Norðfjarðarhöfn
23.8.2010 | 08:48
Ég skil ekki af hverju svo oft er farið að tala um Neskaupstaðarhöfn síðustu árin. Þessi höfn var alltaf kölluð Norðfjarðarhöfn enda er hún við Norðfjörð. Neskaupstaður var eingöngu nafn á sveitarfélaginu við Norðfjörð sem síðan sameinaðist nágrannasveitarfélögum og heitir nú Fjarðabyggð. Þess vegna er enn eðlilegra nú en áður að tala um Norðfjarðarhöfn.
Ég man eftir því að heyra Jóhannes heitinn Stefánsson fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Neskaupstað segja frá því að nafnið Neskaupstaður hafi ekki verið hugmynd heimamanna heldur hafi það orðið til við meðferð kaupstaðarréttindamáls á Alþingi. Heimamenn höfðu alltaf reiknað með að kaupstaðurinn yrði nefndur Norðfjarðarkaupstaður eins og reyndin var með hina Austfjarðakaupstaðina; Eskifjarðarkaupstað og Seyðisfjarðarkaupstað. Jóhannes sagði niðurstöðuna á Alþingi hafa verið að halda í Nes-nafnið þar sem hreppsfélagið, sem á undan var, hafði verið kennt við Nes í Norðfirði.
Annars er þessi frétt um umsvifin í Norðfjarðarhöfn ánægjuleg og sýnir að mikil uppbygging þar síðustu áratugi hefur heldur betur skilað sér.
Miklu landað í Neskaupstaðarhöfn um helgina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.