Gott framtak Gísla Sigurgeirssonar

Það er frábært framtak hjá Gísla Sigurgeirssyni að gera heimildamynd um sveitunga sinn og nágranna; þúsundþjalasmiðinn Sverri Hermannsson. Ástæða til að óska Gísla til hamingju með að skrá sögu þessa manns í máli og myndum. Ekki efast ég um að heimildarmynd þessi er vel unnin og fróðleg að sjá. Gísli hefur í áratugi starfað við fjölmiðla með Norðurland sem heimavöll og þekkir því vel til allra hluta. Nú nýtir hann sér reynsluna til góðra verka. Þetta framtak Gísla leiðir hugann að því að það sem manni þykir hversdagslegur hlutur að vinna við í fjölmiðlum verður ótrúlega fljótt að sögulegum heimildum. Það hefur oft hvarflað að mér á síðustu árum að gera eitthvað með allt það efni sem ég hef verið að vinna með í fjölmiðlum síðustu þrjá áratugina en frekar lítið orðið úr verki. Helst að ljósmyndir frá Akranesi séu farnar að þjóna sem sögulegar heimildir og þá fyrst og fremst fyrir tilurð Ljósmyndasafns Akraness, sem þeir feðgar Friðþjófur og faðir hans Helgi Daníelsson eiga öðrum fremur heiður af. Á nærri tveggja áratuga starfstíma mínum hjá RÚV tók ég ótal fréttaviðtöl og gerði marga viðtalsþætti. Þar eru ómældar heimildir, sérstaklega af Austurlandi. En þær eru sýnd veiði en ekki gefin því mikið af efni hefur farið forgörðum. Þetta hef ég kannað lítillega og í ljós hefur komið að búið er að henda mjög miklu af gömlum viðtalsþáttum sem birtust í Ríkisútvarpinu. Ástæðan var sú að alltaf var verið að spara spólurnar og því hreinsað til öðru hvoru svo unnt væri að nýta segulbandsspólurnar aftur. Talsvert er þó til af efni en ekki endilega alltaf það sem maður vildi að hefði verið geymt, enda vont að meta það á hverjum tíma hvað beri að geyma og hvað ekki. Vonandi er að ný tækni komi í veg fyrir svona slys. En framtak Gísla er gott og ástæða fyrir okkur hina, sem starfað höfum á þessum vettvangi síðustu áratugi, að horfa til hans og skoða hvort ekki leynist eitthvað áhugavert í okkar fylgsnum.
mbl.is „Henti aldrei neinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband