Aðrar reglur á höfuðborgarsvæðinu en við Kárahnjúka

Hef verið að velta því fyrir mér undanfarna daga hve viðbrögð yfirvalda eru misjöfn og virðist þá ekki sama hvaða málum er verið að taka á. Í þessu tilfelli eru það viðbrögð opinberrar stofnunnar; Vegagerðarinnar og hins vegar lögreglu.

Í umfjöllun um úrbætur á Reykjanesbrautinni hefur greinilega komið fram hjá vegamálastjóra og samgönguráðherra að erfitt hafi verið um vik að halda áfram framkvæmdum þar eftir að verktakinn við tvöföldun vegarins fór á hausinn. Útboðsferli sé þungt og taki langan tíma en lög krefðust þess að verkið yrði boðið út aftur.

Nú vill svo til að annað verktakafyrirtæki fór á hausinn fyrir stuttu, illu heilli. Það vann við virkjunarframkvæmdir á hálendinu, hluta af Kárahnjúkavirkjun. Þá þurfti ekkert útboðsferli og framkvæmdum var haldið áfram. Hin opinbera stofnun, Landsvirkjun, stofnaði bara Hraunaveitu ehf og hélt afram við verkið, sem betur fer fyrir starfsmenn á staðnum. Af hverju stofnaði opinbera stofnunin Vegagerðin ekki bara Reykjanesbraut ehf og hélt áfram við verkið, öllum til heilla?  - Sennilega hefur það ekki verið talið eins brýnt verkefni og hliðarveita við Kárahnjúkavirkjun.

Annað dæmi þessu tengt er viðbúnaður lögreglu við mótmælum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Ekki dugði minna en að senda víkingasveit, gráa fyrir járnum, austur á hálendið með tilheyrandi kostnaði þegar nokkrir mótmælendur mættu þangað með spraybrúsa og komu sér fyrir í tjöldum. Ekki máttu þessir krakkar heldur labba eftir Snorrabrautinni í mótmælagöngu, það var of mikilvæg tengibraut í henni Reykjavík og lögregla skarst í leikinn. Nú hafa trukkabílstjórar trekk í trekk stöðvað umferð á miklum stofnbrautum höfuðstaðarins og lögregla sýnir stillingu, sem eðlilegt getur talist.

Ekki svo að skilja að ég vilji að hart verði tekið á vörubílstjórunum, síður en svo. Mér finnst bara áherslurnar í yfirstjórninni, svolítið skrítnar og mat á aðstæðum þverstæðukennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband