Braskararnir finna alltaf leiðir
21.10.2009 | 21:15
Kvótinn var á sínum tíma tengdur byggðunum. Sveitarstjórnir þurftu að samþykkja flutning kvóta úr sveitarfélögum. Braskararnir fundu auðvelda leið fram hjá því og keyptu ekki bara skip og kvóta heldur fyrirtækin í heilu lagi. Höfðu þau áfram skráð í viðkomandi byggðarlagi og fóru á burt með skip og kvóta. "Guggan verður alltaf gul," sagði Mái þegar hann keypti flaggskip Ísfirðinga. Allir vita framhaldið. Jón Bjarnason nefnir allskonar útgáfur af veiðikerfum. Eftir því sem kerfin verða flóknari því mun meira eftirlit þarf og það kostar mikið.
Það á að auka þorskkvóta strax um 100 þúsund tonn. Stofnarnir þola það vel. Hafró er nú að setja met í skyndilokunum á smáfisk og það fyrir línuveiðum. Það skyldi þó ekki vera að fiskurinn sæki svo mikið á línuna vegna þess að hann vantar æti? Í það minnsta sækjast sjómenn ekki eftir að veiða smáfiskinn, kvótinn er of verðmætur til þess. Þeir hjá Hafró trúa því enn að hægt sé að geyma fiskinn í sjónum þar til hann stækkar. Þetta hefur verið gert í 25 ár og allir vita árangurinn. Nú vernda þeir líka sýkta síld, væntanlega bíða þeir eftir að henni batni. Auðvitað er skynsamlegast að veiða hana í bræðslu frekar en láta hana drepast engum til gagns.
Frjálst framsal kvóta og veðsetningar hans eru meinið. Meðan stóru útgerðirnar eru með kvótann veðsettan í botn vilja þær ekki aukinn kvóta. Þá lækkar kvótinn í verði og um leið veðhæfni útgerðanna. Hafró spilar svo með enda vilja menn ekki styggja LÍÚ þar á bæ.
Kvóti verði tengdur byggðunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Allt saman óhrekjandi staðreyndir. Og nú eru stjórnvöld búin að eyða dýrmætum mánuðum og ógnarfjármunum í að tryggja okkur framhaldslíf hjá böðlum IMF. Þeir eru orðnir býsna mjúkir á manninn og hafa á orði að kannski styttist nú í næsta konfektkassann í formi lánafyrirgreiðslu. Upphæðin er hrikaleg- svona helmingur þeirra verðmæta sem við gætum veitt með góðu móti ef Hafró réði ekki á Íslandi.
Árni Gunnarsson, 21.10.2009 kl. 22:51
Öngvu viturlegar við þetta bætandi...
Steingrímur Helgason, 21.10.2009 kl. 23:49
sammála að öllu leiti- svo er bara sorglegt að horfa upp á flokk útgerðarmanna,sjálftökuflokkinn, þæfa um einhver störf í stóriðju í stað þess að þjóðin fái að nýta fiskimiðin og bætt yrði við þorsk,ýsu og ufsa sem aðrir en félagsmenn LIU eigi sjálftökurétt á,þar mundu skapast störf og tekjur sem munaði um í núverandi ástandi.
zappa (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 02:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.