Um er að ræða að líta við og staðsetja aðilann í þessari aðstöðu

Allskonar orðskrípi og afbakanir breiðast oft hratt út í málfari fólks og líta svo sem ekki vel út í fyrirsögn eins og hér að ofan. Áður fyrr var þágufallssýkin algeng og mönnum hlakkaði til, þeim langaði og allt það. Þágufallssýkin er vissulega til ennþá en kannski meira áberandi í öðrum orðasamböndum. Nú er t.d. algengt að heyra fólk segja: spáðu í því. - Þarna er greinilega verið að rugla saman spáðu í það og pældu í því - Í morgun heyrði ég í útvarpinu viðtal við mann, sem ætlar að aðstoða útlendinga við að telja fram til skatts, sífellt tala um skattskýrslu þegar hann var að tala um skattframtal - Skattskýrsla er eitthvað sem kemur mun seinna, þegar álagður skattur liggur fyrir. Í eina tíð var þessi skýrsla til sérprentuð og var vinsælt lesefni. - Svo er alltaf verið að líta um öxl í auglýsingum. "Littu við hjá okkur" - Þarna er verið að rugla saman komdu við og líttu inn. Ein aðal tískan núna er að staðsetja allt mögulegt og líka um er að ræða. - Hvorttveggja er vinsælt í fasteignaauglýsingum. Dæmi þegar einbýlishús er auglýst: Um er að ræða einbýlishús staðsett í góðu hverfi. - Ef um er að ræða og staðsett eru fjarlægð úr textanum breytist ekkert. Sama má segja um ofnotuð orð eins og aðstaða, aðili og magn. - Oftast nær, ef ekki alltaf, eru þessi orð óþörf. -Tískuorðin eru án efa oft komin til vegna þess að fólk ætlar að fegra mál sitt og fer þá að nota þessi orðskrípi en einfaldleikinn í texta er alltaf bestur og skilar því sem þarf að segja.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband