Eru kvótalausir þá aflögufærir?

Það er í sjálfu sér virðingarvert hjá bæjaryfirvöldum og verkalýðsfélaginu á Akranesi að kalla eftir svörum frá forsvarsmönnum HB-Granda og fá skýringar. Spurt er af hverju önnur skip, sem ekki eru í eigu fyrirtækisins, veiða á áttunda þúsund tonna af fiski, sem HB-Grandi hefur til afnota úr sameiginlegum fiskistofnum landsmanna. Fyrirtækið var jú svo aðþrengt eftir niðurskurð á aflaheimildum að það varð að segja upp fjölda starfsmanna sinna á Akranesi. Eitthvað virðist það þó, samkvæmt þessu, vera aflögufært og kannski hefði verið eðlilegt hjá því að skila þessum aflaheimildum aftur til eigandans, þjóðarinnar, en þannig gerast ekki kaupin á eyrinni í dag.

Það má vel vera að einhverjar "eðlilegar" skýringar komi frá HB-Granda, ef hægt er að tala um eitthvað eðlilegt í þessum efnum. Forsvarsmenn fyrirtækisins þurfa svo sem ekkert að svara þessu. Þeim ber engin skylda til þess, nema ef vera kynni siðferðileg, en ekki hefur mikið farið fyrir svoleiðis löguðu, þegar kvóti og peningar eru annars vegar. Svona er bara staðan í sjávarútvegsmálum. Eign landsmanna hefur fyrir margt löngu verið "gefin" útvöldum og þar gengur hún kaupum og sölum, hvað sem hver segir. - Akranes og HB-Grandi eru síður en svo einsdæmi í þessum efnum.


mbl.is Óska skýringa frá HB Granda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband