Aukinn kostnaður með "sparnaði"
11.3.2008 | 17:27
Nú hefur forstöðumaður Borgarnessskrifstofu Fasteignamats ríkisins sent forsvarsmönnum sveitarfélaga á Vesturlandi og Vestfjörðum bréf vegna áforma forstöðumanns Fasteignamatsins um að leggja niður skrifstofu stofnunarinnar í Borgarnesi og á Egilsstöðum. Þar bendir forstöðumaðurinn m.a. á að af þessu verði ekki sparnaður heldur þvert á móti kostnaður. Fróðlegt væri að fá svipað álit að austan, því líklegt má telja að enn meiri kostnaður hljótist af lokun þeirrar skrifstofu, heldur en skrifstofunnar í Borgarnesi. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur þegar mótmælt lokun skrifstofunnar á Egilsstöðum og byggingarfulltrúi í Fjarðabyggð lýsti áhyggjum sínum af lokun skrifstofunnar á Egilsstöðum í fréttum RÚV. Fyrir utan það að ganga þvert á stefnu stjórnvalda um að auka starfsemi ríkisstofnanna utan Reykjavíkur, þá virðist augljóst að í þessu tilfelli er ekki verið að ná því fram sem forstöðumaður Fasteignamatsins rískisins ætlar. Það er að spara peninga. - Þvert á móti eykst kostnaður og þjónusta, við alla þá sem þurfa á henni að halda, minnkar. Til hvers er þá farið af stað með þessa furðulegu aðgerð? - Forstöðumaðurinn segir ástæðuna sparnað en ekkert heyrist frá þeim sem eiga að ráða, hvorki ráðherra né þingmönnum. - Kannski eru Austfirðingar að bíta úr nálinni með að vera komnir í hið landmikla Norðausturkjördæmi. Það er jú skrifstofa frá þessari stofnun á Akureyri og það finnst stjórnanda Fasteignamats ríkisins líklega nóg fyrir eitt kjördæmi, þótt mörg hundruð kilómetrar skilji að Akureyri og þétbýlisstaði á Austurlandi og yfir marga fjallvegi að fara.
Vill FMR áfram í Borgarnesi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.