Nú kemur "sjokk" áður en jafnvægi kemst á
2.4.2008 | 08:30
Það er svolítið athyglisvert að sjá þessa fyrirsögn á fréttinni um að ÍAV bjóði ekki í fleiri verk á Austurlandi. Þar kemur í raun fram að ÍAV sé búið að afskrifa Austurland. Ólíklegt þykir manni nú að þeir slái hendinni á móti því ÍAV-menn bjóðist þeim einhver feit verkefni eystra. Ljóst virðist samt að væntingarnar voru meiri en síðar kom í ljós. T.d. hefur ÍAV ekki byggt öll þau íbúðarhús sem til stóð og ekki heldur selt allt sem búið er að byggja.
Þetta er kannski nokkuð sem margir bjuggust við. Að verið væri að búast við of miklu að loknum virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum. Ekki virðist mikið um aðflutning fólks vegna þessa og ef maður skoðar íbúatölur þá eru það fyrst og fremst Egilsstaðir og Reyðarfjörður sem notið hafa fjölgunar. Svo virðist því sem stærri hluti starfa vegna þessa sé mannaður með heimamönnum, en búist hafi verið við, sem aftur kemur þá niður á þeim atvinnugreinum sem fyrir voru.
Stórverktakar eins og ÍAV sjá hinsvegar ekki fram á stóra hluti eystra á næstunni. Reikna má með einhverju smá "sjokki" á íbúðamarkaði næstu árin en þó hefur ekki verið byggt meira en svo að það ætti að jafna sig fljótt. Þessi reynsla er þekkt annarsstaðar þegar mikið stökk verður í atvinnumálum, eins og t.d gerðist á Akranesi við tilkomu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga 1978. Stóriðjuframkvæmdir á Grundartanga eftir það voru ekki eins mikið stökk, þannig að sveiflurnar urðu ekki eins miklar núna á síðari árum.
ÍAV býður ekki í fleiri verk á Austurlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eitthvað grunar mig að þetta sé bara byrjunin á draugabænum Egilsstöðum, en vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Hver vill flytja í bæ sem ekki á sér samkomustað? Eini barinn er í litlum kjallara í gömlu fangelsi en sá fer sjálfsagt á hausinn eins og allir barir sem þar hafa verið, listasamkomur fara fram í gömlu sláturhúsi og þau fáu böll sem haldin eru, fara fram í litlu íþróttahúsi í Fellabæ. Skelfilegt ástand á félagslífinu eystra.
Björgvin Gunnarsson, 2.4.2008 kl. 08:51
Var ekki við búið að ÍAV myndi hverfa af vettvangi þegar hægði á dansinum í kringum gullkálfinn? Það var enginn sem lofaði ÍAV gulli og gersemum um ókomna framtíð. Í allri umræðu um álver og störfum því tengdu finnst mér alltaf gleymast öll þau afleiddu störf sem bygging álversins og virkjunin við Kárahnjúka hafa skapað og þau eru flest að ég held utan fjórðungs. Ég syrgi það ekki þó ÍAV hverfi frá Austurlandi, eins og þú segir réttilega Halli þá má búast við smá "sjokki" á íbúðamarkaðinum, en ég held að það vari stutt. Austurland hefur upp á að bjóða allt sem þarf, þetta er land tækifæranna.
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 2.4.2008 kl. 08:59
Þú ert nú kannski óþarflega svarstýnn Björgvin að tala um draugabæ. Staðreyndin er nefnilega sú að fjölgunin eystra er nær eingöngu á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Hinsvegar er þetta rétt hjá þér með skemmtanahaldið, bærinn er þó eitthvað að reyna ða klóra í bakkann með Valaskjálf. Listasamkomur í sláturhúsinu hafa tekist vel og eru dæmi um framtakssemi unga fólksins, þótt sláturhúsið sjálft minni nú svolítið á Laugaveginn í Reykjavík. Spurning hvort fólk eigi alltaf að bíða eftir bæjaryfirvöldum í svona málum. - Það er rétt Elma, það mátti svo sem búast við þessu, eins og þú sérð af pistli mínum. Hitt er verra ef þessu afleiddu störf, sem þú talar um, verða afleit því þau hljóta að kallast það ef heimamenn sjá ekki fyrst og fremst um þau. Það kemur kannski að því að aðkomumennirnir sem sjá um þau verði heimamenn.
Haraldur Bjarnason, 2.4.2008 kl. 09:26
Verum bjartsýn eins og forsætisráðherrann. Það má þá alltaf eins og hann gerir - kenna öðrum um!
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 2.4.2008 kl. 09:44
Ég held nú að íbúðarverð megi alveg við smá dýfu þarna fyrir austan, þessar hækkanir voru algjörlega úr hófi og bjartsýnin líka. En það er nú að birta yfir skemmtanamálum fyrst bærinn er nú búin að leigja Valaskjálf, þó svo að erfitt gæti reynst að finna rekstraraðila.
Björgvin ég hef nú alltaf litið á þig sem listamann og hélt þú myndir því gera þér grein fyrir því að það er list útaf fyrir sig að hýsa listasamkomur í gömlu sláturhúsi, og ekki hef ég heyrt listamenn kvarta yfir því húsnæði.
Andrir (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.