Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Kallast bílþjófnaður nú nytjastuldur?

Alltaf er jafn athyglisvert að skoða málfarið á fréttunum, sem birtast á þessum ágæta vef. Daglega koma mörg dæmi um skrítið málfar, óþarfa málskrúð og margvíslegar ambögur. Í þessari frétt um ökumann sem grunaður er um að hafa verið dópaður að aka bíl, segir að ökumaður sé einnig grunaður um nytjastuld á ökutækinu sem hann ók.

Nú spyr ég: Er einhver munur á nytjastuldi og bílþjófnaði, sem maður hefur heyrt um hingað til? - Það má vel vera, ég veit ekki. (Smá viðbót. Svona eftir á að hyggja þá hlýtur nytjastuldur að vera eitthvað sambærilegt við veiðiþjófnað. Svoldið erfitt að tengja það við bílþjófnað)


mbl.is Einn grunaður um fíkniefnaakstur á Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á vísan að róa

Ekki tók það langan tíma að ná fyrstu hrefnunni enda nóg af þessum skepnum við landið og aðeins veður getur truflað veiðar. Mikið líf segja sjómennirnir og mikið af hnúfubak líka. Það mætti nú fækka talsvert í þeim hópi og fróðlegt væri að vita hve stórum hlut af loðnustofninum hnúfubakurinn mokar í sig. Í það minnsta hefur verið nóg af honum í loðnutorfunum á vertíðunum og oftar en ekki er hann inn í nótinni líka til vandræða og skemmda.

Það er greinilega á vísan að róa við veiðar á hvaða hvalategund sem er.


mbl.is Fyrsta hrefnan veidd á Faxafló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagamenn koma upp hægt og sígandi

Sjálfsmark og ekki sjálfsmark. Mark var það og það eru mörkin sem gilda. Þetta kemur hægt og sígandi hjá mínum mönnum. Hef trú á liðinu þó mér hafi fundist hann óttalegur frummaður í markinu þessi Dani í leiknum á móti FH. - Gaui kann að ná því besta út úr strákunum.- Menn þurfa ekkert að fara á límingunum út af rólegheitum í byrjun móts, það hefur oft gerst áður. - Áfram Skagamenn!!!
mbl.is Sjálfsmark Auðuns tryggði ÍA 1:0-sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbragðsaðilar bjarga aðilum

Það er alveg ótrúlegt hvað þetta hvimleiða orð aðili er mikið notað í íslenskum texta. Þetta er orð sem oftast, ef ekki alltaf er óþarft. Þessi frétt er dæmigerð: "og voru viðbragðsaðilar sendir...." - Líklega hafa þetta verið björgunarsveitarmenn sem sendir voru. - Enn verra er þetta svo síðar í fréttinni: "Tveir aðilar voru um borð í bátnum". Ég býst við að tveir menn hafi verið um borð í bátnum og þeir líklega sjómenn.

Fyrir mestu er þó að sjómennirnir komust heilir frá þessum hremmingum, sem er meira en hægt er að segja um blaðamanninn sem skrifaði þennan slæma texta því hann er að auki hlaðinn innsláttarvillum.

Viðbót kl. 20:50: Búið er að kippa aðilum út úr textanum en innsláttarvillurnar eru ennþá.


mbl.is Línubáturinn kominn upp á land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlum hagsmunum fórnað fyrir mikla

Það er athyglisvert að sjá ráðherra og fleiri tala um að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að veiða 40 hrefnur þegar Hafró hefur lagt til að veiddar yrðu 440 hrefnur. Yfirleitt hafa nú ráðamenn ekki farið undir tillögur Hafró þegar ákveðið er hvað veiða skal af fiskistofnum. Réttara væri að segja að litlum hagsmunum væri fórnað fyrir mikla með því að veiða ekki meira af hval. 

Ef við skoðum aðeins þetta með minni og meiri hagsmuni. Hvalir éta óhemju mikið af fiski og fiskur gefur okkur miklar útflutningstekjur. Best væri að hægt væri að veiða meira af hval og það stórhveli, sem valda hvað mestum usla. Ef við ætlum að tala um sjálfbærni og að halda jafnvægi í lífríkinu þá þarf að gera það. Það gæti jafnvel verið þjóðarbúinu hagstætt þótt ekki væri hægt að selja afurðirnar.

Það er líka svolítið merkilegt að ásókn í hvalaskoðun hefur aukist ár frá ári á sama tíma og stundaðar hafa verið hrefnuveiðar og meira að segja lítilsháttar veiðar á stærri hvölum. Hvar eru þá þessi hagsmunir sem tapast með hrefnuveiðunum?

Umhyggjan er mikil núna hjá ráðherrum Samfylkingarinnar en hvar er umhyggja þeirra fyrir sjómönnum landsins í ljósi mannréttindabrots, sem mannréttindadómstóllinn hefur þegar dæmt íslensk stjórnvöld sek um. - Manni finnst þeir svolítið veruleikafirrtir þessir ráðherrar og í óttalegu litlu jarðsambandi.


mbl.is Hagsmunaaðilar fagna hrefnuveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höldum friðinn

Er ekki rétt hjá okkur að reyna að halda þessu friðsældarsæti? - Eigum við ekki að kæla hugmyndir Björns og félaga um frekari sérsveitir og vopnavæðingu lögreglu, gleyma hugmyndum löggufélagsins um rafbyssur og efla mannlega þáttinn frekar í þjálfun lögreglumanna. Það er ekki nokkur vafi á að vopnlaus lögregla, ef gasið er undasnkilið og kylfurnar, hefur sitt að segja í að við erum í þessu sæti. Ofbeldi í löggæslu kallar á aukið ofbeldi og afbrot. - Höldum friðinn!
mbl.is Ísland friðsælast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún er óskiljanleg þessa dagana

Hvernig er hægt að skilja þessa yfirlýsingu utanríkisráðherra? - Svei mér þá ef þetta er ekki jafn óskiljanlegt og yfirlýsing þessa alþjóðlega dýraverndunarsjóðs, sem sagt er frá hér neðar á síðunni. Þetta eru rökin:  "Sem utanríkisráðherra tel ég að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni þrátt fyrir að kvótinn sé minni í ár en fyrri ár. Ég mun á erlendum vettvangi og þar sem þess gerist þörf útskýra þau rök um sjálfbæra nýtingu hrefnustofnsins sem að baki liggja," segir í yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar.

Ingibjörg Sólrún telur að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Ekki minnist hún á hverjir hagsmunirnir séu. Veit hún ekki að það á að veiða nokkrar hrefnur sem gnægð er af allt í kringum landið?  Það er ekki eins og verið sé að veiða stórhveli í stórum stíl, sem full þörf væri þó á. - Samt ætlar hún að útskýra þau rök um sjálfbæra nýtingu hrefnustofnsins sem að baki liggja. - Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að skilja þetta?

Stutt er síðan utanríkisráðherra var á fundi með kynsystur sinni, sem er utanríkisráðherra þjóðar sem markvisst drepur fólk víða um heim en til að fela það er handhægt fyrir þá þjóð að segjast vera á móti hvaladrápi. Skyldi Ingibjörg Sólrún ætla að skýra sjálfbæra nýtingu hvala fyrir henni? - Þvílíkur tvískynungur. - Nei það er ekki nokkur leið að skilja Ingibjörgu Sólrúnu þessa dagana.


mbl.is Hagsmunum fórnað með veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IFAW hefur ekki áhyggjur af hvölum heldur efnahag Íslendinga

Þetta er svolítið athyglisverð frétt um gagnrýni á væntanlegar hrefnuveiðar. Þessi Alþjóðlegi dýraverndarsjóður virðist ekki vera með dýravernd í huga. Forsvarsmenn þessa sjóðs hafa meiri áhyggjur af efnahag Íslendinga heldur en smáhvelastofninum sem á að veiða úr. Þessi tilvitnun í Bretann sem er í forsvari segir allt sem segja þarf:

Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að endurskoða þessa ákvörðun. Atvinnuhvalveiðar gætu skaðað verulega hinn viðkvæma efnahag Íslands og alþjóðlegan orðstír þess," segir Robbie Marsland, leiðtogi Bretlandsdeildar samtakanna í tilkynningu.

Áhyggjurnar eru sem sagt allar af efnahag Íslendinga en ekki hvalastofnum. Kannski er þetta af því þetta er dýraverndarsjóður en ekki dýraverndarsamtök. - Í það minnsta er erfitt að skilja þessi skilaboð sem umhyggju fyrir hrefnustofninum. Frekar skilst þetta sem hótun um peningaofbeldi. 


mbl.is Gagnrýna væntanlegar hrefnuveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein nauðgunin á listahugtakinu

Ekki trúi ég því upp á vini mína Seyðfirðinga, önnur eins snyrtimenni og þeir eru, að þessi sóðaskapur að líma einhver plaköt á veggi í henni Reykjavík með einhverjum kynþáttafordómatexta sé á þeirra vegum. Af fréttinni má ráða að þetta hafi verið með vitund forstöðukonu þeirrar frábæru menningarmiðstöðvar Skaftfells á Seyðisfirði. - Auðvitað er þetta gjörningur, fyrst og fremst slæmur og sóðalegur gjörningur á allan hátt og ekkert listrænt við hann. -  Það er líka ömurlegt hve langt virðist vera hægt að ganga í að nauðga listahugtakinu. Þótt margt sé hægt að verja í nafni lista og oft erfitt að skilgreina það hugtak, þá er langsótt að fela hreinan og kláran sóðaskap á bak vð listahugtakið.
mbl.is Ekki áróður gegn innflytjendum heldur gjörningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamóta niðurstaða

Markar þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar ekki ákveðin tímamót? Það er í það minnsta ekki oft sem stofnanir hins opinbera taka svo afgerandi afstöðu og allra síst gagnvart fyrirhuguðum framkvæmdum orkufyrirtækis. Oft eru nú einhverjar glufur eftir handa þeim. Niðurstaðan er hins vegar skýr, á mannamáli og engar málalengingar eða hártoganir til að villa um fyrir fólki. Þetta hlýtur að vera tímamóta niðurstaða.
mbl.is Bygging Bitruvirkjunar óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband