Rangar og illa skrifaðar fréttir á vefmiðlunum

Hvað er eiginlega að gerast í þessum vefmiðlum? - Ítrekað fara þeir með rangt mál í fréttum, óvart kannski en að því er virðist stundum viljandi. - Málvillur eru áberandi og orðanotkun ábótavant. - Ekki eru þetta venjulegar prentvillur, maður horfir fram hjá þeim og skilur vel að ekki er allt prófarkalesið að fullu, sem fer í gegnum þessa miðla.

Þetta virðist ekki einskorðast við einhvern ákveðin miðil. Þó finnst mér visir.is fara heldur geyst í getgátum og vafasömum fréttaflutningi, sennilega hefur sá miðill forystuna í þeim efnum. Til dæmis er hún svo ótrúleg þessi frétt um líkamsræktartækin hjá Orkuveitunni, sem þar birtist, að hún hreinlega getur ekki verið rétt. - mbl.is hefur líka verið með rangar fréttir og ekki síst fyrirsagnir sem hafa verið út úr kortinu. Þetta er þó ekki eins áberandi þar.

Svo er málfarið sér kafli og líklega einna lakast á mbl.is. Gera þarf verulegt átak í því. Nærtækt dæmi er í fréttaflutningi um eldsneytisverð síðustu daga. Ítrekað er skrifað lítir í fréttunum þegar verið er að segja frá lítra, hvaðan sem þetta nú kemur. Oft hefur líter sést á prenti hér og það eru erlend áhrif en lítir er það nýjasta. Þetta er ofur einfalt á íslensku: lítri, um lítra, frá lítra, til lítra. Sama gildir um metra, en meter er ekki íslenska. Svo er nafnorðamyndunin algeng. Í dag getum við séð á mbl.is að vöntun sé á atvinnuhúsnæði á Austurlandi, þegar betur færi að segja frá því að atvinnuhúsnæði vantaði. Fyrirsögnin á næstu frétt er svo: "Mikil aukning á útflutningi á skyri". Færi ekki betur að segja: Aukinn skyrútflutningur - eða: Skyrútflutningur eykst.

Þetta er bara það sem sést í fljótu bragði. - Takið ykkur nú á í þessum efnum, þið sem stýrið vefmiðlum. Vandið vinnubrögðin.


mbl.is OR hefur enga ákveðna kaupendur í huga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband