Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Snjallt hjá Máa

Sá í fréttum í gær að nýr stjórnarformaður Glitnis; Þorsteinn Már Baldvinsson, lét það verða sitt fyrsta verk að lækka stjórnarformannslaunin úr milljón í hálfa. Þetta er snjallt hjá honum og smá skilaboð til ofurlaunagæjanna í fjármálakerfinu, sem með sjálftöku eru komnir langt út fyrir allt sem eðlilegt og siðsamlegt getur talist. Það er líka yfrið nóg að fá hálfa milljón á mánuði fyrir aukadjobb, því flestir ef ekki allir þessir stjórnarformenn eru í góðum stöðum annars staðar og ekki í neinu launasvelti. Þetta gerði Mái á sama tíma og ákveðið var að hætta loðnuveiðum en það hlýtur að hafa slæm áhrif fyrir fyrirtæki hans, sérstaklega Samherja og systurfyritækið Síldarvinnsluna. Annars finnst mér þessar rannsóknir á fiskistofnum við landið í óttalegu skötulíki og stífni vísindamannanna mikil. Það getur ekki verið að nægt tillit sé tekið til aðstæðna í sjónum. Ef þessir fiskar synda ekki eftir fyrirframákveðnu reiknilíkani Hafró þá er allt í voða. - Svo eru náttúrlega stjórnmálamenn í þeirri stöðu að geta ekki véfengt þetta, þrátt fyrir að ýmsir hafi gagnrýnt aðferðafræði Hafró með góðum rökum, bæði sjómenn og aðrir.

1 fyrir 15

Já bankarnir að segja upp fólki, kannski nokkuð sem búist var við. Nú geta bankarnir farið mildar í þetta. Sé 15 manns sagt upp í einhverjum bankanum kallast það fjöldauppsögn og er verulega vont dæmi sem margir verða fyrir barðinu á.  Við þetta sparar bankinn kannksi einhverjar 5 milljónir á mánuði, svo framarlega að þessir 15 séu óbreyttir starfsmenn. Sé í sama banka einum ofurlaunastjórnanda sagt upp, þá er það ekki fjöldauppsögn og fáir verða fyrir óþægindum en upphæðin sem sparast er jafnmikil og jafnvel meiri en er við uppsögn hinna 15. Það er nú líka einu svo að engin yfirbygging er traustari en undirstaðan og þegar byrjað er að rífa eitthvað niður þá byrja menn efst, ekki rétt? Í það minnsta er það gert þegar hús eru rifin.
mbl.is Uppsagnir hafnar í bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að siða loðnuna?

Þetta gengur ekki, það þarf að siða þessa loðu til. Hún neitar ítrekað orðið að synda eftir reiknilíkönum Hafró. Það sér náttúrlega hver maður að þetta er vonlaust dæmi, meira að segja þorskurinn hefur tekið upp á þessu líka. Þessi kvikindi eru farin haga sér eins og þau ráði því sjálf hvert þau synda. Þau nota sporðinn til að færa sig á staði við landið sem henta betur, þar sem fæðan er meiri og hitastigið heppilegra. Skyldi Byggðastofnun vita af þessu? Þetta er náttúrlega byggðaröskun í hafinu og engu líkari en fiskistofnar séu farnir að haga sér svipað og mannfólkið, flytja sig til eftir lífsins gæðum. Norðmenn voru snjallir, þeir drifu í því að veiða það sem þeri máttu veiða hér við land. Þeim gekk bara vel þrátt fyrir afleitt tíðarfar meðan íslenskir útgerðarmenn fóru að tilmælum Hafró og héldu að sér höndum.  - Nei, þetta gengur ekki. Nú er auðvitað, að mati vísra manna, skynsamlegast að hætta að reyna við loðnuna. Ekkert vit í að fylgjast með henni lengur og sjá hvort hún kemur ekki inn í einhverjar leifar af reiknilíkaninu og þétti sig þar. Það munar greinilega ekkert um þessa milljarða en það jákvæða er að allur þorskurinn sem ekki hefur skilað sér í reiknilíkanið hefur væntanlega meira að éta á næstunni.
mbl.is Loðnuveiðar væntanlega stöðvaðar í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveggja sólarhringa aðdragandi

Í fréttum af þessum vegaskemmdum í Borgarfirði hefur komið fram að vegagerðarmenn sáu að vatn var farið að safnast þarna fyrir á laugardag. Þess vegna spyr maður; af hverju var ekkert gert áður en vatnið fór að rjúfa veginn? t.d að veita því hjá honum, eða fylgjast vel með ræsinu. Afleiðingin er lokun vegarins í á annan sólarhring með tilheyrandi kostnaði, ekki bara fyrir Vegagerðina, heldur alla þá vegfarendur sem verða fyrir töfum og aukakostnaði vegna þessa. Einhver hlýtur að vera ábyrgur og þurfa að axla ábyrgð, eins og vinsælt hefur verið að segja að undanförnu.


mbl.is Hringvegurinn lokaður í Borgarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband