Hvers vegna að púkka upp á Reykjavikurhrepp?
29.7.2008 | 23:41
Hvernig er hægt að átta sig á þessari hreppsnefnd Reykjavíkurhrepps. Hún er út og suður í málefnum Listaháskóla Íslands. Er ekki bara ráð fyrir aðrar hreppsnefndir þessa lands að bjóða Listaháskólann velkominn með þessa teikningu. Háskólar eru ekki bara bygging, þeir eru samfélag fólks og því þarf að líða vel. Háskóli getur aldrei gengið þar sem fólk er óvelkomið. Það er góð reynsla af háskólasamfélögum annarsstaðar á landinu, Bifröst, Hvanneyri, Akureyri, Hveragerði, háskólasetur á Egilsstöðum og svona mætti lengi telja. Oddviti sjálfstæðismanna í hreppsnefnd Reykjavíkur er greinilega ekki á sama máli og sveitarstjórinn þar. Er ekki bara rétt fyrir Björgólf og Listaháskólann að segja skilið við Reykjavíkurhrepp, bjóða sveitarstjóranum lóðina til kaups fyrir einhver kofatildur sem honum eru kær og kaupa aðra lóð annarsstaðar. Ég er viss um að það eru til góðar lóðir fyrir þetta hús hér á Akranesi, til dæmis. - Hvers vegna að púkka upp á Reykjavíkurhrepp?
Sjónarhorn beggja verði virt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einmitt..þessi skóli gæti " am besten"..verið hvar sem er....góð hugmynd að færa hann út á land....og helst til Húsavíkur!!!!!!!!!!!
Hólmdís Hjartardóttir, 30.7.2008 kl. 02:56
Hver talar um að nemendur og starfslið skólans sé óvelkomið í Reykjavík? Er skólinn ekki búinn að vera starfræktur í Reykjavík frá stofnun hans og allir verið velkomnir? Þú ert að misskilja þetta eitthvað eða þá að þetta eru mjög óvönduð skrif hjá þér Haraldur. Einnig er sorglegt þegar fólk talar niður til þess sem því er persónulega ekki annt um eins og gamalla húsa og hlýtur það að skrifast á óvirðingu og dónaskap. Þú mátt átta þig á því að stór hópur Íslendinga er fæddur og uppalinn í slíkum húsum og enn búa mjög margir í slíkum "kofatildrum" eins og þú kallar þau og halda þeim vel við borginni og borgarbúm flestum til sóma og yndisauka nema kannski þér og þeim sem kjósa að kalla slík hús hinum ýmsu niðrandi nöfnum.
Það sem oft virðist gleymast í þessari umræðu er að í miðbænum býr fólk sem aðhyllist það byggðarmynstur sem þar er og einkennist af þessum 18. og 19. aldar arkitektúr. Það hlýtur að teljast óeðlilegt að ætla að hreinsa enn fleiri slík hús úr miðbænum til að hliðra til fyrir byggingum sem ekki passa inní það umhverfi og geta eins og þú segir réttilega verið hvar sem er án þess að orka tvímælis. Af hverju í ósköpunum þarf að ráðast á elstu byggð borgarinnar sem nú þegar á undir högg að sækja? Ég er t.a.m. viss um að það þætti skjóta skökku við ef fram kæmi tillaga þess efnis að rífa Mjóddina og hluta neðra-Breiðholts til að rýma fyrir nýju hverfi sem yrði búið til úr gömlum flutningshúsum úr miðbænum.
Þeir sem vilja ekki sjá gömul hús þurfa ekkert að sjá gömul hús og það er mjög óréttlátt að ætlast til þess að miðbænum verði breytt í enn eitt úthverfið með verslunarmiðstöð á kostnað sögulegra bygginga og byggingarsögu borgarinnar og þeim sem heillast af slíkum byggingarstíl og umhverfi til mikils ama.
Sveinn Sigurður Kjartansson, 30.7.2008 kl. 03:17
Þegar húsum hefur ekki verið haldið við í mörg ár eða áratugi þá verða þau að kofatildrum. Þessi hús hefðu verið vel boðleg hefði þeim verið haldið við en að fara um Laugaveg og Herfisgötu og sjá þessi hús er 0murlegt og miklu nær að fjarlægja þau. En Svein mér sýnist þú ekki vilja þennan listaháskóla þarna og því er mjög eðlilegt að fara með hann eitthvað annað. Þetta þarf ekkert að vera bundið við Reykjavík. Ef það verður gert þá fá gömlu húsin að vera í friði og breytast væntanlega úr kofatildrum í hús á ný. Ég hef ekkert á móti gömlum húsum, síður en svo. Mér finnst þau falleg svo framarlega sem hugsað er um að halda þeim við.
Haraldur Bjarnason, 30.7.2008 kl. 07:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.