Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Hvernig ætli hún hafi borið sig að við opnunina?

Þetta er án efa mjög athyglisverð ljósmyndasýning en textinn sem skrifaður er í fréttinni um hana er með eina af þeim villum sem mest hefur verið barist gegn síðustu áratugina. "Ljósmyndasýningin World Press Photo opnaði formlega í dag." - Auðvitað opnaði sýningin ekki. Hún var opnuð af einhverjum. Fyrirsögnin er í lagi en svo er villandi orðalag síðar í fréttinni um að  fréttaljósmynd ársins hafi verið tekin af breska ljósmyndaranum Tim Hetherington......hann hlýtur að hafa gert eitthvað merkilegt fyrst tekin var af honum mynd. - Betra er að segja að Tim Hetherington hefði tekið fréttaljósmynd ársins. 


mbl.is Sýningin World Press Photo opnuð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er rangt, kæru félagar!

Helsta viðfangsefnið í frétta- og blaðamennsku er að greina kjarnan frá hisminu og koma því á framfæri, sem skiptir máli. Þarna finnst mér fyrrum félagar mínir í Starfsmannasamtökum RÚV taka skakkan pól í hæðina. Af hverju að saka menntamálaráðherra, ríkisstjórn og Alþingi um að tryggja RÚV ohf ekki nægt fjármagn þegar ljóst er að yfirstjórn þessa ohf-apparats er að bruðla með peninga?

Nei takk, gömlu félagar. - Hvetjið stjórnendur til að taka til í eigin ranni. - Uppsagnir eru alveg óþarfar og allra síst utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem þörfin er mest fyrir starfsmenn Ríkisútarpsins til að það geti staðið undir nafni sem útvarp allra landsmanna. 


mbl.is Starfsmannafélag RÚV ályktar um uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki að taka til?

Í sjálfu sér eiga ákvarðanir Einars K. Guðfinnssonar um hámarksafla næsta árs ekki að koma á óvart. Þetta er nokkuð sem allir gátu búist við. Hins vegar þarf enginn að vera hissa á því að þeir sem eru í forystu fyrir sjávarútveg séu sárir og hissa. Hafrannsóknarstofnun virðist ekkert læra og greinilegt að þær aðferðir sem þar er beitt við að meta stærð fiskistofna ganga ekki upp. Það er nánast sama við hvern maður talar í dag sem tengist sjávarútvegi. Allir eru á einu máli um góðar aðstæður í hafinu við Ísland. Mikið æti virðist vera fyrir fiskinn og mikið af fiski. Þetta virðist að mestu leyti fiskur sem synt hefur framhjá reiknilíkönum Hafró. Það er kannski ekki hægt að ætlast til að sjávarútvegsráðherra hunsi þessa stofnun en hún þarf örugglega að taka til hjá sér. 
mbl.is Næsta ár verður erfitt fyrir sjávarútveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímur Atla fer "heim í Búðardal"

Nýr meirihluti sveitarstjórnar í Dalabyggð hefur ráðið Grím Atlason fyrrverandi bæjarstjóra í Bolungarvík í starf sveitarstjóra það sem eftir lifir kjörtímabils. Grímur hefur getið sér gott orð þann tíma sem hann var bæjarstjóri í Bolungarvík og kom ferskur inn í sveitarstjórnarmálin. - Nú er spurningin hvort þessi helsti innflytjandi tónlistarmanna hér á landi síðustu ár býður Dalamönnum upp á einhverja útlenda snillinga á hátíðinni "Heim í Búðardal" sem haldin verður 12. júlí. Grímur hefur störf tveimur dögum fyrr, 10 júlí og ef Rúnar Júl. og Ðe Lónlí Blú Bojs verða ekki með þennan fræga slagara Þorsteins Eggertssonar í Búðardal er tækifæri fyrir Grím. Hann hefur jú hljómsveit og leikkonu til aðstoðar, sem meira að segja söng með Hljómum í Liverpool á dögunum! -Skessuhorn

Fréttamenn vita hvað þessar uppsagnir hafa að segja

Í Félagi fréttamanna er fólk sem áttar sig á því hvað uppsagnir fréttamanna, ekki síst á landsbyggðinni, hafa að segja fyrir RÚV ohf. Stjórnendur þessa fyrirbæris, sem RÚV er, sjá ekki bjálkana í eigin augum en virðast einblína á flísarnar annars staðar. Vísa annars í fyrri bloggfærslu um þennan fáranlega sparnað hjá opinberu hlutafélagi sem gæti sparað sér þrjár til fjórar uppsagnir fréttamanna á landsbyggðinni með því einu að láta forstjórann sjá um að koma sér í vinnuna upp á eigin spýtur en ekki með lúxusbíl á kostnað landsmanna. 
mbl.is Stjórn fréttamanna skorar á stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert hjá útvarpi allra landsmanna

Það er athyglisvert að af 8 beinum uppsögnum hjá útvarpi allra landsmanna er helmingurinn hjá svæðisstöðvunum á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri. Nú skyldi maður ætla að ein helsta ástæðan fyrir Ríkisútvarpi væri að vera í tengslum um land allt. Svæðisstöðvarnar hafa, allt frá stofnun, gegnt miklu hlutverki og jafnvel miklu meira hlutverki en fólk og jafnvel stjórnendur í nýja ohf-inu hafa gert sér grein fyrir. Þar starfar fólk sem þekkir til viðkomandi svæða. Þar starfar fólk sem er í tengslum við íbúana á svæðinu og þar starfar fólk sem leggur mjög mikið til dagskrár RÚV, bæði með fréttum og öðru efni. - Það að stjórnendur RÚV ohf sjái þá einu leið til sparnaðar að segja upp fólki er í raun ótrúlegt. - Útvarp er ekkert annað en fólkið sem starfar þar. Í öllu þessu batteríi í Efstaleitinu er örugglega hægt að finna jafn mikinn sparnað með öðrum leiðum en uppsögnum. - Útvarp allra landsmanna stendur ekki eins vel undir nafni eftir þessar aðgerðir. 
mbl.is Mótmæla samdrætti í starfsemi Ríkisútvarpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband