Einræðið er algjört
1.10.2008 | 07:04
Jón Ásgeir þekkir auðvitað betur en nokkur annar rætni og langræki Davíðs Oddsonar enda hefur Davíð ásamt meðreiðarsveinum gert árangurslausar tilraunir til að klekkja á Jóni og hans fjölskyldu í áraraðir. Davíð og dómsmálaráðherra voru auðvitað ábyrgir fyrir því að hundruðum milljóna var veitt af fé ríkisins í vita vonlausan málarekstur í mörg ár. það virðist nokkuð ljóst að Davíð hefur stillt forsvarsmönnum Glitnis upp við vegg, það kemur ekki bara fram hjá Jóni Ásgeiri heldur kom það líka fram hjá Þorsteini Má Baldvinssyni. Davíð virðist líka hafa verið búinn að ákveða allt áður en forsvarsmenn annarra stjórnmálaflokka komu að málinu. Það leyndi sér ekki á viðskiptaráðherra í gær. Greyið skalf og titraði eftir að hafa fylgst með Jóni Ásgeiri og Máa í sjónvarpi. Það er með ólíkindum að í ríki sem talið er lýðræðisríki skuli ákvarðanir, geðþótti og rætni eins manns ráða svo stórum gjörðum sem þessari. Einræðið er algjört.
Jón Ásgeir: Sagði að þetta yrði feigðarför | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvernig er það eru allir búnir að gleyma hvað Glitnir gerði við Mest fyrir ekki svo löngu. Það var allt í lagi eða hvað...
ÖSSI, 1.10.2008 kl. 07:41
Hef ekki hugmynd um það, þekki ekki það dæmi, en án efa hefur Glitnir ekki, síður en önnur fjármálafyrirtæki, komið að ýmsu misjöfnu. Það er hins vegar öllu alvarlegra þegar æðsti embættismaður ríkisins, getur í skjóli, valdsins og án þess að alþingi fjalli um málið tekið svo stórar ákvarðanir. Annars komi mér ekki á óvart að Glitnismenn reddi sér út úr þess án þess að ríkið komi að þessu og bjargi þannig andliti ríkisstjórnarinnar, andlit Davíðs verður þó áfram svart af reiði og hefndahug.
Haraldur Bjarnason, 1.10.2008 kl. 07:48
hvernig getum við sett Davíð af?
Hólmdís Hjartardóttir, 1.10.2008 kl. 08:30
Minni á að Glitnir fór til Seðlabankans í leit að hjálp. Glitnir samþykkti þessa úrlausn mála. Hversvegna sögðu þeir ekki bara nei takk og fóru svo út og redduðu þessu á annan hátt? Þeir koma svo eftirá og segja að þeir hefðu alveg getað reddað þessu. Þetta er nú ekkert flókið þetta verður bara fellt á hlutafafundi Glitnis og málið er úr sögunni hvað ríkið varðar. Ríkið er að koma sparifjáreigendum til bjargar með þessum aðgerðum en ekki auðmönnum.
Það er alveg á hreinu að það hefði ekki verið rétt að lána þessa upphæð til Glitnis til að þeir geti haldið áfram ruglinu. Þessi upphæð hefði dugað í 2-3 mánuði og þá hefði annað lán fallið á Glitni og þeir komnir í sömu stöðu aftur og ríkið búið að tapa 84 miljörðum.
Minni líka á þá óráðsíu sem verið hefur á bankanum í gegnum árin. 300 miljónir til núverandi bankastjóra fyrir það eitt að hefja störf og síðan 900 miljónir til fráfarandi bankastjóra og svona mætti lengi telja...
Þetta er ekkert ósvipað og Glitnir kom fram við Mest í sumar. Mest sóttist eftir láni þar sem þeim vantaði lausafé. Glitnir brást við með því að yfirtaka þá hluta af Mest sem voru að skila arði og skipta félaginu upp í tap og gróða. Skildu eftir allar skuldir en tóku gróðann.
Ég er bálreiður út í þessa menn og mér finnst ríkið vera að gera þessum mönnum mikinn greiða því að öðrum kosti hefðu þeir tapað öllu. Nú er lánshæfismat ríkisjóðs orðið lægra eftir þetta og því dýrara fyrir ríkið að taka lán allt Glitni að kenna. Síðan leyfa þessir menn sér að kvarta....
En eins og ég sagði fyrr þá verður þetta væntanlega fellt á hlutafafundi glitnis og málið verður úr sögunni...
ÖSSI, 1.10.2008 kl. 08:35
,,,og það á alveg eftir að ræða um málið í Alþingi... Davíð gleymdi því að hann er ekki einræðisherra. Það er fnykur af þessu máli öllu.
Hólmdís Hjartardóttir, 1.10.2008 kl. 08:44
á Alþingi
Hólmdís Hjartardóttir, 1.10.2008 kl. 08:45
Erum við öll viss um að allur sannleikurinn hafi verið sagður? Mikið óskaplega grunar mig að ekki hafi verið sagt frá öllu og því erfitt að mynda sér skoðanir.
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 09:22
Eru allir að gleyma því að Davíð ákveður þetta ekki einn og sér þetta er samþykkt af allri ríkisstjórninni. Málið var bara þess eðlis að það gat ekki beðið lánin voru að falla og ef lánin hefðu fallið þá gæti sá lánadrottinn leyst til sín bankann og ekki hefðum við viljað það. Þetta er björgunaraðgerð við skulum ekki gleyma því......
Auðvitað er þetta ekki gott en ég held að þetta sé það besta sem hægt var að gera í stöðunni. Menn halda þó 25% eftir af eignum sínum en ekki 0% eins og stefndi í.
ÖSSI, 1.10.2008 kl. 09:29
Ekki eru þeir sammála þér Glitnismenn Össur
Hólmdís Hjartardóttir, 1.10.2008 kl. 09:38
Komum öll á Austurvöll eftir hádegi í dag, mætum þessum mönnum á þeirra heimavelli og sýnum þeim viljann í verki. Tonn af fiðri og þúsund lítra af tjöru takk!
Guðmundur Ásgeirsson, 1.10.2008 kl. 09:38
Nei það er ekki von að Glitnismenn séu mér sammála enda eru þeir að tapa peningum. Menn virðast halda að ef þeir eru í "bissness" þá geti þeir ekki tapað...það hefur oft átt við hér á Íslandi að hagnaður er eikavæddur en tap er sett á þjóðina..þannig hefði það farið ef Seðlabankinn hefði lánað Glitni þessa peninga.
Ég vona svo sannarlega að Glitnir nái að fjármagna sig að nýju og ekki komi til þess að ríkið þurfi að reiða fram 84 miljarða af almannafé til að bjarga bankanum. Ég er ekki heldur sáttur við það...
Hverju ætla menn svo að mótmæla?
Síðan er ég svo heppinn að heita ekki Össur heldur Össi...:)...en það er annað mál...
ÖSSI, 1.10.2008 kl. 09:54
Fyrirgefðu Össi
Hólmdís Hjartardóttir, 1.10.2008 kl. 10:02
Glitnir á ekki skilið að ríkið láni þeim krónu. Þessi redding er bara vegna þessa að það kæmi sér enn verr fyrir okkur ef bankinn færi á hausinn. Ég skil ekki af hverju fólk er að vorkenna millum sem eru að fara á hausinn. Íslensk bankastarfsemi er gæpastarfsemi og þeir eiga enga vorkun skylið. Hvergi annarstaðar í evrópu þekkjast jafn slæm lánakjör. Og ég man ekki betur en að skýring ofurlaunanna væri mikil ábyrgð. Þurfa þeir að standa undir henni sem fengu þessi ofurlaun. Nei ég held ekki.
Óli (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 10:44
Óli minn, það er nú bara þannig að það er aðalhlutverk Seðlabanka að greiða úr lausafjárskorti banka í landinu. Það er nákvæmlega það sem er að þarna og á sama tíma og seðlabankar um allt eru að slaka á veðkröfum til bankanna hjá sér þá herðir þessi þær, það virðast allir á einu máli um að eiginfjárstaða Glitnis hafi verið mjög góð og þar með tryggingar fyrir láni því sem farið var framá. Vinnubrögðin eru með hreinum ólíkindum, enda sjáum við hvernig umheimurinn er að meta þau, hér er allt að fara á hliðina, endanlega, þannig er þetta metið af þeim sem við þurfum að treysta á í kringum okkur.
Og enn versna lánakjörin með þessum gjörningi svo það er ekki mikil von um að almenningur sjái til sólar þar. Ég ætla að taka undir með þeim sem vona að Glitnismönnum takist að finna aðra lausn á vandanum en þessa Davíðsþvælu.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 1.10.2008 kl. 11:11
Auðvita hefði seðlabankinn átt að lána Glitni, allavega á meðan þeir myndu leita annara ráða til að leysa lausafjársstöðuna, og eftir það hefði ríkið þá geta keypt hlut ef illa færi. En að mínu mati hefur það nú alltaf verið býsna augljóst að Davíð ræður öllu, ríkistjórnin virðist vera peð í hans höndum og fara eftir öllu því sem hann segir.
Þetta er bara persónulegur ágreiningur/ofsóknir hjá Davíð í garð Jóns Ásgeirs.
Andrir (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 12:06
Það verður að finna ný vistunarúrræði fyrir DO
Hólmdís Hjartardóttir, 1.10.2008 kl. 12:23
Örstutt og laggott.....árinni kennir illur ræðari....Hlusta ekki á þetta Davíðs rugl...
ÖSSI, 1.10.2008 kl. 12:23
Össi ég er alveg sammála þér um ofurlaunin hjá bankastjórum og allt það en minni þó á að Þorsteinn Már tók til í þeim efnum þegar hann varð stjórnarformaður, lækkaði fyrst laun stjórnarformanns um helming og svo fylgdu aðrir yfirstjórnendur í kjölfarið, meira að segja Lárus Welding, enda máttu þeir örugglega alveg við því að missa eitthvað af þeim. Nú snýst málið um alvarlegri hlut. Æðsti stjórnandi peningamála í landinu, sem ekki er forsætisráðherra, ekki fjármálaráðherra, ekki viðskiptaráðherra og ekki kjörinn af almenningi eins og allir alþingismenn og ráðherrar, er að stilla mönnum upp við vegg, bæði Glitnismönnum og þingmönnum. Allt virðist hafa verið planað af honum og fátt til varna hinum megin borðs. Það er þetta einræðisdæmi sem ég gef skít í. Davíð hafði minni völd sem forsætisráðherra, þar hafði hann þó neitunarvald forseta yfir höfði sér. Það leikur nú vafi á því hvort þessi gjörningur var löglegur og við skulum sjá hvað setur. Alþingi kemur saman á eftir og það verður fróðlegt að fylgjast með umræðum þar. Davíð er nefnilega ekki árin í þessu tilfelli. Hann er lélegi ræðarinn eins og betur og betur er að koma í ljós. Allt í hers höndum þrátt fyrir hans aðgerðir.
Haraldur Bjarnason, 1.10.2008 kl. 12:48
Það er ekki hægt að bera saman MEST og Glitni. Hjá MEST var allt eigið fé löngu uppurið og fyrirtækið í molum. Hjá Glitni er eiginfjárstaðan mjög góð, gæði eigna góð og reksturinn sjálfur í fínu lagi. Það eina sem vantar er lausafé og það er lögbundin skylda Seðlabankans að vera bakhjarl bankanna um lausafé.
Athugið líka að Glitnir fór til Seðlabankans og bað um lausafé. Þeir voru tilbúnir að veita veð í 200milljarða íbúðalánasafni sínu sem ætti að vera nokkuð öruggt fyrir Seðlabankann. Lögum skv. ber þeim skylda til að tilkynna það á markaði að þeir hafi beðið um aðstoð, hvort sem þeir síðan fá hjálp eða ekki. Af þeim sökum var Glitnir kominn upp að vegg, því innistæðueigendur hefðu gert áhlaup á bankann ef bankinn hefði tilkynnt um hjálparbeiðni sem Seðlabankinn hefði neitað.
Einföldum dæmið aðeins. Einstaklingur á hús fyrir 40 milljónir, skuldar í því 20 milljónir hjá Íbúðalánasjóð og er í góðri vinnu. Viðskiptabanki viðkomandi fer á hausinn og innistæður frystar þannig að hann á ekki fyrir afborgun næsta mánaðar. Þegar viðkomandi tala við ÍLS og biður um greiðslufrest á einni afborgun er straujað yfir manninn, húsið tekið upp í skuldir á 20 millur og manninum hent út. Hvað varð eiginlega um þessar 20 milljónir sem skuldarinn átti í hreina eign?
Ég hefði ekki setið undir því að missa húsið á 20 milljónir og hefði því frekar selt það næsta manni á 30 milljónir og bjargað því 10 milljónum af mínu eiginfé. Býst við að Glitnismenn geri eitthvað svipað. Nýtt hlutafé eða eignir á útsölu. Tel útilokað að þeir samþykkji þetta tilboð Seðlabankans. Nú vinna þeir að því að undirbúa mótspil og sem verður spilað út á hluthafafundinum. Lokafresturinn verður 15.okt þegar lánið fellur á þá.
Maelstrom, 1.10.2008 kl. 16:28
Jú jú það er hægt að líta á þetta með þessum augum rétt eins og á alla hluti þá er hægt að sjá þá á tvo vegu. Ég sé þetta ekki svona og vil ekki trúa því að öll ríkisstjórnin láti þetta yfir sig ganga. Þetta var jú samþykkt í þingflokki samfylkingarinnar í dag. Þetta hefur verið að gerast um allan heim að seðlabankar taka yfir banka með húð og hári. Nærtækt dæmi í USA nýlega. Þar tapa hluthafar öllu.
Seðlabankinn sem lánveitandi mat það þannig að þau veð sem Glitnir lagði fram væru ekki þessleg að hægt væri að taka þessa áhættu með að lána þeim 84 miljarða sem myndi duga þeim í 2-3 mánuði. Ég get síðan nákvæmlega ekkert sagt til um það hver ákvað hvað þarna inni á þessum fundi í Seðlabankanum. Það liggur þó fyrir að bankinn er búinn að koma sér sjálfur í þessa aðstöðu með fjárfestingastefnu sinni undanfarin ár.
Núverandi stjórnarformaður hefur án vafa gert mjög góða hluti þarna inni í tiltekt og öðru og því leiðinlegt að hann skuli lenda svona illa í þessu.
Er nokkuð annað sem gerst en að menn bara fella þetta á hluthafafundi og fara aðrar leiðir. Mér hefur heyrst að margar aðrar leiðir séu færar. Síðan er ekki útilokað að aðrir komi inní þetta.
Af öllum kostum illum þá held ég að þessi hafi þó verið skárstur fyrir íslensku þjóðina...En hvað veit ég...hef í raun ekki hundsvit á fjármálum en þetta er svona eins og ég upplifi þetta..
ÖSSI, 1.10.2008 kl. 16:33
Tökum Lehman Brothers sem dæmi. Þeirra vandamál var niðurfærsla eigna en ekki lausafjárvandi. Þeir þurftu að færa niður svo mikið af undirmálslánum að þeir voru komnir í þrot.
Bankarnir sem eru að fara á hliðina eru líklega meira í eiginfjárvandræðum frekar en lausafjárvandræðum. Ef um lausafjárvanda er að ræða þá fá þeir hjálp hjá sínum Seðlabanka. Seðlabankar í Evrópu og USA eru farnir að taka við hlutabréfum sem tryggingum til að útvega bönkum lausafé þannig að erlendir bankar eru í mun betri stöðu en þessir íslensku. Hér á Íslandi er ekki einu sinni tekið við íbúðalánum, hvað þá hlutabréfum.
Maelstrom, 1.10.2008 kl. 16:44
Ég myndi ekki kokgleypa svona massívan áróður frá FL-"ENRON" nú Stoðir genginu sem beita öllum brögðum til að losna úr þessari klemmu. Tel að efnahagsástandið væri mun verra ef Glitnir færi í þrot.
Í raun tel ég að fall krónunnar á rætur að rekja til gríðarlegs fjárlagahalla á Fjárlögum sem ennþá rýrir trú aðila á krónunni. Illt að hafa ekki þrek til að hafa hallalaus fjárlög á þessari ögurstundu íslensks efnahags.
Vandamál Íslendinga er gríðarleg skuldasöfnun einstaklinga og fyrirtækja og ríkisstjórnir sem hefur verið of ragar að slá niður þessi þennsluáhrif.
Glitnir banki hafði ekki rekstrarfé og getur ekki fjármagnað sig. Eigendur eru kolskuldsettir og eru að komast í þrot. Að lána þessu "liði" gjaldeyrisforða Íslands á þessum tíma er óráðlegt að flestra mati og aðgerð Seðlabankans eftir bókinni. Þið eruð væntanlega búinn að sjá FL-group myndböndin á YouTube sem sýnir aðferðir þessara "fjármálasnillinga"
http://www.youtube.com/watch?v=nQygPZZqg_M
http://www.youtube.com/watch?v=ryzSRYK4Pec
Ég hef nú aldrei verið neinn aðdáandi Davíðs Oddsonar en mér blöskrar þetta hann kemur sem sá eini sem þorir að standa á bak við nauðsynlegar aðgerðir en ríkisstjórnin skýli sér á bak við hann og Samfylkingin hún þorir ekki að opna munninn, ...svei attan. Þessa ímynd kokgleypir síðan þjóðin.Gunn (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 22:10
Ekkert flókið gunn. (hver sem þú ert?) Síðasta málsgreinin segir eflaust allt sem þú villt segja. Ef svo er, erum við sammála en skil ekki aðrar vangaveltur. Þær eru svo langt frá því sem ég sagði hér í upphafi. Takk fyrir samt.
Haraldur Bjarnason, 1.10.2008 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.