Þeir fiska sem róa
28.2.2008 | 22:41
Þetta eru flottar fréttir af loðnuveiðunum og í rauninni í takt við það sem skipstjórnarmenn og margir aðrir voru búnir að segja. Enn einu sinni hafa heilu fiskistofnanir synt framhjá reiknilíkönum Hafró. Það var líka athyglisvert að heyra viðtalið við reynsluboltann Magnús Þorvaldsson skipstjóra í útvarpinu í morgun. Hann er nú við stjórnvölinn á Víkingi AK-100 og var í morgun á leið til Vopnafjarðar með fullfermi, 1.350 tonn. Magnús sagðist vera á hálfgerðum "vísindaveiðum" með fiskifræðing um borð. Af heildaraflanum komu 1.000 tonn í einu kasti sem stjórnað var af skipstjóranum sjálfum, með tilliti til aðstæðna. Minna kom út úr "vísindaköstunum". - Er ekki að koma í ljós enn einu sinni að ekki er hægt að reikna út fiskistofna í hafinu með fyrirframgefnum formúlum, sem menn sitja algjörlega fastir í, samanber þorskinn og togararallið? - Hið fornfræga sannast enn og aftur: "Þeir fiska sem róa". - Smá ábending í lokin vegna fréttarinnar á mbl.is: Faxi og Ingunn eru ekki systurskip. - Systurskip eru tvö eða fleiri samskonar skip, en ekki tvö skip í eigu sömu útgerðar eins og Faxi og Ingunn eru.
Falleg loðna í þéttum torfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.