Hraðakstur á Seyðisfirði kannski upp á Jökuldalsheiði

Rakst á stutta frétt í Fréttablaðinu í dag í dálkinum: Lögreglufréttir. Fyrirsögnin var: Hraðakstur á Seyðisfirði. Í fréttinni er svo sagt frá því að lögreglan á Seyðisfirði hefði tekið 6 ökumenn fyrir of hraðan akstur í umdæmi sínu. - Þar liggur hundurinn grafinn. Ekki er víst að einn einasti þeirra hafi verið tekinn fyrir hraðakstur á Seyðisfirði, eins og fyrirsögnin kveður á um. Umdæmi lögreglunnar á Seyðisfirði nær yfir talsvert stærra landssvæði en þetta 800 manna bæjarfélag. Það nær um allt Fljótsdalshérað, Borgarfjörð eystra, inn á hálendið norðan Vatnajökuls, norður á Vopnafjörð og um fjöllin allt að Biskupshálsi, þar sem umdæmi lögreglunnar á Húsavík tekur við. - Ekkert smá flæmi það og svona er þetta orðið víðar um land eftir sameiningar liðinna ára.

Allar þessar sameiningar lögregluumdæma og sameiningar sveitarfélaga líka hafa svo orðið til þess að ónákvæmni gætir oft í fréttaflutningi. Menn eru gjarnir á að ofnota nýju sveitarfélaganöfnin og sleppa gömlum og grónum staðarnöfnum. Hvað segir það okkur til dæmis að bátur hafi landað fiski í Fjarðabyggð? Hann gæti hafa landað á Mjóafirði, Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði eða Stöðvarfirði. Allir þessir staðir tilheyra Fjarðabyggð. Fleiri álíka dæmi er hægt nefna um land allt eins og til dæmis Vesturbyggð, Fjallabyggð og jafnvel Hrísey. Ekki dettur okkur til hugar að tala um að atburður sem gerist í Hrísey hafi orðið á Akureyri, en þetta er nú samt sama sveitarfélagið.

Nýju sveitarfélaganöfnin á fyrst og fremst að nota þegar fjallað er um stjórnsýsluna og eitthvað sem sameiginlegt er fyrir allt sveitarfélagið. Sama má segja um umdæmi sýslumannanna. Þau eru yfirleitt kennd við einn stað af mörgum á viðkomandi svæði. 

Hvers eiga Seyðfirðingar að gjalda í tilfelli eins og nefnt var í upphafi. Kannski eru þeir allir saklausir af hraðakstri en tilteknir ökumenn teknir einhversstaðar langt í burtu frá þeim; á Héraði eða jafnvel upp á Jökuldalsheiði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband