Það er í og á svona sitt á hvað

"Lögreglan á Borgarnesi mætti í nótt...." Þannig byrjar þessi frétt. Venjan er sú að segja í Borgarnesi. Annars er þetta með á og í einhversstaðar alltaf umhugsunarefni. Engin regla er til um þetta. Einungis málvenja heimamanna sem ræður. Við getum ekki sagt að öruggt sé að segja í þegar það er nes, fjörður eða vík. Þannig er það til dæmis í þessu tilfelli að við segjum í Borgarnesi en á Akranesi. Svo segjum við í Reykjavík en á Húsavík. Í Hafnarfirði en á Ísafirði. Fyrir austan er nokkuð öruggt að nota á um firðina. Þar búa menn á fjörðum, t.d. á Borgarfirði eystra, en á Vesturlandi búa menn í Borgarfirði. Svona mæti lengi telja. Í eina tíð hékk listi upp á vegg á fréttastofu útvarps með málvenjunum fyrir hvern stað til glöggvunar fyrir fréttamenn. Þannig listar mættu vera víðar.
mbl.is Reyndi að komast undan lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég er fædd og uppalin á bæ í Skagafirði sem heitir Vallanes. Þar er alltaf talað um í Vallanesi en ekki á því. En til gamans læt ég hér flakka skemmtilega vísu sem ég fékk frá Kela kaupfélagsfulltrúa þegar ég vann á sláturhúsinu forðum daga. Við vorum búin að kveðast á um hríð okkur til dægrastyttingar og voru vísumiðarnir látnir ganga á milli með sendli.

Held ég varla að vildi mig

Þótt vísur snjallar lesi

Hefur kalla hring um sig

Helga í Vallanesi.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 21.9.2008 kl. 16:47

2 identicon

Þú hefur sem sagt unnið í Efra, ég var bara í Neðra  .

Rétt hjá Haraldi þetta með í og á en ég hef t.d heyrt fólk bæði tala um að skreppa í Egilsstaði og að skreppa á Egilsstaði, hef ekki hugmynd hvort er réttara.

(IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 16:54

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þetta eru málvenjur sem fara ekki eftir miklum reglum.  Eitthvað sem útlendingar geta aldrei skilið eða lært.  Ef ég er stödd á Húsavík og ætla til Akureyra fer ég inn eftir.....

Hólmdís Hjartardóttir, 21.9.2008 kl. 17:00

4 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Sigurlaug. Ég bjó og vann bæði í neðra og efra. Þetta er rétt hjá þér með Egilsstaði maður heyrir hvort tveggja. Þó segir fólk alltaf að það búi á Egilsstöðum. En þegar farið er til Egilsstaða er oft talað um að fara í Egilsstaði, það er rétt. 

Haraldur Bjarnason, 21.9.2008 kl. 17:01

5 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Já Hólmdís. Hafnfirðingar fara líka allta inn eftir þegar þeir fara til Reykjavíkur en Akureyringar fara austur þegar þeir fara til Húsavíkur enda tala þeir alltaf í áttum, hvort sem er innanbæjar eða ekki. Svei mér þá ef þeirr leggja ekki í bílastæði og fara upp í rúmið eftir áttum. Ég er enn að átta mig hér á Agureyris.

Haraldur Bjarnason, 21.9.2008 kl. 17:14

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Og allir fara suður til Reykjavíkur

Hólmdís Hjartardóttir, 21.9.2008 kl. 17:17

7 Smámynd: Haraldur Bjarnason

...meira að segja Hornfirðingar og ég held líka Vestmannaeyingar

Haraldur Bjarnason, 21.9.2008 kl. 19:06

8 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

...Örugglega Vestmannaeyingar Haraldur, úr Þorlákshöfn förum við suður til Reykjavíkur..?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.9.2008 kl. 07:22

9 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Hér stefnir í handalögmál milli okkar Önnu,  það eru ár og öld síðan bærinn hét Skinþúfa.. en einhvern veginn komust krakkadýrin í sveitinni að þessu þegar ég var hrísla og kölluðu mig Skinnhúfuna. Mér fannst það skelfilegt!

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 22.9.2008 kl. 08:01

10 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Það er nú varla hægt að tala um að þó svona skilgreining hafi hangið uppi í fréttstofunni hafi fréttamenn farið eftir því. Ég held t.d. að ég fari alltaf í kaupstað og til Reykjavíkur og í Hafnarfjörð og svo förum við auðvitað öll inn í dal! Áfram með smjörið!

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 22.9.2008 kl. 08:56

11 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Svo er ekki sama hvort þú er að tala um að fara til staðanna eða að einhver búi þar. Þeir eru margir staðirnir sem bera kaupstaðarnöfn sem sveitarfélög en þau nöfn eru ekki notuð í daglegu stali, samanber Seyðisfjarðarkaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður, Akureyrarkaupstaður, Akraneskaupstaður. En rétt er það alla tíð hafa Íslendingar farið í kaupstað.  

Haraldur Bjarnason, 22.9.2008 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband