Er 25 ára gömul martröð að endurtaka sig?

Spádómarnir um lækkun íbúðaverðs minna óneitanlega á það sem gerðist árið 1983, þegar misgengið svokallaða varð. Þá lentu fjölmargar fjölskyldur í því að tapa öllu sínu á einni nóttu. Ákvörðun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar, sem þá var við völd, réði þar öllu. Fram að ákvörðun þeirra félaga um að banna vísitölu á laun höfðu afborganir fólks af húsnæði sínu og laun haldist í hendur, hvorttveggja var verðtryggt. Þegar þessi "snjalla" ákvörðun var tekin gerðist það að afborganir lána urðu allt í einu himinháar og jafnvel hærri en launin, enda fór verðbólgan mest í ein 130% á þessum tíma. Þessi 8-9% verðbólga nú er því smámunir í þeim samanburði.

En hringavitleysan með lánskjaravísitöluna er enn og aftur að koma í bakið á þeim sem fara þurfa út í þann sjálfsagða hlut að eignast húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Einna verst bitnar þetta jafnan á ungu fólki, sem ekki hefur úr miklu að spila til íbúðakaupa. Hinir, sem hafa allt sitt á þurru, með peningaeignirnar á góðum vöxtum og vísitölutryggðar að auki, þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu. Þeirra er jafnvel hagurinn, helst að gengisþróunin pirri þá eitthvað.

Árið 1983 var verið að kenna launavísitölunni um verðbólgu, þrátt fyrir að hún væri afleiðing en ekki orsök. Því er ekki að heilsa nú. En Davíð og félagar í Seðlabankanum sjá auðvitað lækkandi verðbólgu, lækki húsnæðisverð. Húsnæðisverðið vegur nefnilega ein 26% í neysluvísitölunni. Svo furðulegt sem það nú er að húsnæði til að búa í sé flokkað sem neysla, það er nauðsyn og ætti að vera sjálfsagður réttur hvers manns. Hækki húsnæðisverðið fer þessi heimatilbúna verðbólga upp en lækki það fer hún niður. - Gáfulegt, eða hitt þó heldur. - Burt með lánskjaravísitöluna. Fyrst Davíð og co ætla að stýra með vöxtum þá eiga þeir að geta það án lánskjaravísitölu, það er hægt annarsstaðar. - Gerum fólki bærilegt að eiga húsnæði til að búa í.


mbl.is Úr 5 milljónum í plús í 5,5 milljónir í mínus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll; Haraldur !

Þakka þér; dýrmætt innleg, í umræðuna.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 14:57

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Það er rétt hjá þér, sem skrifar án íslensks leturs, hlutabréfakaup og kaup íbúðarhúsnæðis virðast lögð að jöfnu hér á landi. - Ég spyr: Hvað er eðlilegt við það? - Hlutabréfakaup eru að sjálfsögðu áhætta en það á ekki að vera sambærileg áhætta að kaupa íbúðarhúsnæði yfir sig og sína fjöldkyldu. - Meðan við höfum lánskjaravísitöluna og þær forsendur sem notaðar eru við útreikning hennar, þá verður slík nauðsynleg fjárfesting áhætta á við hlutabréfakaup. - Því þarf að breyta.

Haraldur Bjarnason, 13.4.2008 kl. 20:27

3 identicon

Þá er næst á dagskrá að kjósa Ömma og félaga í ríksstjórn, til þess að koma á, aftur hátekju og fyrirtækja sköttum, þá hrynur yfirbyggingin á stuttum tíma og verðbólgan minnkar.  

Lárus Baldursson (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 03:58

4 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Fyrirgefðu Lárus en ég sé ekki samhengið í þessu hjá þér, alla vega ekki varðandi íbúðarhúsnæðið. Ef Ömmi og félagar vilja hætta þessari áhættutengingu íbúðarlána, fella niður lánskjaravísitöluna í núverandi mynd og tryggja það að fólk geti átt íbúðarhúnæði fyrir sig og sína án þess að standa í einhverju gambli, þá má kjósa Ömma og félaga fyrir mér. Hátekju- og fyrirtækjaskattar eru annað mál en ég get ekki séð annað en allir stjórnmálaflokkar haldi einhverri verndarhendi yfir þessari lánskjaravísitölu og forsendunum fyrir útreikningi hennar. Hef í það minnsta ekki séð tillögur um annað frá neinum þeirra.

Haraldur Bjarnason, 14.4.2008 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband