Toppadýrkun Reykvíkinga

Kannski eru útvarps- og sjónvarpsauglýsingar Sjálfstæðisflokksins að bera árangur? Í þeim er athyglisvert að Hanna Birna minnist ekki einu orði á að hún sé fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og hún nefnir flokkinn aldrei á nafn. Hún segir aðeins "Við í borginni." Með þessu hefur henni kannski tekist að fela það hvað hún stendur fyrir og í raun afneitað flokknum, sem er skiljanlegt í ljósi "afreka" þessa flokks við hrunið.

Annars er það athyglisvert að alla tíð hafa sveitarstjórnarkosningar í Reykjavíkurhreppi snúist um hver eigi að bera kórónuna á toppnum. Þar hefur einhverskonar kónga- eða leiðtogadýrkun verið ráðandi og málefni hafa litlu skipt. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn dubbaði svo Ólaf F. Magnússon upp í forystusætið til þess eins að ná völdum voru það hins vegar ekki kjósendur sem völdu sér kónginn heldur flokkurinn og sem fyrr skiptu málefnin þá engu.


mbl.is Flestir vilja Hönnu Birnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo koma tollahliðin

Þetta verður svo fullkomnað þegar Jón Gnarr, verðandi borgarstjóri Reykjavíkur, verður búinn að setja upp tollahliðin við hreppamörk Reykjavíkur og Seltjarnarness. Lifi sjálfstætt Seltjarnarnes!
mbl.is Eftirlitsmyndavélar settar upp á Seltjarnarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða gos?

"Flogið yfir gosið" segir í fyrirsögn. Hvaða gos? Er ekki þessu gosi blessunarlega lokið í það minnsta í bili?  Eflaust fáum við fullvissu þegar búið verður að fljúga yfir gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli.
mbl.is Flogið yfir gosið fyrir hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinna makrílinn beint á neytendamarkað

Auðvitað þarf að koma þessari gúanóhugsun út úr makrílumræðunni og vinna þennan góða matfisk til manneldis. Það er gott til þess að vita að stórútgerðirnar ætli að gera það. Þær munu þó án efa fyrst og fremst frysta makrílinn til útflutnings þar sem hann er unninn frekar. Heitreyktur makríll er herramannsmatur og vinsæll víða. Þá er hann einnig vinsæll niðursoðinn og kryddaður. Við þá verkun eru tækifæri hér á landi. Litlar útgerðir sem koma til með að veiða makríl í einhverjum mæli hafa tækifæri á að fullvinna eða láta fullvinna makrílinn beint á neytendamarkað. Hornfirðingar hafa stigið skref í þessa átt og heitreykja nú bæði makríl og ál.

Gerum meira af því að fullvinna fisk á markað í stað þess að afla bara hráefnis fyrir aðrar þjóðir.

P1010043 

Hornfirðingar sýndu heitreyktan makríl á ferðasýningu í Perlunni


mbl.is Ætla að gera sér aukinn mat úr makrílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins eitthvað annað en krónutilboð

Mikið var að olíufélögin komu með einhver tilboð sem aðeins munar um en ekki þessa einnar krónu lækkun sem engu skiptir. Þegar ég var á ferð í Danmörku fyrir um mánuði sá ég að þar voru svona einnar krónu tilboð í gangi á milli stöðva eins og tíðkast hafa hér. Munurinn er bara sá að það munar um eina danska krónu á lítra en ekki um eina íslenska. Hér hefði afslátturinn þurft að vera 25 krónur á lítrann til að vera sambærilegur. Þannig að í þeim samanburði er þessi afsláttur nú lítill.
mbl.is Ódýrara bensín í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bætir kannski upp veiðileysið á sumargotssíldinni

Nú er um að gera að veiða nóg af vorgotssíldinni fyrst ekki mátti veiða sumargotssíldina sem fyllti alla innfirði Breiðafjarðar í haust og vetur. Hafró bar við sýkingu og því mætti ekki veiða. Nú ber hins vegar svo við að við Breiðafjörðinn hefur enginn orðið var við dauða síld eins og árið áður. Enn er hins vegar mikið af sprækri síld í Breiðafirði og segja kunnugir síldartorfur vera alveg inn í Kolgrafafjörð. Þá er síldarkökkur rétt utan Rifshafnar og þangað hafa strandveiðibátar verið að sækja stórþorsk steinsnar frá bryggjunni.

Allt þetta á ekki að vera til og hefur synt framhjá reiknilíkönum Hafró. Asskotans sporðurinn á þessum kvikindum er oft vísindunum til vandræða.


mbl.is Síldveiðar að hefjast hjá HB Granda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ef þetta sé íslenska þá...."

Ánægjulegt að hrefnuveiðarnar skuli hafnar og ekki vantar eftirspurnina eftir kjötinu. Auk þess er full þörf á að veiða þessar skepnur til að halda jafnvægi í hafinu.

Hvar eða hvort sá sem skrifaði þessa frétt hefur lært íslensku er ekki gott að segja. Leitun er að setningu eins og þessari í íslensku máli: "Eftir því sem best sé vitað sé þetta fyrsta hrefna sumarsins."


mbl.is Fyrsta hrefna sumarsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrátt fyrir atvinnuleysið

Atvinnuleysi hefur aldrei verið meira á Íslandi en samt hjóla fleiri í vinnuna en nokkru sinni fyrr. Hver ætli þátttakan hefði orðið ef fleiri Íslendingar hefðu haft vinnu?
mbl.is Aldrei fleiri hjólað í vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð frétt

Þetta er án efa ein jákvæðasta fréttin fyrir íslenskt efnahagslíf, sem sést hefur lengi. Það að einhver skuli hafa svo mikla trú á íslensku krónunni að sá hinn sami telji svara kostnaði að falsa fimm þúsund kall er verulega athyglisvert. Myndi t.d. einhverjum detta í hug að falsa 200 danskar krónur? - Þetta er í raun stórfrétt.
mbl.is Falsaður 5000 króna seðill í umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svæði A og D, hvað segir það lesendum?

Standveiðarnar eru hið besta mál og gott til þess að vita hve margir eru komnir til veiða. Þær færa líf í hafnir landsins og nóg er af fiskinum enda hefur komið í ljós að flestir er fljótir að fá skammtinn sinn. Þessi frétt er hins vegar óttalega klén og aðeins sagt að mest hafi verið sótt í leyfi á svæði A og D. Ekki er ég viss um að lesendur mbl.is viti almennt hvernig svæðaskiptingin er en hún er þessi samkvæmt reglugerð um strandveiðar:

  1. Eyja- og Miklaholtshreppur - Súðavíkurhreppur. Í hlut þess koma alls 1.996 tonn sem skiptast á þann veg að heimilt er að veiða allt að 499 tonn í maí, 599 tonn í júní, 599 tonn í júlí og 299 tonn í ágúst.
  2. Strandabyggð - Grýtubakkahreppur. Í hlut þess koma alls 1.420 tonn sem skiptast á þann veg að heimilt er að veiða allt að 355 tonn í maí, 426 tonn í júní, 426 tonn í júlí og 213 tonn í ágúst.
  3. Þingeyjarsveit - Djúpavogshreppur. Í hlut þess koma alls 1.537 tonn sem skiptast á þann veg að heimilt er að veiða allt að 384 tonn í maí, 461 tonn í júní, 461 tonn í júlí og 231 tonn í ágúst.
  4. Sveitarfélagið Hornafjörður - Borgarbyggð. Í hlut þess koma alls 1.047 tonn sem skiptast á þann veg að heimilt er að veiða allt að 419 tonn í maí, 366 tonn í júní, 157 tonn í júlí og 105 tonn í ágúst.

"Fréttin" á mbl.is er kópíeruð beint af vef Fiskistofu án nokkurra skýringa en eflaust vita flestir lesendur þess vefjar hvar svæði A og D eru. Meira að segja er hún kópíeurð með þeim villum sem þar eru eins og þessari: "Á þessari fyrstu viku héldu 321 bátur til veiða..." - Auðvitað átti þarna að standa "Í þessari fyrstu viku hélt 321 bátur til veiða."

Svona gerist þegar blaðamenn vinna ekki vinnuna sína og kópíera texta annarra. Enginn fjölmiðill, sem ætlar að vera vandur að virðingu sinni gerir þannig hluti.


mbl.is 407 komnir með leyfi til strandveiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband