Fróðlegur ísbjarnarblús
4.6.2008 | 17:01
Þessi ísbjarnarblús er að mörgu leyti búinn að vera fróðlegur og talað við marga vísa menn. Að vísu ber ekki dýralæknunum öllum alveg saman um hvað hefði verið hægt að gera í þessu tilfelli. Kannski aðeins áherslumunur þar. Það sem hins vegar stendur upp úr virðist vera að engin viðbragðsáætlun er til og jafnvel hefur eitthvað brugðist í hafíseftirlitinu.
Um þetta er hins vegar erfitt að dæma og það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. Svona skepna í þokukenndri fjallshlíð er ekkert lamb að leika við og ekki tími til að leyfa henni að valsa um meðan beðið er ráðlegginga. Svo virðist nú líka vera að ísbirnir hér á landi séu ekki alfriðaðir og ekki úr stofni í útrýmingarhættu. En bangsi náði ekki að skaða neinn þrátt fyrir að tími puttalinga og annarra ferðamanna sé kominn. Hann ætti líklega ekki í vandræðum með einn slíkan, jafnvel þó með bakpoka og reiðhjól væri.
Yfirdýralæknir: Rétt ákvörðun hjá lögreglu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það átti auðvitað ekki að skjóta hann, dýralæknirinn á Austurlandi segist hafa getað svæft hann. Gott að þú ert kominn aftur. Til hamingju með dótturina.
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 4.6.2008 kl. 18:32
því miður held eg að ekkert hafi verið annað í stöðunni en að fella hann
Hólmdís Hjartardóttir, 4.6.2008 kl. 18:52
Eftir því sem upplýsingarnar streyma sýnist manni ekkert annað hafa verið í stöðunni en fella björninn. - Elma, það var greinilega enginn tími til að bíða eftir Hirti dýralækni til að skjóta deyfilyfjum í bangsa. Ég efast ekki um að hann hefði verið færastur til þess og líklega sá eini á landinu, sem hefur þekkingu og reynslu í svona verk.
Haraldur Bjarnason, 4.6.2008 kl. 19:35
Ég skal ekki dæma um það, hvað best hefði verið að gera í stöðunni, en það hryggir mig samt, að þetta er dýr, í mikilli útrýmingarhættu.... og þetta var ungt dýr, sem hefði getað gotið af sér einhver afkvæmi..... Svo þannig séð, finnst mér þetta ömurlegt, en á hina hliðina litið, þá vildi ég sko alls ekki að þetta dýr hefði étið eitthvað af okkar börnum.... eða mönnum og konum.
Lilja G. Bolladóttir, 5.6.2008 kl. 02:18
Mér sýnist að menn hafi nú farið nokkuð framúr sér í þessari umræðu og oft á tíðum rætt þessi mál meira af tilfinningu en skynsemi. Ekki var annað hægt að skilja á Álfheiði Ingadóttur, á stöð 2, en að þarna hefði verið um lítið og sætt dýr að ræða sem hefði verið í nauðum statt (rétt eins og köttur sem þarf að hjálpa niður úr tré). En þarna var um að ræða villt dýr, eitt af hættulegustu dýrum jarðarinnar) um 200 kg ísbjörn, sem er stórhættulegur mönnum og dýrum. Það var ekki til neinn áætlun til að fara eftir við svona aðstæður, af hálfu Umhverfisráðuneytisins, engin stjórn virtist vera ásvæðinu því ef myndir eru skoðaðar þá var þarna fullt af fólki sem var bara að skoða bangsa. Og þó svo að bangsi hefði verið svæfður þá eru mjög litlar líkur á því að leyfi hefði fengist til að flytja hann til Grænlands eða Svalbarða, svo sennilega hefðum við setið uppi með hann og kannski hefði hann hvort eð er bara drepist. Ég fór til Grænlands fyrir nokkrum árum og var þar sögð saga af því að veiðimenn fóru í fjörð nokkru norðan við þann stað þar sem heilsársbúseta var, þarna voru menn í mánaðartíma við veiðar þarna var mikið um sel og mikill fiskur í á í botni fjarðarins. Þarna höfðu veiðimenn reist veiðihús, það var rammgert og hafði staðið þarna í nokkur ár. Eftir veiðitímann var svo húsið yfirgefið að venju en það hafði gleymst í því selsskinn. Þarna kom að svangur ísbjörn og fann hann að sjálfsögðu lyktina af selskynninu og til að komast inn og ná selnum sem hann hélt að væri innandyra reis hann upp á afturlappirnar og barði á húsinu með "hrömmunum" þar til húsið gaf sig og hann hreinlega eyðilagði það. Þessi saga segir okkur hvað þessi dýr eru ofboðslega kröftug og ég er ekki í nokkrum vafa um að sú ákvörðun að fella dýrið var sú eina rétta.
Jóhann Elíasson, 5.6.2008 kl. 15:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.