Öll hagræðingin hefur kostað aukna olíubrennslu

Á sama tíma og Al Gore kemur hingað til lands og mærir okkur Íslendinga fyrir að nýta umhverfisvæna orku og vera til fyrirmyndar á sviði umhverfismála ber hæst í umræðunni hjá okkur hve hátt verð á bensíni og olíu sé hér á landi. Við ráðum svo sem ekki miklu um heimsmarkaðsverð á eldsneyti en við getum ráðið talsverðu um áhrif þess hér á landi. Við getum ráðið nokkru um verð eldsneytisins hér á landi og miklu um hve mikið við notum af því.

Við eigum svo sem ekki að þurfa Bandaríkjamann til að segja okkur til í þessum efnum. Sú þjóð hefur síður en svo verið til fyrirmyndar í umhverfismálum. Kanar eru líklega einir mestu umhverfissóðar heims og bruðla óþyrmilega með eldsneyti. Gore vonaðist að vísu eftir breyttum tímum í þeim efnum með nýjum forseta. Við getum hins vegar tekið talsvert til í okkar ranni þvert á það sem við höfum gert að undanförnu. Það á ekki bara við um einkabílana þótt flestir taki fyrst eftir hækkun eldsneytisverðs við að fylla á þá.

Orkuverin okkar menga vissulega ekki þótt þau hafi tekið sinn toll af náttúrunni. Það gera hinsvegar málmbræðslurnar sem knúnar eru með orkunni en þó eru þær án efa mun betur búnar mengunarvörnum en víðast hvar annars staðar í heiminum.

Hvað höfum við verið að gera að undanförnu til að minnka notkun olíu og bensíns? - Ekki neitt.-Frekar höfum við aukið notkunina. Við höfum flutt alla vöruflutninga af sjó upp á land og eyðum þannig margföldu eldsneyti á hverja flutningseiningu umfram það sem væri ef strandflutningar með skipum væru til staðar. Um leið aukum við álagið á vegina og eitthvað fer af tjörunni og orkunni í að halda þeim við og auka við þá umfram það sem þyrfti ef þungaflutningar um þá væru ekki svona miklir. Almenningssamgöngur eru ekki gerðar fýsilegar fyrir almenning og gaman væri að einhver talnaglöggur myndi reikna út hvort ekki sé þjóðhagslegur sparnaður af ókeypis almenningssamgöngum í strætó og áætlunarbíla.

Auk þessa hefur, í nafni hagræðingar, verið lokað úrvinnslustöðvum fyrir sjávar- og landbúnaðarafurðir víða um land. Nú er svo komið að sláturhús eru örfá í landinu, mjólkurstöðvar aðeins á örfáum stöðum, fiskvinnslum hefur fækkað. Tollhöfnum hefur fækkað og svona má lengi telja. - Allt kallar þetta á aukna flutninga. Þeir fara fram á landi með mikilli olíueyðslu með tilheyrandi mengun og allt er þetta á endanum borgað af almenningi með hærra verði á vörum og þjónustu.

Er ekki kominn tími til að taka aðeins til í þessum málum og skoða hvort öll hagræðingin er hagræðingarinnar virði?


mbl.is Margir sporna gegn breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband