Nýtum Ítalaborinn

Síðasti ofurborinn, sem Impregilo hefur notað við jarðgangagerð vegna Kárahnjúkavirkjunar, fer senn að ljúka hlutverki sínu. Hinir 2 borarnir eru þegar farnir úr landi. Nokkuð langt er síðan Austfirðingar fóru að hreyfa þeirri hugmynd að nýta þennan síðasta bor til að bora í gegnum Austfjarðafjallgarðinn og tengja saman firði og Hérað enda nærtækast að nýta hann á Austurlandi, þar sem hann er nú. Umræðan hefur nú blossað upp að nýju og verið nokkuð áberandi hér á blogginu eftir að Stöð 2 og vísir.is fóru að segja frá málinu. Ekkert hefur hinsvegar sést um þetta í Mogganum, enda þekkt þar á bæ að bíða aðeins með umræðu ef hún hefst ekki í Mogganum en síðan koma Moggamenn fram á sviðið með nýjan vinkil og láta sem ekkert hafi heyrst af málinu áður. Borinn, sem eftir er hér á landi á víst nokkuð langt eftir af líftíma sínum en fróðir menn segja að um 1 milljarð kosti að koma honum í gott ástand með nýrri krónu og öllu sem til þarf. Nú hefur Vegagerðin komið til liðs við heimamenn fyrir austan um að skoða þetta mál. Hugmyndin um að tengja saman firði og Hérað með jarðgöngum frá Eskifirði, um Norðfjörð, Mjóafjörð og Seyðisfjörð er yfir 30 ára gömul en henni var svo lyft upp aftur með stofnun samtaka sem kalla sig "Samgöng". Það er auðvelt að sjá á landakorti hve þetta liggur beint og þessi tenging yrði algjör bylting á samfélaginu. Miklar rannsóknir hafa nú þegar verið gerðar á sumum þessara staða og eflaust nýtast þær til að byggja ofan á. Þessi framkvæmd ætti ekki að þurfa að hafa áhrif á aðrar samgöngubætur í landinu og brýnt að skoða hvort þetta er raunhæfur möguleiki, eins og reyndar nokkrir fagmenn á þessu sviði hafa þegar bent á. Drífum í að skoða þetta áður en ítalirnir senda borinn úr landi. - Jarðgöng eru einföldustu og ódýrustu samgöngu- og samfélagsúrbætur hér á landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Mjög hlynntur jarðgöngum, en alger óþarfi að hlaupa til og kaupa eitthvað dót.

Íslensk verktakafyrirtæki kaupa bara 1 stykki bor, ef næg verkefni verða til staðar, það voru Íslensk fjármögnunarfyrirtæki sem fjármögnuðu kaupin á þessum borum í upphafi og eflaust hægt að gera það aftur ef hagkvæmt.

Menn mega ekki missa sig yfir einhverju notuðu dóti frá Impreglio í ákafanum, og að ætla sér að fara að fara að bakka aftur inn í ríkisreksturinn, held ég að sé hæpin draumsýn.

Eru menn búnir að gleyma öllum vikunum sem borarnir hafa verið stopp, vegna lausa bergs og vatnsaga.

Eru menn búnir að kanna bergið og tala við þá sem hafa verið að starfa inn í göngunum, eða er þetta svona skemmtileg hugmynd yfir kaffispjalli.

Vilja menn virkilega, og halda menn virkilega, að pólitískir aðilar eigi að hafa vit fyrir Íslenskum verktökum, sem sumir hverjir hafa áratuga reynslu af jarðgangnagerð, bæði hér heima og erlendis.

Endilega að setja upp verkáætlun fyrir rannsóknarboranir, og byrja að fá hæfa verkfræðistofu til að vinna útboðsgögn.

Endilega að ákvarða framkvæmdaröðina og tryggja fjármögnun verkefnanna.

Endilega að gefa verktökum kost á að bjóða í fleirri jarðgöng í einu, og mynda þannig langan samfelldan verktíma.

Svo opnum við bara göngin og verðum glöð, en reinum ekki að ákveða hvort verktakarnir nota hamar og meitil eða bor á spori, það hlýtur að vera verktakans að ákvarða hvaða tæki hann notar.

Nema ef menn vilja endilega stofna Ríkisborinn OHF

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 3.3.2008 kl. 09:51

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þorsteinn bloggar: "Eru menn búnir að gleyma öllum vikunum sem borarnir hafa verið stopp, vegna lausa bergs og vatnsaga."

Verk í venjulegri sprengivinnu ganga á mjög mismunandi hraða og ekki er fljótlegt að vinna laust berg með spengiefni, svo ekki sé minnst framvinduna þegar vatnselgurinn er mikill við gangagerðina.

Áfram heldur Þ. "Menn mega ekki missa sig yfir einhverju notuðu dóti frá Impreglio í ákafanum"

Borinn er notaður og er sjálfur talsvert burðarvirki og ætti ekki að þurfa svo mikið viðhald sem slíkur.  Mótorar, legur, tjakkar og þess háttar ganga að sjálfsögðu úr sér.  Stofnkostnaðurinn við að kaupa þennan bor er ekki mikill og ef verktakar telja að hér sé stóra tækifærið, - hví þá ekki að nota það??

Ekki er búið að kanna nákvæmleg þennan stað, en talsverð þekking er nú þegar til staðar á austfirskum fjöllum.  Göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar eru nokkuð vel kotlögð og Oddskarðsgöngin segja ákveðja sögu. 

Nýbúið er að grafa göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og svo ekki sé minnst á göngin undir Fljótsdaslheiði, þar sem gríðarleg reynsla byggðist upp með borum við íslenskar aðstæður.

Ríkið þarf að koma að þessu verkefni, með að samþykkja verkáætlun og fresta núverandi áætlun um göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, þar til heildstæð mynd verður komin af verkefninu.

Ekki skiptir okkur austfirðinga máli hvort OHF Ríkisbor vinni verkið, - bara ef við fáum göngin.

Benedikt V. Warén, 3.3.2008 kl. 12:52

3 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Ef menn hafa svona mikla trú á bornum, þá stofna menn félag um kaupin og bjóða svo í gangnagerð, til dæmis Sundagöng.

Sé enga ástæðu fyrir Ríkið til að fjármagna svona dótskaup, eða eru menn að tala um sér fyrirgreiðslu, fyrir sér verkefni, og vera ekkert að bjóða þetta út.

Þú segir Benedikt  "Verk í venjulegri sprengivinnu ganga á mjög mismunandi hraða og ekki er fljótlegt að vinna laust berg með sprengiefni, svo ekki sé minnst framvinduna þegar vatnselgurinn er mikill við gangagerðina".

Það var oft rætt um það upp á Kárahnjúkum, að gera hliðargöng við borana, til að komast með búnað framfyrir krónuna og ná upp hraða í gegn um lausa efnið, þeir sem þetta ræddu voru menn með áratuga reynslu af gangnagerð með bæði gangnaborum og með borun og sprengingum.

Ef Austfirðingar vilja kaupa borin er þeim það frjálst, en ef þeir ætla að láta Ríkissjóð kaupa hann handa sér, hljóta menn að vera í glasi.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 3.3.2008 kl. 14:07

4 Smámynd: Benedikt V. Warén

Tækninni fleygir fram og nýustu fréttir herma að hægt sé að koma fyrir í krónununni grennri bor sem vinnur á undar heildargræjunni.  Þannig er hægt að kanna bergið fyrir framan stóru borkrónuna og í gegnum þann búnað er hægt að sprauta og þétta bergið fyrir framan. 

Ég er ekki oft í glasi og fyrir mér skiptir engu hvort Ríkisbor er ohf eins Landsvirkjun er ehf (ætti að vera ohf).  Aðalatriðið er að vinna verkið, ekki vera í einhverju trúarbragðarugli, eins og að setja það fyrir sig hvort hlutirnir séu í einkaframkvæmd eða ekki.  Ég er hreint ekkert á móti einkaframkvæmd eða öðru fyrirkomulagi, en það eitt og sér má ekki trufla verkefnið. 

Ég játa það fúslega að ég er fráleitt sérfræðingur í sprengivinnu, vitnaði bara í það sem ég hef lesið í fréttum um seinagang í sprengivinnu í Héðinsfjarðagöngum og í göngum á milli Rfj. og Fáskr.fj. vegna þess sem ég tíundaði hér að framan.

Benedikt V. Warén, 3.3.2008 kl. 14:45

5 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Obb, obb, obb - hvaða smámunasama karp er hér á ferðinni. Málið er ekki flókið. Menn þurfa að leggjast í það að fullkanna möguleikana á að nýta þennan bandaríska bor sem Ítalirnir hafa verið að nota með góðri hjálp Kínverja. Ég veit að nú þegar hafa verkfræðingar og fleiri kannað þetta lítillega og telja góðan kost. Þá hafa síðustu þrjá áratugi verið gerðar jarðvegsrannsóknir í Austfjarðafjallgarðinum, allt frá því að þessi hugmynd kom upp fyrir rúmum þremur áratugum. Á þeim grunni hlýtur að vera hægt að byggja. - Hver eða hverjir hrinda þessu í framkvæmd skiptir ekki máli, hvort það er ríki, sveitarfélög, einstaklingar eða fyrirtæki. Aðalmálið er að kanna þetta vel svo menn missi ekki af tækifærinu, ef það er raunhæft. - Og í lokin vil ég biðja þennan Ólaf Þór Eiríksson, sem sjálfur er með læsta bloggsíðu, að vera ekki að abbast upp á annarra síður með einhverjar billegar auglýsingar. 

Haraldur Bjarnason, 3.3.2008 kl. 21:11

6 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Er eiginlega bara að benda mönnum á að það er verkkunnáttan sem skiptir máli en ekki dótkaup pólitískra aðila.

Endilega nota tíman til að vinna gangnagerð fylgi, en ekki eyða honum í ofurtrú á borum sem henta jafnvel ekki til verksins.

Látum verktakanum sem kemur til með að vinna verkið eftir að velja sér búnað.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 3.3.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband