var komið í fóstur til Jóa á Breiðavaði í Eiðaþinghá og þar döfnuðu þeir vel. Síðan voru þeir fluttir í Húsdýragarðinn og það án afskipta umhverfisráðuneytis. 


mbl.is Líf Lífar í höndum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband